Merkir Íslendingar - Sigurður Sigurðsson
Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Stefánsson, prestur og alþingismaður í Vigur, f. 1854, d. 1924, og Þórunn Bjarnadóttir, f. 1855, d. 1936. Foreldrar sr. Sigurðar voru hjónin Stefán Stefánsson, bóndi á Heiði í Gönguskörðum, og Guðrún Sigurðardóttir. Foreldrar Þórunnar voru hjónin Bjarni Brynjólfsson, bóndi, skipasmiður og hreppstjóri á Kjaransstöðum í Innri-Akraneshr., og Helga Ólafsdóttir, f. Stephensen.
Sigurður lærði undir skóla hjá föður sínum en fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þar stúdentsprófi árið 1908. Lagði hann síðan stund á lögfræði, fyrst við háskólann í Kaupmannahöfn og síðan við Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi árið 1914.
Að loknu embættisprófi gerðist Sigurður Sigurðsson héraðsdómslögmaður á Ísafirði og var þar til ársins 1921. Þá varð hann fulltrúi í fjármálaráðuneytinu en stundaði jafnframt málflutning fyrir Hæstarétti.
Árið 1924 var hann settur bæjarfógeti í Vestmannaeyjum um hálfs árs skeið, en 1. desember það ár var hann skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu. Hann gegndi því embætti til ársins 1957, er hann náði aldurshámarki embættismanna. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og átti þar heimili síðan.
„Sigurður Sigurðsson naut vinsælda og virðingar í héruðum sínum. Hann var ágætlega greindur maður og skáld gott,“ segir í minningarorðum um hann í Morgunblaðinu. Sigurður gekkst fyrir stofnun Sögufélags Skagfirðinga og var áhrifamaður í menningarlífi þar.
Eiginkona Sigurðar var Stefanía Arnórsdóttur, f. 15.4. 1889, d. 14.7. 1948. Foreldrar hennar voru Arnór Árnason, prestur í Hvammi í Laxárdal, og fyrri k.h., Stefanía Sigríður Stefánsdóttir. Eignuðust Sigurður og Stefanía níu börn sem öll komust upp.
Sigurður lést 20. júní 1963.
Morgunblaðið.