A A A
  • 1979 - Björgvin Helgi Brynjarsson
21.04.2015 - 18:24 | BIB,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Grímur Grímsson

Vestfirðingurinn Grímur Grímsson.
Vestfirðingurinn Grímur Grímsson.
Grímur fæddist í Reykjavík 21. apríl  1912. Foreldrar hans voru Grímur Jónas Jónsson, guðfræðingur, skólastjóri og organisti á Ísafirði, og Kristín Kristjana Guðfinna Eiríksdóttir húsfreyja á Ísafirði. 

Grímur Jónas var bróðir Árna Jónssonar, fyrsta skólastjóra Barnaskóla Ísafjarðar og verslunarstjóra við Verslun Ásgeirs Ásgeirssonar á Ísafirði. Þeir Grímur Jónas og Árni voru synir Jóns Hjörtssonar, prests á Gilsbakka í Hvítársíðu, og f.k.h., Kristínar húsfreyju, dóttur Þorvalds Böðvarssonar, prests í Holti.

Kristín Kristjana var dóttir Eiríks Kristjánssonar, bónda á Tannanesi og Hóli í Önundarfirði, og k.h., Önnu Þórarinsdóttur húsfreyju.

Meðal systkina Gríms var Sigurður Grímsson, skáld, rithöfundur, þýðandi og borgarfógeti í Reykjavík.

Eiginkona Gríms var Guðrún Sigríður Jónsdóttir húsfreyja og eignuðust þau þrjú börn.

Grímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1933, stundaði verslunarnám við Niels Brocks Handelsskole í Kaupmannahöfn 1934-35 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1954.

Grímur var ritari og síðar fulltrúi við tollstjóraembættið í Reykjavík 1937-54, var sóknarprestur að Sauðlauksdal í Barðastrandarprófastsdæmi 1954-63 og stundaði þar hefðbundinn búskap samhliða prestsþjónustu. Hann sinnti jafnframt aukaþjónustu í Brjánslækjarprestakalli um langt árabil, var sóknarprestur í Ásprestakalli í Reykjavík 1964-80 og var settur sóknarprestur í Staðarprestakalli í Súgandafirði frá 1980 og víðar á Vestfjörðum um lengri eða skemmri tíma. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1982.

Grímur sat í stjórn Ræktunarsambands Rauðasandshrepps, í stjórn Mjólkurfélags hreppsins, í stjórn Prestafélags Íslands 1966-78, var ritari þess um skeið og formaður þess 1968-77. Hann var gerður að heiðursfélaga Prestafélags Íslands árið 1993.


Grímur lést 24. janúar 2002.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 21. apríl 2015.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31