A A A
  • 1982 - Sveinbjörn Halldórsson
20.11.2019 - 10:23 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Málefni dagsins í sögulegu samhengi:

Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson, Guðmundur Ingvarsson
Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson, Guðmundur Ingvarsson

Kvótaaðallinn fékk lán í bönkum gegn veði í óveiddum fiski, en fólkið sem á fiskinn í sjónum fékk ekki lán því það átti engin veð!!!!!!! 


Sú var tíð að þróttmestu og arðsömustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins voru staðsett á Vestfjörðum. Þar búa einhverjir harðsæknustu sjómen í heimi hér og stutt til fengsælla miða. En það hefur verið vitlaust gefið í útgerð og fiskvinnslu í áratugi hér fyrir vestan. Tæpitungulaust: Stjórnvöld hafa af gæsku sinni afhent kvótaaðlinum stjarnfræðilegar upphæðir í veiðiheimildum til frjálsrar ráðstöfunar. Allt landið og miðin. Þetta vita allir. Auðvitað hafa Vestfirðingar og aðrir landsmenn líka selt frá sér frumburðarréttinn í hendur þessum aðli, sem hefur vaðið í peningum frá bönkunum. Sem fengu veð í óveiddum fiskinum í sjónum fyrir sinn snúð. Hvar fengu bankarnir peningana? Hjá fólkinu sem á fiskinn í sjónum!!!  

   En það eru ekki allir sem átta sig á einu: Aðallinn ræður því hvaða sjávarbyggðir skuli haldast og hverjar lepja dauðann úr skel. En fiskvinnslufólk og íbúar byggðarlaga vítt og breitt um landið hefur verið gert að bónbjargamönnum. Stórútgerðin ræður nú för hvernig sem á mál er litið.

Frumbyggjarétturinn

Ýmsir hafa bent á að margt sé líkt með frumbyggjum til dæmis Ameríku og fiskvinnslufólki á Íslandi. Í Ameríku voru frumbyggjarnir rændir nánast öllu sem þeir áttu. Þeim var útrýmt eða plantað niður á vonlausum eyðilöndum. Á Íslandi hefur fiskvinnslufólk og sjómenn víða í ýmsum sjávarbyggðum mátt horfa á fiskinn synda langleiðina upp í kálgarða hjá sér. Án þess að mega nýta hann nema með einhvers konar smjörklípuaðferðum: Línuívilnun, byggðakvóti, sértækur kvóti, strandveiðar, sérstakir byggðakvótar svo eitthvað sé nefnt. Fólkinu gert að lifa á einhverskonar bónbjörgum eða betli þar sem hver slæst við annan. 


Hvað er þessi kvótaaðall og kvótagreifar?

Steingrímur Hermannsson segir svo í ævisögu sinni sem Dagur B. Eggertsson tók saman:

„Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri landssambands íslenskra útvegsmanna, var eitt sinn að því spurður hvers vegna útgerðarmenn sæktu svo stíft eftir heimildum til að kaupa nýrri og stærri togara fyrst þeir væru reknir með bullandi tapi. Kristján svaraði, og eflaust af hreinskilni, að það gerðu þeir vegna þess að þeir þyrftu ekki að hætta sínu eigin fé við fjárfestingarnar. Þeir fengju lánað nær til fulls fyrir kaupunum úr opinberum sjóðum og veðin væru aðeins í skipunum sjálfum. Útgerðarmenn hefðu því engu að tapa. Mér þótti þetta heldur vafasamt siðferði þótt skýringin ætti eflaust við rök að styðjast.

Það er umhugsunarefni að fáum árum síðar voru þessir sömu menn, sem ekki hættu eigin fjármagni nema að litlu leyti til kaupa á skipum, eftir því sem Kristján Ragnarsson sagði, taldir sjálfsagðir handhafar, ef ekki eigendur kvótans þegar hann kom til sögunnar. Þá voru rökin þau að þeir hefðu með eigin dugnaði, fjármagni og fórnarlund dregið fiskinn úr sjó og fært hann á land áratugum saman.“

Hverjir eiga fiskinn í sjónum?

Steingrímur var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Hann fékk Vestfirðinginn og reynsluboltann Baldur Jónsson frá Aðalvík sér til aðstoðar. Þeir settu saman tillögur um nýtt kerfi í fiskveiðistjórnun. Grundvöllur þess var að það leiddi ekki til byggðaröskunar. Kvótanum átti að deila á milli fiskvinnsluhúsa, skipa og báta á hverju tilgreindu svæði. Ekki skipti máli hvar fiskinum yrði landað innan hvers löndunarsvæðis. Innan þess mátti jafnframt framselja hann milli fiskverkenda og báta.

  Smáskammtalækningar á borð við byggðakvóta leysa engan vanda sagði framkvæmdastjóri L. Í . Ú. eitt sinn. Það var skynsamlega mælt. Margir íslenskir stórútgerðarmenn eru alls góðs maklegir. Og það er auðskilið að þeir hagi seglum sínum eftir vindi, ekki síður en þeir smærri. En eru það þeir sem eiga auðlindina í sjónum? Steingrímur segir í ævisögu sinni:
„Fámennur hópur ræður stórum hluta af auðlind þjóðarinnar. - Þegar ég hugsa til þess hvernig kvótakerfið hefur leikið margar blómlegar byggðir landsins iðrast ég þess helst að hafa ekki barist af meiri hörku fyrir breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi.“

Niðurstaða:

  1. Kvótaaðallinn fékk skipin á silfurfati.
  2. Kvótaaðallinn óð í peningum frá bönkunum gegn veði í óveiddum fiski.
  3. Kvótaaðallinn „átti“ nefnilega bankana.
  4. Fólkið sem á fiskinn í sjónum fékk hins vegar ekki lán til að bjarga sér og byggðum sínum. Það átti engin veð!!!!!!! 
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31