A A A
12.04.2017 - 07:25 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Núpur - Vilja gamla skólann fyrir fræðslusetur

« 1 af 3 »

• Hollvinasamtök Núpsskóla gefa út sögu skólans
• Halda 110 ára afmælishátíð skólans í sumar
• Samtökin vilja halda munum skólans til haga og nota til að efla ferðaþjónustu á staðnum

 

„Tilgangur samtakanna er að varðveita og hlynna að menningararfi skólasetursins. Fyrsti þátturinn var að rita sögu skólans en einnig að varðveita muni skólans,“ segir Aðalsteinn Eiríksson, fyrrverandi skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, en hann ritar sögu Núpsskóla í Dýrafirði. Bókin kemur út á 110 ára afmælishátíð Núpsskóla sem Hollvinasamtök skólans halda á Núpi í júní í sumar.

Héraðsskólinn á Núpi hætti á árinu 1992 og síðan hafa hin miklu húsakynni ýmist staðið auð eða verið notuð fyrir ferðaþjónustu á sumrin.

Ríkið er nú að undirbúa sölu skólahúsanna og lóðar. Það hefur verið gert áður en ekki hafa fengist kaupendur vegna þess hversu dýrt er að reka húsnæðið og tekjumöguleikar takmarkaðir. Skólinn verður auglýstur til sölu í þrennu lagi, hótelálmur í tveimur hlutum og gamli skólinn sér.

 

Hótelrekstur arðvænlegri

Sigríður Valdimarsdóttir frá Núpi, formaður Hollvinasamtaka Núpsskóla, segir að samtökin hafi áhuga á að eignast gamla skólann til að koma þar upp safni um sögu skólans og staðarins. Þau Aðalsteinn segja mikilvægt að varðveita ýmsa muni skólans sem eftir eru. Nefna að Hlíð, bústaður séra Sigtryggs Guðlaugssonar sem stofnaði skólann með bróður sínum, Kristni bónda á Núpi, standi enn með húsbúnaði frá hans tíma.

Nefna þau að slíkt sögusafn eða fræðslusetur gæti verið áfangastaður ferðafólks til viðbótar garðinum Skrúð sem Sigtryggur stofnaði og margir ferðamenn sækja heim.

Þau segja að það væri verðugt verkefni sveitarfélaga, ríkisins og áhugafólks að gera hótelrekstur þarna arðvænlegri og draga gesti að staðnum í meira mæli.

 

Auðgaði mannlíf sveitanna

Núpsskóli var stofnaður á árinu 1906 og fyrstu nemendurnir hófu þar nám í byrjun árs 1907. Hann var einkaskóli séra Sigtryggs sem hafði verið kennari í Eyjafirði og Fnjóskadal og stofnað þar tvo skóla. Skólinn var með lýðháskólafyrirkomulagi að danskri fyrirmynd en Sigtryggur nefndi hann Ungmennaskólann að Núpi. Ríkið kom að rekstrinum á árinu 1929 og byggði upp sem héraðsskóla fyrir Vestfirði.

„Héraðsskólarnir urðu menningarsetur og auðguðu mannlíf sveitanna. Þær þurftu virkilega á því að halda í fólksfækkuninni. Þar störfuðu þjóðkunnir menn,“ segir Aðalsteinn og nefnir skólastjórana á Núpi sérstaklega.

Eins og aðrir héraðsskólar átti Núpsskóli sín góðu og slæmu ár. Nemendur komu víðs vegar að, úr þéttbýli og sveitum, og fjölgaði ár frá ári framyfir 1970 að grunnskólalögin voru sett. Þá dró úr aðsókn úr þéttbýli og nemendum fækkaði, eins og íbúum sveitanna, þar til ekki var lengur hægt að halda úti skólastarfi vegna fámennis.

Spurður um sérstöðu Núpsskóla segir Aðalsteinn: „Séra Sigtryggur hélt uppi miklum aga og veitti aðhald að heimanámi. Margir sóttust eftir að komast í landsprófsbekkinn því það þótti trygging fyrir því að komast í gegn um landsprófið.“ Hann segir að áhrifa Sigtryggs hafi lengi gætt eftir að hann lét af störfum.

 

3.700 nemendur alls

Í skólastjóratíð Sigtryggs voru um 20 nemendur í skólanum en þeir fóru upp í 170 þegar mest var, um 1970. Aðalsteini reiknast til að tæplega 3.700 nemendur hafi sótt þangað nám. Meðal þekktra nemenda eru Steinn Steinarr, Kristján Davíðsson og Jón úr Vör og síðar Birgitta Jónsdóttir og Jón Gnarr.

 

Morgunblaðið 12. apríl 2017.

 

 

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30