20.09.2015 - 06:45 | Hallgrímur Sveinsson
Merkilegar fornminjar á Auðkúlu í Arnarfirði
Fyrir nokkrum árum kom Guðný Zoega fornleifafræðingur að Auðkúlu í Arnarfirði til að skoða gamlar húsaminjar eða rústir í svokölluðum Parti sem er utan við Auðkúluána. Var það að frumkvæði Hreins Þórðarsonar bónda þar á bæ. Guðný er gömul vinkona hans frá því hún var að alast upp í Mjólkárvirkjun á sínum tíma. Þessi skoðun hennar leiddi ýmislegt áhugavert í ljós. Unnið var svo í 2 vikur í sumar að nánari rannsókn umræddra minja undir stjórn Margrétar H. Hallmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Náttúrustofu Vestfjarða.
Í ljós komu eftirfarandi fornleifar:
- Kirkja og kirkjugarður.
- Bygging sem er líklega skáli, 17 – 18 metra langur.
- Leifar af járnvinnslu. Mikið af gjalli fannst á svæðinu, en smiðjan ófundin.
Nú er beðið eftir aldursgreiningu á fornleifunum á Auðkúlu.