A A A
Frá Víkingasvæðinu á Þingeyrarodda.
Frá Víkingasvæðinu á Þingeyrarodda.
Mikilvægt er að Ísafjarðarbær haldi sínum sessi sem menningarbær að því er fram kemur í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins. „Það gefur sveitarfélaginu jákvæða ímynd og getur haft veruleg áhrif á val einstaklinga um búsetu sem og líðan þeirra sem hér búa. Öflugt menningarstarf hefur einnig jákvæð áhrif á atvinnulíf og eru tónlistar- og leiklistarhátíðir sem hér eru haldnar gott dæmi um það. Í Ísafjarðarbæ er fjölmenningarlegt samfélag og ber að endurspegla það í menningarstarfsemi bæjarins", segir í greinargerð með aðalskipulagsdrögunum. Þar kemur fram að ekki er sérstök þörf á nýjum byggingum fyrir menningarstarfsemi, heldur sé mikilvægast að standa vörð um þá starfsemi sem þegar er og hlúa að nýjum hugmyndum.

Einnig er mikilvægt að menningarstarfsemi geti nýtt sér verðmætin sem liggja í gömlu byggðunum sem eru einkennandi fyrir sveitarfélagið. Mikill akkur getur verið í að tengja starfsemi við sögufræg eða vernduð hús, segir í greinargerðinni.

Eitt nýtt hús er í byggingu sem hýsa á hluta safnastarfseminnar. Gert er ráð fyrir að safnasvæðið stækki verulega til suðurs og rúmi ma. Bátasafn Íslands þar sem aðstaða verði einnig til viðgerða og handleiðslu í endurgerð gamalla báta. Gert er ráð fyrir að safnasvæðið myndi heildstætt svæði þar sem sjórinn, fjaran og útivist eru hluti af lykilþáttum þess, sbr. kafla 10 útivist, opin svæði og íþróttir.

 

Á safnasvæðinu á Oddanum á Þingeyri er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu í anda víkingatímans. Þar er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir víkingaskip sem sigla um fjörðinn með farþega. Ekki er þó gert ráð fyrir hafnaraðstöðu heldur verði aðstaðan í anda tímans sem miðað er við. Gert er ráð fyrir sterkri tengingu milli þessa svæðis og aðliggjandi útivistarsvæða og að skil milli þeirra verði ekki skýr.

 

„Ísafjarðarbær er þekktur fyrir öflugt menningarlíf en hann á sér langa sögu sem slíkur. Sem dæmi má nefna Litla leikklúbbinn, Sunnukórinn og karlakór sem hafa starfað í áratugi en Sunnukórinn var stofnaður 1934. Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús sem stendur m.a. fyrir einleikjahátíð á hverju sumri. Mikið er um tónleikahald í bænum og má þar nefna Rokkhátíð alþýðunnar", segir í greinargerðinni.

 

Menningar- og safnahús í Ísafjarðarbæ eru eftirfarandi: Safnahúsið á Eyrartúni, Menningarmiðstöðin Edinborg, Tónleikasalurinn Hamrar, Alþýðuhúsið á Ísafirði, Safnahúsin í Neðstikaupstað, Víkingasvæðið á Þingeyri, Félagsheimilið á Þingeyri, Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson, Gamla kaupfélagið og félagsheimilið á Flateyri, Félagsheimilið á Suðureyri, Félagsheimilið á Hnífsdal og Barnaskólinn í Hnífsdal.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30