A A A
06.04.2018 - 10:10 | Búnaðarfélag Auðkúluhrepps

Margt á döfinni hjá Búnaðarfélagi Auðkúluhrepps

Hrúturinn Höfðingi í eigu Steinars R. Jónassonar, stöðvarstjóra í Mjólká. Höfðingi var í öðru sæti allra afkvæmarannsakaðra hrúta á landinu 2017.  Ljósm. Jóhannes Frank.
Hrúturinn Höfðingi í eigu Steinars R. Jónassonar, stöðvarstjóra í Mjólká. Höfðingi var í öðru sæti allra afkvæmarannsakaðra hrúta á landinu 2017. Ljósm. Jóhannes Frank.

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps fyrir árið 2017 var haldinn í Mjólkárvirkjun í gær og var hann vel sóttur. Í skýrslu stjórnarformanns, Hreins Þórðarsonar, bónda að Auðkúlu, kom fram að furðu margt hefur verið á döfinni hjá félaginu að vanda. Verður nánar skýrt frá því starfi og fundinum síðar. Fundurinn samþykkti 6 ályktanir og fer ágrip af þeim hér á eftir.


Dýrafjarðargöng

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps, haldinn í Mjólkárvirkjun 5. apríl 2018, sendir öllum sem vinna við Dýrafjarðargöng, háum sem lágum, hugljúfar kveðjur og þakklæti fyrir vel unnin störf. Fundurinn biður Guð og Sankti Barböru, sem er verndarengill námumanna og þeirra sem vinna með sprengiefni, að blessa þá og varðveita við erfið störf.


Gamalmennin

Fundurinn leyfir sér að benda á að það er liðin tíð í Íslandssögunni að gamalmennum sé hrundið fyrir björg. Það er þjóðarskömm ef kjör þeirra sem aðeins hafa einfaldan ellilífeyri til framfærslu og ekkert eiga, verða ekki leiðrétt strax. Þetta fólk hefur unnið fyrir landið alla sína tíð og á ekkert nema heiður skilið.   


Jón Sigurðsson

Fundurinn sendir Alþingi og ríkisstjórn kveðjur sínar. Fundurinn leyfir sér  að minna þessa aðila á grundvallaratriði í málflutningi Jóns Sigurðssonar þegar hann var að reyna að koma Íslendingum til manns: Sparsemi, nægjusemi, hógværð, lítillæti og heiðarleika.


Fiskeldi

Þá óskar fundurinn fiskeldismönnum á Vestfjörðum sem annarsstaðar gæfu og gengis. Samt varar hann við því að menn fari of bratt í fjárfestingum og uppbyggingu og reisi sér hurðarás um öxl. Sígandi lukkan er best.


Ferðamál

Tekið var undir tillögur sem komið hafa fram um svokallað Íslandsgjald. Það yrði notað til hagsbóta fyrir ferðamennina sjálfa og landið. Þeir munu almennt skilja þörfina og greiða Íslandsgjaldið með ánægju. Og fá fyrir það ýmsa þjónustu svo sem aðstoð frá björgunarsveitum landsins, fræðslu og 1. flokks hreinlætisaðstöðu. Fundurinn varar jafnframt við græðgisvæðingu í ferðaþjónustunni.


Dynjandi

Samþykkt var að skora á rétt yfirvöld að bæta stórlega alla hreinlætisaðstöðu á Dynjanda svo þessi Perla Vestfjarða fari ekki í örtröð og níðurníðslu.

 

Mikið var auðvitað rætt um málefni vestfirsku sauðkindarinnar á fundinum.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30