30.08.2015 - 21:33 | Hallgrímur Sveinsson
Metsala í Koltru í sumar
Ragnheiðar Önnudóttir var nýlega kjörin formaður í handverkshópnum Koltru á Þingeyri. Tók hún við því starfi af Borgnýju Gunnarsdóttur sem gegnt hefur því af mikilli prýði í fjölda ára. Í stjórninni með Ragnheiði eru þær Ásta Kristinsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir, Valdís Bára Kristjánsdóttir og Marsibil Kristjánsdóttir.
Að sögn Ragnheiðar hefur verið metsala í prjónlesi og öðrum vörum hjá þeim í sumar í Salthúsinu. Margir, einkum útlendingar, kaupa sér ullarpeysur af ýmsu tagi, bæði venjulegar og hnepptar. Sumir kaupa sér húfur og sokka og vettlingarnir stoppa ekki við. Ragnheiður segir að útlendingar hafi verið í miklum meirihluta gesta í sumar.
Lokað verður hjá Koltru 1. september.