Nú er smalað og smalað í Vestfirsku Ölpunum - Hvernig skyldi smalamennskum vera háttað í Færeyjum?
Þessa dagana er allt á fullu í Vestfirsku Ölpunum. Það er smalað, smalað og smalað. Á Hófsárdal, Gljúfrárdal, Þorbjarnardal, Hrafnseyrardal og inndölum hans Geldingadal og Hauksdal, Húsadal, Tjaldanesdal, Baulhúsadal. Dýrafjarðamegin í Galtardal, Kirkjubólsdal, Meðaldal og Eyrardal. Maður verður bara hálf ringlaður ef maður nefnir fleiri dali! Svo verða margir dalir teknir um næstu helgi.
Jæja. Smalamennskur eru merkilegur þáttur í mannlífsflórunni í sveitum landsins. Ekki síst þar sem byggð er á fallanda fæti eins og hér vestra. Spurning dagsins er eiginlega sú hvernig smalamennskum og réttum er háttað í nágrannalöndum okkar. Til dæmis í Færeyjum. Eða Skotlandi. Skyldi vera rifist þar? Skyldu vera teknir þar upp réttarpelar? Skyldu þeir sem eru í fyrirstöðum stundum vera teknir í gegn? Fróðlegt væri ef þeir sem vita eitthvað um þetta vildu tjá sig hér á Þingeyrarvefnum.
Hér fylgja með nokkrar myndir frá Auðkúlu, sem H. S. tók laugard. 19. sept. 2015.