A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
19.11.2017 - 20:05 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Merkir Íslendingar - Jóhann Gunnar Ólafsson

Jóhann Gunnar Ólafsson (1902 - 1979).
Jóhann Gunnar Ólafsson (1902 - 1979).
Jóhann fæddist í Vík í Mýrdal 19. nóvember 1902, sonur Ólafs Arinbjarnarsonar, verslunarstjóra í Vík og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, og k.h., Sigríðar Eyþórsdóttur húsfreyju.

Foreldrar Ólafs voru Arinbjörn Ólafsson, bóndi og útgerðarmaður í Tjarnarkoti í Innri-Njarðvík, og Kristín Björnsdóttir, f. Beck. Sigríður var systir Ásgeirs, föður Ásgeirs forseta og Ragnars ráðunautar, föður Úlfs læknis. Systir Sigríðar var Jóhanna, móðir Eyþórs Gunnarssonar, háls-, nef- og eyrnalæknis, föður Gunnars fréttamanns, föður Eyþórs tónlistarmanns.

Sigríður var dóttir Eyþórs Felixsonar, kaupmanns í Reykjavík, og Kristínar Grímsdóttur húsfreyju.

Jóhann lauk stúdentsprófi frá MR 1923, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1927 og öðlaðist hrl.-réttindi 1968.

Eiginkona Jóhanns var Ragna Haraldsdóttir húsfreyja og eignuðust þau fimm börn.

Jóhann var lögfræðingur í Vestmannaeyjum, settur bæjarstjóri þar 1929 og kosinn bæjarstjóri 1930. Hann var settur sýslumaður í Skagafirði vegna forfalla 1939 og var bæjarfógeti á Ísafirði og sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1943-68. Hann flutti þá til Reykjavíkur og fékkst þar við lögmannsstörf og sagnfræði.

Jóhann var mikill bókamaður og feikilega fróður um margvísleg efni. Hann var sannkallaður menningarforkólfur í Eyjum og á Ísafirði, einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Týs í Eyjum og fyrsti formaður þess, einn af stofnendum Tónlistarfélags Ísfirðinga og fyrsti formaður þess, hvatamaður að stofnun Héraðsskjalasafns Ísfirðinga og stjórnarformaður Byggðasafns Ísfirðinga og aðalhvatamaður að stofnun Sögufélags Ísfirðinga.

Eftir Jóhann liggur mikið safn af sagnfræðilegum þáttum og greinum í blöðum og tímaritum, margt býsna athyglisvert og skemmtilegt. Þar er ekki síst að finna söguþætti er lúta að Vestmannaeyjum og Ísafirði.

Jóhann lést 1. september 1979.

Morgunblaðið.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31