A A A
  • 2012 - Freyja Dís Hjaltadóttir
Matthías Bjarnason. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.
Matthías Bjarnason. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.
« 1 af 2 »

Að bjóða upp í til sín

 

    Fyrir alþingiskosningarnar 1974 var óvenjudauft yfir fjölmennum framboðsfundi í Bolungarvík og var eitthvert slen yfir bæði frambjóðendum og kjósendum.

    Matthías Bjarnason, Vestfjarðagoðinn, hugsaði þá með sér að reyna að blása einhverju lífi í fundinn, og sagði leitt til þess að vita að þeir hefðu komið fram í tvennu lagi, kratarnir, eins og hefði verið puðað við að sameina þá. Enginn hefði lagt sig eins fram og Gylfi Þ. og það við sjálfan Hannibal.

   Matti hélt áfram og sagði að þetta hefði virst vera að bera árangur, því að Gylfi hefði verið kominn upp í og grátbeðið Hannibal að snarast upp í til sín. Gylfi lyfti sænginni, sagði Matti, og Hannibal var sestur á rúmstokkinn. Það var ekkert eftir nema fara upp í og breiða sængina yfir, en það undarlega gerðist að Hannibal spratt upp og sagði Gylfa að hann kæmi ekki upp í. Svo þagnaði Vestfjarðagoðinn og leit yfir salinn áður en hann bætti við:

   Er nokkur hér inni sem hefur heyrt það fyrr að Hannibal hafi neitað að fara upp í þegar honum hefur verið boðið það?



Úr neðra í efra

 

Sighvatur Björgvinsson, alþingismaður Vestfirðinga, kom eitt sinn akandi á drossíu sinni vestur á Firði ásamt eiginkonunni Björk Melax til þess að hitta kjósendur að máli. Sighvatur kom vesturleiðina og staldraði lengi við á Ísafirði, sem var hans aðalvígi.

   Á leiðinni til baka ók þingmaðurinn um Djúp og Strandir suður til Reykjavíkur. Djúpvegur var afar slæmur yfirferðar, blautur og flugháll af leir, holóttur og nánast ófær flestum farartækjum nema jarðýtum, dráttarvélum og skriðdrekum.

   Þegar þau hjónin komu til Hólmavíkur, útkeyrð eftir hristinginn á Djúpvegi, fengu þau sér hressingu í Söluskála Kaupfélagsins og tóku bensín. Fleiri vegfarendur voru staddir í sjoppunni og skömmuðu þeir þingmanninn ótæpilega fyrir ástand vegarins um Djúpið.

   Sighvatur sat þegjandi um stund en sagði svo:

   Ég skal bara segja ykkur eitt. Ef himnaríki væri á Ísafirði og helvíti á Hólmavík, og menn ættu þess kost að flytja úr neðra í efra, þá myndi enginn leggja það á sig að fara þennan veg á milli.



Ábekingarnir

Það var nokkru fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 1966, að maður nokkur gekk á fund Bjarna Guðbjörnssonar útibússtjóra Útvegsbankans á Ísafirði og bað um víxillán til heimilisþarfa, en Bjarni neitaði.
Litlu síðar hittir maðurinn Matthías Bjarnason, sem var efstur á lista sjálfstæðismanna á Ísafirði, og segir honum frá erindislokum sínum hjá Bjarna, sem var framsóknarmaður. Matthías segir honum að láta sig fá víxileyðublaðið. Daginn eftir afhendir Matthías manninum víxilinn á ný og segir honum að fara aftur til Bjarna og sjá hvort hann neiti aftur. Þá voru komnir átján ábekingar á víxilinn eða allur framboðslisti sjálfstæðismanna í réttri röð frá Matthíasi sjálfum og niður í heiðurssætið.
Bjarni keypti víxilinn og ekki er annað vitað en Útvegsbankinn hafi í fyllingu tímans fengið peningana sína til baka með skilum.




« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30