Merkir Íslendingar - Eggert Ólafsson
Eggert lærði hjá móðurbróður sínum, Sigurði presti í Flatey, og var í fóstri hjá öðrum móðurbróður, Guðmundi, sýslumanni á Ingjaldshóli. Hann lauk stúdentsprófi í Skálholti, stundaði nám í heimspeki og náttúrufræði við Hafnarháskóla, þótti frábær námsmaður, las m.a. forn, þjóðleg fræði, málfræði, lögfræði og búfræði, var lærður í latínu og grísku og talaði dönsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku.
Á árunum 1752-57 fóru Eggert og Bjarni Pálsson, síðar landlæknir, rannsóknarferð um Ísland. Afraksturinn er Ferðabók Eggerts og Bjarna Pálssonar sem Eggert samdi á dönsku og að mestu leyti einn. Ritið er viðamikil lýsing á náttúru landsins og gæðum, og greinargerð um íslenskt þjóðlíf og landshagi.
Eggert var skipaður varalögmaður sunnan og austan 1767. Hann lét þá byggja upp jörð sína, Hofsstaði í Eyjahreppi, og ákvað að setjast þar að. Sama haust kvæntist hann Ingibjörgu, dóttur Guðmundar, móðurbróður síns. Þau héldu veglega brúðkaupsveislu að fornum sið í Reykholti, dvöldu um veturinn í Sauðlauksdal, héldu um vorið áleiðis að Hofsstöðum en fórust í aftakaveðri á Breiðafirði 1768.
Þjóðin öll syrgði Eggert enda mikils af honum vænst. Hann var framfarasinni og upplýsingarmaður en jafnframt þjóðernissinnaður. Eggert trúði á land, þjóð og framtíð og var mikilvægur fyrirrennari Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna sem höfðu hann í ýmsu að fyrirmynd. Af skáldskap Eggerts er hins vegar Búnaðarbálkur hans þekktastur sem ber fyrst og fremst að skoða sem boðskap í bundnu máli. En önnur skáld hafa ort um hann fögur ljóð, s.s. Matthías Jochumsson, Matthías Johannessen og Jónas Hallgrímsson.
_______________________________
Eggert Ólafsson fæddist 1. desember árið 1726.
Í Skáldu, afmælisdagabók Jóhannesar úr Kötlum, er þetta erindi eftir Eggert:
í kjör fallast
og vaxa velmegin;
springa munu blómstur
á bæjartré,
göfgu mun þá fjölga fræi.
Flestir þekkja Lysthúskvæði Eggerts.
Þetta er viðkvæðið:
forðum tíð í lundi;
listamaðurinn lengi þar við undi.
Hér koma tvö fyrstu erindin:
Sauðlauks- uppi í lygnum -dali
fólkið hafði af hanagali
hvörsdags skemmtun bænum á,
fagurt galaði fuglinn sá
og af fleiri fugla hjali
frygð um sumar-stundir;
listamaðurinn lengi þar við undi.
Laufa byggja skyldi skála,
skemmtilega sniðka og mála
í lystigarði ljúfra kála,
lítil skríkja var þar hjá,
fagurt galaði fuglinn sá;
týrar þá við timbri rjála
á tóla smíða fundi
listamaðurinn lengi þar við undi.
Morgunblaðið.