A A A
  • 1958 - Birgir karlsson
02.05.2015 - 21:27 | Morgunblašiš,BIB

Meš eigin hendi

Į gestalistanum eru Hrafnseyrarbręšurnir; Jens Siguršsson nr. 22 og Jón Siguršsson nr. 29. Ljósm.: Morgunblašiš.
Į gestalistanum eru Hrafnseyrarbręšurnir; Jens Siguršsson nr. 22 og Jón Siguršsson nr. 29. Ljósm.: Morgunblašiš.
« 1 af 5 »
Gestir í sögufrægu samsæti í Kaupmannahöfn til heiðurs Frakkanum Paul Gaimard í janúar 1839 rituðu nöfn sín í bók sem kom óvænt í leitirnar fyrir nokkrum árum. Þar er finna eiginhandaráritanir nokkurra nafnkunnustu Íslendinga 19. aldar. Listinn hefur ekki áður komið fyrir sjónir almennings.

Í janúar 1839 - fyrir rúmlega 175 árum - héldu Íslendingar í Kaupmannahöfn franska lækninum og vísindamanninum J. Paul Gaimard samsæti sem orðið hefur frægt í sögunni. Gaimard (1793-1858) var hylltur fyrir Íslandsleiðangra sína 1835 og 1836 og þá miklu kynningu á sögu, menningu og náttúru Íslands sem hann hafði hafist handa um. Skáldin í hópnum mærðu hann í ljóðum sem flutt voru í veislunni. Jónas Hallgrímsson færði Gaimard kvæði, sem margir telja eitt hið fegursta sem ort hefur verið á íslenska tungu. Það heitir <ská>Til herra Páls Gaimard og hefst á orðunum »Þú stóðst á tindi Heklu hám og horfðir yfir landið fríða.«

 

Gestalistinn úr þessu boði fannst fyrir tilviljun í fornbókabúð í París fyrir nokkrum árum. Er hann á öftustu blaðsíðu stórrar bókar sem virðist vera frumgerð einnar þeirra myndabóka sem leiðangursmenn gáfu út. Sigurður heitinn Jónsson líffræðingur, sem búsettur var í París, keypti bókina og var honum sagt að hún væri komin úr búi fransks flotaforingja. Upphaflega hefur hún verið í eigu Gaimards. Þarna er að finna nöfn, fæðingarstað og fæðingardag 32 Íslendinga, þar á meðal nokkurra þekktustu og merkustu manna 19. aldar, rituð með eigin hendi þeirra. Í þeim hópi eru Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Koparstungurnar í bókinni eru sumar nokkuð frábrugðnar þeim sem fylgdu endanlegu myndaútgáfunni og styður það hugmyndina um að hér sé einhvers konar frumgerð verksins. Gæti verið að Gamiard hafi viljað sýna Íslendingunum hvað í vændum var.

 

Mynd af gestalistanum hefur ekki komið fyrir sjónir almennings áður, þótt kunnugt hafi verið um tilvist hans og örfáir fengið að skoða hann. Eigandi bókarinnar veitti Morgunblaðinu góðfúslega leyfi fyrir birtingunni.

 

Áhrifamiklir leiðangrar

 

Löngum hefur verið litið svo á að rannsóknarleiðangrar Frakka til Íslands á 19. öld, Gaimards 1835 og 1836 og Jerome Napoleons prins 1856, einkum þó hinir fyrrnefndu, marki ákveðin þáttaskil þegar kemur að vitneskju heimsbyggðarinnar um land og þjóð. Afrakstur ferðar Gaimards var veglegt ritsafn <ská>Voyage en Islande et au Groënlandsem út kom í tólf bindum, þar af fjórum myndabókum, á árunum 1838 til 1852. Bækurnar vöktu mikla athygli meðal menntamanna og fróðleiksfúsra í Evrópu. Mun þetta vera stærsta erlenda verk um Ísland og Íslendinga fyrr og síðar. Sönnuðust með útgáfunni orð Tómasar Sæmundssonar í <ská>Fjölni 1837, en hann sagði að aldrei fyrr hefði Ísland verið rannsakað »með þvílíkum útbúnaði, lærdómi og nákvæmni, sem í þetta sinn« og vænta mætti að nú kæmi á prent »ritgjörð um land vort, er svo verði merkjileg, bæði að útlitsfegurð, og að efninu til, að oss hafi aldreí firr slík hlotnast«.

