Merkir Íslendingar - Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson
Rögnvaldur byrjaði nám nokkuð seint og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1900, 25 ára gamall. Hann fór til Kaupmannahafnar til að stunda nám í húsagerðarlist í Det Tekniske Selskabs Skole 1901-1904. Hann lauk ekki námi vegna veikinda og sneri heim með berkla sem hann háði baráttu við æ síðan og áttu eftir að draga hann til dauða aðeins 42 ára að aldri.
Hann var ráðunautur ríkisstjórnarinnar um húsagerð frá 1904 og til æviloka 1917 og er almennt talinn fyrsti íslenski húsameistarinn. Hann beitti sér fyrir aukinni steinhúsagerð en var einnig annt um að gömlum og vel byggðum byggingum yrði ekki spillt með með illa ígrunduðum viðbótum eða þær rifnar niður að óþörfu.
Þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm er Rögnvaldur án efa einn merkasti íslenski arkitektinn. Hann teiknaði mörg af glæsilegustu timburhúsunum sem reist voru í Reykjavík á fyrsta áratug aldarinnar, t.d. nokkur við Tjarnargötuna, og þar með er talinn Ráðherrabústaðurinn.
Þá teiknaði hann turninn á Bernhöftstorfunni við Amtmannsstíg 1 og Húsavíkurkirkju, sem er krosskirkja byggð úr norskum viði. Tvær aðrar kirkjur teiknaði hann sem eru í sama stíl og Húsavíkurkirkja, en minni. Önnur er í Hjarðarholti í Dölum og hin er á Breiðabólstað í Fljótshlíð.
Rögnvaldur teiknaði m.a. kirkjurnar á Bíldudal, Þingeyri, Hafnarfirði og Keflavík sem eru úr steinsteypu.
Auk þess er hann höfundur að ýmsum svipmestu fyrstu steinhúsunum, s.s. Pósthúsinu í Pósthússtræti, Vífilsstaðaspítala og skólahúsum á Hvanneyri og á Hólum.
Mörg húsa Rögnvalds eru snilldarleg, íslensk útfærsla á sveitserstíl og ný-klassík.
En það sem einkum einkennir persónulegan stíl hans er afar næm tilfinning fyrir hlutföllum og vandaðar útfærslur.
Rögnvaldur lést 14. febrúar 1917 á berklahælinu sem hann hafði sjálfur teiknað.