A A A
  • 1982 - Sveinbjörn Halldórsson
23.02.2015 - 09:59 | Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson.
Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson.

Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú fæddist í Reykjavík 23.febrúar 1893. Foreldrar hennar voru Þórhallur Bjarnarson, prófastur í Reykholti, forstöðumaður Prestaskólans, alþm. og biskup Íslands, og k.h., Valgerður Jónsdóttir húsfreyja.

Þórhallur var sonur Björns Halldórssonar, prófasts í Laufási, og k.h., Sigríðar Einarsdóttur, en Valgerður var dóttir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra á Bjarnastöðum, og Hólmfríðar Hansdóttur.

Systkini Dóru: Tryggvi forsætisráðherra, kvæntur Önnu Klemenzdóttur, Svava húsfreyja, gift Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og Björn, sem lézt árið 1916.

Dóra giftist 3.10. 1917 Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþm., forsætisráðherra og öðrum forsta íslenska lýðveldisins 1952-68. Hann var sonur Ásgeirs Eyþórssonar, kaupmanns og bókhaldara, og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.

Börn Dóru og Ásgeirs: Þórhallur ráðuneytisstjóri, Vala forsætisráðherrafrú og Björg sendiherrafrú.

Frú Dóra ólst upp í Reykjavík, lengst af í Laufási við Laufásveg, á gestkvæmu menningarheimili. Hún var tvítug er hún missti móður sína og tók þá við stjórn heimilisins og stýrði því í fjögur ár. Hún og Ásgeir hófu sinn búskap í Laufási og bjuggu þar til 1932, er hann varð forsætisráðherra. Þá fluttu þau í ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.

Dóra sótti fundi ungmennafélaga á uppvaxtarárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskóla Reykjavíkur og sóknarnefnd Dómkirkjusafnaðarins. Henni var umhugað um kirkjusókn og málefni Þjóðkirkjunnar og lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum. Hún var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.

Frú Dóra þótti glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar, virðuleg í fasi og klæddist gjarnan íslenska þjóðbúningnum við hátíðlegar athafnir.

Dóra lést 10. september 1964.

Morgunblaðið mánudagurinn 23. febrúar 2015 - Merkir Íslendingar

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31