Ný bók frá Vestfirska forlaginu: Þorp verður til á Flateyri 3. bók
Út er komin hjá Vestfirska forlaginu Þorp verður til á Flateyri 3. bók eftir Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur. Með þessari þriðju bók um Flateyri hefur Jóhanna Guðrún lokið frásögn sinni af mönnum og málefnum á heimaslóðum í árdaga byggðar þar á mölinni.
Flateyri varð til sem þorp á síðari hluta 19. aldar. Eins og í öðrum þorpum við sjávarsíðuna allt í kringum landið, voru fiskveiðar og vinnsla aflans, ásamt þjónustu við nærliggjandi sveitir, grundvöllur byggðarinnar.
Undirstaða verksins er fréttaefni úr sendibréfum sem rituð voru um aldamótin 1900. Þau eru hluti tveggja bréfasafna sem hafa legið í ferðakofforti og kommóðuskúffu á Flateyri allar götur síðan.
Í bókunum þremur er fjallað um mannlíf, menningu og ýmsa aðra sögulega þætti á Flateyri og nágrenni á liðnum tímum. Margar teikningar eftir Freydísi Kristjánsdóttur prýða verkið og Ómar Smári Kristinsson kemur líka þar við sögu. Einnig ljósmyndir frá ýmsum tímum.
Þess skal getið að Vestfirska forlagið gerir það ekki endasleppt við Flateyri í komandi jólabókaflóði. Í nóvember mun nefnilega koma út hjá forlaginu bókin Er það hafið eða fjöllin? Um Flateyri og fólkið þar eftir Sæbjörgu Freyju Gísladóttur. Í henni er fjallað um Flateyri og íbúa þar frá ýmsum hliðum.