A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
25.02.2015 - 22:23 | Morgunblaðið,BIB

Merkir Íslendingar - Björn Pálsson

Björn Pálsson á Löngumýri.
Björn Pálsson á Löngumýri.
« 1 af 2 »

Björn fæddist á Snæringsstöðum í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu 25. febrúar 1905. Foreldrar hans voru Páll Hannesson, bóndi á Snæringsstöðum og síðar á Guðlaugsstöðum í Blöndudal, og k.h., Guðrún Björnsdóttir húsfreyja.

Meðal systkina Björns voru Hannes bóndi á Undirfelli, afi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, Hulda, húsfreyja á Höllustöðum, móðir Páls Péturssonar, fyrrv. alþm. og ráðherra, og Halldór búnaðarmálastjóri. Meðal bræðra Páls voru Guðmundur læknaprófessor og Jón, bóndi á Brún, langafi Guðrúnar Agnarsdóttur læknis og Ástríðar Thorarensen hjúkrunarfræðings.

Guðrún Björnsdóttir var hálfsystir Sigurgeirs, föður Þorbjarnar, prófessors og forstöðumanns Raunvísindastofnunar HÍ, og hálfsystir Þorsteins, frumbýlings á Hellu, föður Björns sagnfræðiprófessors. Guðrún var dóttir Björns Eysteinssonar, bónda í Grímstungu, bróður Ingibjargar, langömmu Friðriks Sophussonar, fyrrv. ráðherra.

Eiginkona Björns var Ólöf Guðmundsdóttir frá Flatey á Skjálfanda og eignuðust þau 10 börn.

Björn varð búfræðingur frá Hólum 1923. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum 1925, nám í lýðháskóla í Noregi og ferðaðist um Noreg og Danmörku 1927. Þá ferðaðist hann umhverfis hnöttinn og dvaldi á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu 1928-29 til þess að kynna sér kjötmarkaði og meðferð á kjöti.

Björn var bóndi á Ytri-Löngumýri í rúma sex áratugi, frá 1930 til dauðadags. Hann var oddviti Svínavatnshrepps 1934-58, sat í sýslunefnd um skeið, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagstrendinga frá 1955-59, stofnaði útgerðarfélagið Húnvetning hf. 1957 og Húna hf. 1962 og rak útgerð í allmörg ár m.a. skipið glæsilega Húna II sem smíðaður var á Akureyri árið 1963.

Björn Pálsson var alþm. Framsóknarflokksins fyrir Austur-Húnavatnssýslu sumarþingið 1959 og þingmaður fyrir Norðurlandskjördæmi vestra á árunum 1959-1974.

Björn lést 11. apríl 1996.
 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 25. febrúar 2015 - Merkir Íslendingar

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31