 

Auk bókaflokksins rituðu nokkrir leiðangursmanna greinar um Ísland í ýmis erlend blöð og tímarit og einn þeirra, bókmenntafræðingurinn Xavier Marmier, sendi frá sér sérstaka bók, <ská>Lettres sur l'Islande (1837), um forna sögu og bókmenntir Íslendinga. Myndirnar sem teiknarinn Auguste Meyer dró upp í seinni ferðinni af landslagi, mannvirkjum og fólki þykja einstök heimild um Ísland 19. aldar.

 

Áhrifanna gætti ekki aðeins utanlands. Lifandi áhugi Frakkanna, vinsemdin sem þeir sýndu landsmönnum á ferðum sínum og ummælin í bókunum um náttúrufegurð, glæsta sögu og merkilega menningu Íslendinga, voru fátækri og hnípinni þjóð uppörvandi, áttu þátt í að gefa henni á ný trú á sjálfa sig og síðast en ekki síst kveiktu þau með henni þjóðernislegt stolt sem varð aflgjafi í sjálfstæðisbaráttunni sem í hönd fór. Samtímaheimildir eru og fyrir því að kvæðið sem Jónas orti til Gaimards hafi þegar orðið víðfrægt á Íslandi og haft vekjandi áhrif á landsmenn.

 

Tildrög Íslandsferðanna

 

Frakkland var orðið stórveldi á 19. öld með ítök og nýlendur víða um heim. Um það leyti fór áhugi Frakka að beinast að norðurslóðum. Árlega voru á þriðja hundruð franskra fiskiskipa á miðunum við Ísland. Það átti átti stóran þátt í því að sjónir franskra stjórnvalda beindust að Íslandi. Herskip voru stundum send fiskiskipunum til aðstoðar. Eitt þeirra, La Lilloise, týndist 1834, en þar sem það sást síðast við Ísland var ákveðið að hefja leitina hér sumarið eftir og nota jafnframt tækifærið og setja í land tvo vísindamenn til að afla þekkingar á landsháttum og náttúrufari. Annar þeirra var Paul Gaimard sem getið hafði sér gott orð í könnunarferðum Frakka til fjarlægra landa. Hann var 45 ára gamall og hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Hann var í góðu sambandi við menn á æðstu stöðum.

 

Ekki er ósennilegt að fleira en fróðleiksfýsn hafi ráðið Íslandsáhuga Frakka á þessum tíma. Tveimur áratugum seinna var sendur hingað annar leiðangur frá Frakklandi, að þessu sinni undir stjórn Jerome Napóleons prins. <fz,1,0>Um sama leyti fóru Frakkar fram á að fá að stofna nokkur þúsund manna nýlendu í Dýrafirði og hafa þar aðstöðu til fiskverkunar. Málið vakti miklar deilur meðal Íslendinga og varð ekkert úr áformunum.

 

Frönsk sérsveit til Íslands

 

Frakkarnir ferðuðust um landið sumarið 1835 og gerðu hér ýmsar athuganir. Heim kominn um haustið hvatti Gaimard stjórnvöld til að senda fullbúinn rannsóknarhóp vísindamanna og skrásetjara til Íslands strax næsta sumar. Úr varð hinn mikli rannsóknarleiðangur 1836 sem hingað kom undir stjórn Gaimards með herskipinu La Recherche. Í föruneyti Gaimards voru jarðfræðingurinn Eugene Roberts, eðlisfræðingurinn og kortagerðarmaðurinn Victor Lottin, bókmenntafræðingurinn Xavier Marmier, teiknarinn Auguste Mayer, veðurfræðingurinn Raoul Angles og dýrafræðingurinn Louis Bevalet. Segja má að hér hafi verið mætt eins konar sérsveit færustu manna, vopnuð pennum og penslum, til að gera úttekt á landi og þjóð fyrir Lúðvík Filippus konung.

 

Að Íslandsferðinni lokinni gerðu Frakkar enn út leiðangur undir stjórn Gaimards norður í höf, að þessu sinni til Skandinavíu, Færeyja og Svalbarða. Veturinn 1838 til 1839 var Gaimard um hríð í Kaupmannahöfn og átti þá í nokkrum samskiptum við forystumenn Íslendinga í borginni. Bauð hann Íslendingum til samsætis á nýárskvöldi 1839 og veitti vel. »Hefði hann ekki getað verið betri þó að við hefðum verið landar hans,« skrifaði íslenskur námsmaður yfir sig hrifinn í sendibréfi heim.

 

»Aldrei kjærri gjestur«

 

Íslendingunum hugkvæmdist að endurgjalda örlæti Gaimards og höfðu þeir Finnur Magnússon, leyndarskjalavörður konungs, og málfræðingurinn Þorleifur Repp forystu um það.

