Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar - 10. Hluti - Var fyrsti heimavistarbarnaskóli á Íslandi í Haukadal?
Hér birtist 10. og næst síðasti hluti þessarar umfjöllunar
úr kvikmyndahandritinu okkar Hemma heitins. Sú kvikmynd varð því miður aldrei að veruleika.
Haukadalur, framhald.
Kvenfélagið Hugrún starfaði af miklum þrótti á fyrri hluti 20. aldar og reisti samkomuhús í dalnum 1936.
Ljósmyndir: Samkomuhúsið og kvenfélagskonur.
Ungmennafélag var starfandi um tíma af miklum móð í Haukadal. Það hét að sjálfsögðu Gísli Súrsson.
Fyrsti heimavistarbarnaskóli á Íslandi?
Ljósmyndir:
Barnaskólinn í Haukadal, reistur 1885.
Fjölskylda Matthíasar Ólafssonar.
Jóhannes Ólafsson.
Ljósmynd: Barnaskólabörn í Haukadal 1954.
Árið 1885 var tekinn í notkun barnaskóli í Haukadal, sem var einn sá fyrsti á Vestfjörðum og trúlega fyrsti heimavistarbarnaskóli á Íslandi. Máttarviðir hússins voru byggðir úr austurlenskum kjörviði úr Gramsverslun á Þingeyri og var það “stórt, vandað og fagurt” segir í blaðinu Ísafold.
Forgöngumennirnir, sem flestir voru skútuskipstjórar voru 5, með Matthías Ólafsson frá Ystabæ í fararbroddi og var hann kennari skólans. Hinir voru Andrés Pétursson, skipstjóri í Höll, Kristján Andrésson, skipstjóri í Meðaldal, Sigurður Jónsson í Höll, vinnumaður og síðar skipstjóri og Ólafur Guðbjartur Jónsson, skipstjóri í Miðbæ. Greiddu þeir allt úr eiginn vasa og fengu enga styrki.
Fyrsta veturinn var kennslugjald við skólann 25 krónur á nemanda, en það jafngilti verði þriggja til fimm vetra sauðar. Sem áður segir var ekki um að ræða neinn utanaðkomandi fjárstuðning til skólans.
Þegar Haukadalsskólinn var stofnaður lá við mannfelli á Flateyri, Þingeyri og Bíldudal sökum hallæris.
Nemendur voru 17 fyrsta skólaárið, 8 piltar og 9 stúlkur.
Þessi stórmerka skólastofnun í Haukadal starfaði aðeins til ársins 1889, enda fluttist þá brauryðjandinn og kennarinn til Flateyrar. Hann sneri þó fljótlega aftur heim í dalinn sinn og tók upp merkið að nýju við að fræða börn og unglinga og gerðist mikill framfaramaður í almennum málum Þingeyrarhrepps, ásamt bróður sínum, Jóhannesi. Heita má að engin ráð hafi verið ráðin í sveitarfélaginu um langa hríð, án þess að þeir bræður kæmu þar við sögu.
Heimild: Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1984, Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli. Ljósmyndir.