Merkir Íslendingar - Jón Þorkelsson Thorcillius
Jón nam við Skálholtsskóla og fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Jón varð skólameistari í Skálholti 1728. Hann þótti strangur kennari en var vel að sér og mjög áhugasamur um bætta menntun. Hann lagði meðal annars til að settur yrði á stofn sérstakur prestaskóli, sagði af sér skólameistaraembættinu og hélt til Kaupmannahafnar til að reyna að fá stjórnvöld til að gera umbætur í menntamálum Íslendinga. Honum varð á endanum ágengt með erindi sitt og varð úr að Jón og danski presturinn Ludvig Harboe voru sendir til Íslands til að kanna fræðslumál og menntunarástand þjóðarinnar og gera tillögur um úrbætur.
Jón og Harboe ferðuðust um allt landið og könnuðu m.a. lestrarkunnáttu og menntun barna, athuguðu kunnáttu presta, bókaeign og margt fleira. Þeir luku störfum sínum sumarið 1745 og héldu þá til Danmerkur og settu fram margar tillögur um úrbætur. Sumar þeirra komust fljótt í framkvæmd, aðrar ekki.
Jón settist að í Kaupmannahöfn og bjó þar til æviloka 1759. Hann var vel stæður en var ókvæntur og barnlaus og átti enga nána ættingja á lífi. Skömmu fyrir andlát sitt gerði hann erfðaskrá þar sem kveðið var á um að allar eigur hans skyldu renna til stofnunar skóla þar sem fátækustu börn í Kjalarnesþingi hlytu kristilegt uppeldi með húsnæði, klæðum og fæði uns þau gætu unnið fyrir sér sjálf. Ekki varð af því strax en stofnaður var sjóður, Thorcilli-sjóðurinn (eða Thorkelli-sjóðurinn), og árið 1792 var loks reistur barnaskóli á Hausastöðum á Álftanesi á kostnað sjóðsins og var það annar barnaskólinn á Íslandi. Allt fram á 20. öld fengu börn við barnaskóla Reykjavíkur styrk úr Thorkellisjóðnum til náms.
Minnisvarði um Jón, gerður af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, var reistur í Innri-Njarðvík 1965.
Jón lést 5. maí 1759.
Morgunblaðið 5. maí 2017.