 

Samsætið, »allgóð veisla« eins og segir í samtímaheimild, var haldið hálfum mánuði seinna, 16. janúar. Var öllu tjaldað til, auk veislufanga voru fjögur skáld í Íslendingahópnum í borginni fengin til að yrkja Gaimard þakkarkvæði. Kvæði Jónasar Hallgrímssonar fyrir skál hans skar sig úr og var haft á orði að þar væri komið eitt hið fegursta ljóð sem ort hefði verið á íslenska tungu. »Heill sje þjer Páll! og heiður bestur! / hjá oss sat aldrei kjærri gjestur,« segir þar meðal annars. Einn Íslendinganna, Páll Melsteð, þýddi kvæðið fyrir Gaimard á latínu og er hermt að hann hafi komist við og tárast af fögnuði og gleði yfir þeirri viðurkenningu sem honum var sýnd.

 

Á gestalistanum eru sem fyrr segir nöfn 32 manna. Allt er þetta íslenskir karlar sem voru við nám eða störf í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1839. Flestir þeirra voru á þrítugsaldri eða um þrítugt. Aldursforsetinn, Finnur Magnússon var um sextugt. Þrír voru á aldrinum 45 til 50 ára, Þorleifur Repp, Þorgeir Guðmundsson og Vigfús Eiríksson. Af nafnkunnum mönnum sem þarna voru má nefna Jón Sigurðsson forseta og Jens bróður hans, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Jón Hjaltalín, Grím Thomsen, Eggert Ó. Briem, Pétur Havsteen og Oddgeir Stephensen,

 

»Hér kem ég!«

 

Eiginhandarskrift gestanna er nokkuð skýr, en yfirleitt frekar smá. Undantekning frá því er helst áritun Jóns Sigurðssonar sem er ekki aðeins skýr heldur stærri en annarra. Það er eins og hann vilji segja »Hér kem ég!« Þarna er hann rétt 28 ára gamall, sinnir fræðistörfum og er ekki byrjaður að hafa afskipti af stjórnmálum að ráði. Kannski er Jón byrjaður að finna svolítið til sín á þessum tíma.

 

Annað sem vekur athygli er að fæðingarár, sem nokkrir gestanna rita, eru ekki hin sömu og í kirkjubókum. Jónas Hallgrímsson skrifar að hann sé fæddur 16. nóvember 1808, en ekki 1807 eins og segir í kirkjubókinni í heimasókn hans. Pétur Havsteen, síðar amtmaður, telur sig fæddan 1813, en kirkjubókin segir 1812. Hallgrímur Jónsson »hattari« skrifar fæðingarár sitt 1812, en það hefur verið talið 1810. Fleiri dæmi mætti nefna. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Kirkjubækur voru til dæmis ekki alltaf færðar jafnóðum.

 

Vera má að það hafi verið að ósk Gaimards að gestirnir rituðu ekki aðeins nafn sitt á listann heldur einnig fæðingarár og fæðingarstað. Hann hafði ferðast um landið og gat því í sumum tilvikum tengt heimasveit þeirra við minningar sínar frá Íslandi.

 

Margt enn ókannað

 

Fyrir þremur árum sendi Gisele Jónsson, eiginkona Sigurðar Jónssonar, frá sér tveggja binda heimildarit um Íslandsleiðangra Frakka á 19. öld. Sigurður og Gisele eru nú bæði látin, en þau höfðu viðað að sér miklum gögnum um ferðir Gaimards og samskipti hans við Íslendinga. Margt er enn ókannað í þessu efni og ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal um örlög ungs Íslendings, Guðmundar Sívertsen, sem fór utan með Gaimard 1836 og varð læknir í franska hernum, en lést sviplega á ferðalagi með Gaimard á Ítalíu. Mun hann hafa fleygt sér út um glugga og beðið bana. Heimildir eru fyrir því að Guðmundur hafi verið orðinn mjög vínhneigður. Hann var styrktur til náms í Frakklandi í því augnamiði að snúa aftur heim til að gera landi og þjóð gagn. Ekki er vitað hvers vegna hann ílengdist úti í meira en áratug. Gaimard, sem var ókvæntur og barnlaus, virðist hafa látið sér afar annt um hann og viljað allt fyrir hann gera. Má velta fyrir sér hvort álag hafi fylgt þeirri hrifningu og orðið unga manninum frá Íslandi ofviða.

 

Morgunblaðið sunnudagurinn 2. maí 2015.

« Jśnķ »
S M Ž M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30