A A A

Vegna viðhaldsvinnu verða Breiðadals- og Botnsheiðargöng, milli Tungudals og Önundarfjarðar, lokuð á nóttunni, frá kl 22.00 til kl 07.00, en opnað er á miðnætti í 10 mínútur. Lokanir hefjast 6. maí og munu standa yfir í þrjár vikur. Lokunin á einungis við um legginn milli Tungudals og Önundarfjarðar, opið verður á milli Tungudals og Súgandafjarðar.

Í samtali við fréttamann hjá bb.is segir Guðmundur Rafn Kristjánsson, deildarstjóri jarðgangadeildar hjá Vegagerðinni á Ísafirði að ástæða lokananna sé vegna þess að verið sé að bora fyrir boltum svo hægt verði að malbika hluta af göngunum. 

„Við fengum bor frá Vaðlaheiðargöngum og hann virkar svo vel að við verðum búnir að bora í þessari viku, en ætluðum okkur tvær vikur í verkið. Svo munu Vestfirskir Verktakar setja upp svokallað skúmm inni í göngunum, eins og er þar fyrir, en þeir komast ekki í það verk alveg strax. Þetta er um kílómeterskafli sem er verið að vinna á og það er í raun verið að koma í veg fyrir að það komist vatn út á akbrautina.“

Mörgum sem búa Önundarfjarðarmegin við göngin fýsir að vita hvernig verði hægt að komast á sjúkrahús ef slys ber að höndum. Guðmundur sagði í samtali við bb.is að það hefði að sjálfsögðu verið það fyrsta sem Vegagerðin hugsaði fyrir. „Bæði lögregla og slökkvilið eru með símanúmer hjá mönnum inni í göngunum og ef eitthvað kemur upp á er ekkert vandamál að komast í gegn og yfir á Ísafjörð.“

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31