A A A
  • 1939 - Elínbjörg Snorradóttir
08.04.2011 - 09:50 | bb.is

Ný hestaleiga opnar á Þingeyri í sumar

Wouter og Janne mun starfrækja hestaleigu ásamt kaffihúsarekstrinum í Simbahöllinni
Wouter og Janne mun starfrækja hestaleigu ásamt kaffihúsarekstrinum í Simbahöllinni
Ný hestaleiga verður opnuð í sumar að Söndum í Dýrafirði þar sem dýrfirskir hestamenn hafa um árabil haft aðstöðu fyrir hross sín. Stofnandi leigunnar er Wouter Van Hoeymissen, sem ásamt eiginkonu sinni, Janne Kristiensen, rekur kaffihúsið Simbahöllina á Þingeyri. „Alveg frá því að ég kom fyrst til Íslands hef ég haft mjög gaman af íslenska hestinum. Stuttu eftir að ég flutti til Þingeyrar keypti ég hesta og síðan þá hefur áhuginn vaxið og nú er ég farinn að reyna fyrir mér í tamningu og slíku. Þannig ég fór fljótlega að velta fyrir mér hvort ekki væri grundvöllur fyrir hestaleigu hér á svæðinu," segir Wouter sem búið hefur á Þingeyri í sex ár. „Það gafst þó ekki tími til þess að ráðast í verkið fyrr en nú, enda hafa síðustu ár farið í að gera upp Simbahöllina," segir Wouter.

 

„Við ætlum að opna 1. júní og og verðum þá með 10 hesta til leigu, en annars verður hestaleigan opin allt árið," segir Wouter sem var á leið til Reykjavíkur með stóra hestakerru í eftirdragi þegar hann ræddi við blaðamann. „Við höfum keypt nokkur hross á Vestfjörðum og frá Skagafirði en erum nú á leiðinni suður til að skoða fleiri. Hestum á Þingeyri mun fjölga nokkuð þegar leigan verður komin af stað og vonandi mun menningin í kringum hestana eflast við þetta. Það væri t.d. gaman ef krakkarnir í grunnskólanum gætu notað hestana yfir vetramánuðina, en aðstaðan á Þingeyri fyrir hestamennsku er alveg frábær, sérstaklega eftir að reiðhöllin Knapaskjól var opnuð. Annars má búast við því að það verið gaman í hestamennskunni í sumar, hestamannafélagið Stormur á 40 ára afmæli í ár og verður ýmislegt gert í tilefni þess," segir Wouter.

 

Wouter segist langa mest til að skipuleggja lengri hestaferðir um Vesturgötu eða frá Dýrafirði fyrir Svalvoga og inn Arnarfjörð. „Það yrði tveggja daga reiðtúr og gist á leiðinni í svefnpokaplássi. Ég reikna þó með að það taki tíma að markaðssetja slíka ferð þannig þetta fyrsta sumar geri ég ráð fyrir því að fara styttri ferðir. Við ætlum líka að leigja út fjallahjól þannig fólk geti líka farið hringinn hjólandi. Ef menn vilja hvorki fara ríðandi né hjólandi þá geta menn leigt sér kajak og róið út fyrir Svalvoga, en ég verð í samstarfi með North Explorers, sem er dótturfyrirtæki Borea Adventures, og þeir ætla bjóða upp á kajakferðir í sumar," segir Wouter.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30