A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
21.02.2017 - 06:05 | Björn Ingi Bjarnason,Kvennablaðið,Vestfirska forlagið

Maðurinn einn með sjálfum sér

Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.
Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.

Kómedíuleikhúsið hefur á undanförnum árum unnið mikilvægt þrekvirki þegar kemur að því að efla og lífga menningu, ekki einasta á landsbyggðinni heldur á landinu öllu; Je suis Vestfirðir!

Stofnandi þess og helsti listræni starfskraftur hefur frá upphafi verið Elfar Logi Hannesson og ásamt nokkrum viðlíka frumkvöðlum er óhætt að segja – og hvergi ofsagt – að þeir séu flaggskip íslenskrar byggðastefnu. Það er raunsæi að segja, að betur má búa að og hlúa að slíkum frumkvöðlum og stjórnvöld ættu að vita og skilja, að þessar örsmáu menningarstofnanir eru hreinræktuð sálver hverri byggð sem á og eins smáar og þær eru, örva þær hugvöxtinn meira en nokkurt álver örvar hagvöxt!

Gísli á Uppsölum er 40. verkefni Kómedíuleikhússins á nálega tuttugu árum og geri aðrir betur miðað við aðstöðu og fjárhag. Að þessu sinni hefur Elfar Logi fengið til liðs við sig Þröst Leó Gunnarsson, leikara, og standa þeir báðir að handriti, en Þröstur Leó er einnig skrifaður fyrir leikstjórn. Það er augljóst að samstarf þeirra er og hefur verið farsælt, slíkur er árangurinn.

Sagan um hann Gísla er einföld í sniðum og byggingu; þetta er – eins og einatt þegar Elfar Logi og Kómedíuleikhúsið er annars vegar – einleikur. Elfar Logi er einn á sviðinu í um það bil klukkustund og þá stundina fáum við innsýn í hugarheim hins sérlundaða einbúa Gísla á Uppsölum. Þarfnast hann frekari kynningar? Ætli nokkur eremit sé frægari eftir að Árni Johnsen tók við hann blaðaviðtal á sínum tíma og sem síðar kom út viðtalsbók, Ingibjörg Reynisdóttir skrifaði um hann bók, Ólafur Gíslason tók saman og gaf út ljóðmæli og laust mál eftir Gísla sjálfan og sjálfur Ómar Ragnarsson gerði um hann Stikluþátt. Og nú hefur Kómedíuleikhúsið tekið Gísla að sér. Ætli nokkrum afdalabúa hafi jafn rösklega verið hrint fram fyrir augu alþjóðar?

Það má spyrja um tilganginn þegar við Íslendingar – nýlenduþjóð rétt sloppin úr viðjum herraþjóðar, nútímafólk, fyrir örstundu laust við þúsund ára fortíðarhætti bændasamfélags og varla byrjuð að fóta okkur í lífsstíl sem nýjasta tækni og vísindi krefst að við sinnum af sömu alúð og líkamsrækt og jóga nútímamannsins á mölinni – hefjum á loft fulltrúa fortíðar. Afdalabúinn virðist vera tákn þeirra tíma sem við söknum og syrgjum og nostur við hann eru nostalgísk viðbrögð okkar sveitafólksins sem höfum enn ekki sætt okkur við að vera komin í bæinn. Þarna er komið til móts við þörfina: Selárdalur er okkar kirkja, Gísli á Uppsölum Messías.

Og sýningin?

Það brakaði viðeigandi í gólffjölum Kúlunnar þar sem hún fer fram; Gísli Októvíus Gíslason birtist okkur úr myrkri hliðarsviðs inn í hálfrökkur miðsviðs, sem er það ljós sem einkennir sýninguna frá upphafi til enda. Birtan í sýningunni er Gísli sjálfur, í meðförum Elfars Loga ber hann með sér fagurt ljós, yl, hlýju og kærleik eins og hann gerist mannlegastur – og það verður ljóst þegar á frásögnina líður, að sá kærleikur er sprottinn úr sambandi barns við móður, Gísla Októvíusar við Gíslínu.

Umgjörðin getur varla einfaldari verið: einlitt, dökkt baktjald með tveimur litlum myndum, önnur gamaldags ljósmynd af konu – móður Gísla á Uppsölum – hin velþekkt mótív heilagrar Guðsmóður, hinnar mildu Maríu, madonnumyndin sem kennd er við borgina Vladimir í Úkraínu og sem bar á sínum tíma með sér nýja og mannlegri sýn á samband guðsmóðurinnar við barn sitt.

Hvorug myndin er tilviljun og ber vott um fádæma smekklega og meðvitaða notkun á leikmunum í leikhúsi. Þar við bætast fátækleg húsgögn: skemill með gæru vinstra megin á sviðinu sem gegnir einnig hlutverki sauðkindar í einu atriði, við baktjaldið borð sem þjónar sem eldavél, hægra megin tveir kassar, annar ofan á hinum sem gefa leikmyndinni lit auk þess sem þeir verða að orgeli Gísla á Uppsölum sem hann leikur á undir lokin; að endingu lítill bekkur á framsviði og á honum liggur mestalla sýninguna ferðataskan hans Gísla, því hann er á förum. Leikmynd og búningar í jarðarlitum, nema hvað, því Gísli á Uppsölum er líka afkomandi móður Jarðar og það er jarðlíf hans sem er viðfangsefni sýningarinnar.

Gísli á Uppsölum er á förum í meira en tvennum skilningi – í einum skilningi er hann á förum á sjúkrahúsið á Patreksfirði, læknirinn kom í heimsókn og ákvað að svo skyldi verða, hann er í öðrum skilningi á leið út úr því sögusviði sem sýningin afmarkar og í enn einum skilningi eru karakterar eins og Gísli á förum úr okkar samfélagi og okkar tíma, þessir einstaklingar sem brúa hið örskamma bil milli nútímans sem við sem fædd erum eftir seinni heimsstyrjöldx þekkjum sem hinn eina sanna veruleik, og svo þúsund ára sögu búsetu og landbúnaðar í þessu landi, síðasti hluti þess tíma mótaður af Litlu ísöld, nýlendustefnu Dana, fátækt þjóðar og vesöld alþýðu manna. Þetta eru rætur Gísla og best verður hann skilinn – sem raunveruleg manneskja og sem persóna í sýningu þeirra Elfars Loga og Þrastar Leós – þegar þær eru hafðar í huga.

Þetta varð ljóst ekki síst fyrir það að á sýningunni sem undirritaður sá, var einnig staddur Ómar Ragnarsson; Elvar Logi bauð honum upp á svið eftir sýningu og úr varð dálítil sögustund þar sem Ómar sagði frá ýmsu fólki sem rétt eins og Gísli á Uppsölum lifði utan alfaravega þessarar þjóðar, einbúar og afdalafólk sem var ekkert að veðra sig upp fyrir nálgun við nútíma, velferð og aukna hagsæld. Hjá fólki þar sem tíminn hefur ekkert vald en stendur kyrr.

Og raunar átti Ómar rullu í sýningunni sem er auðvitað skiljanlegt; hann er hvað sem öðru líður, sá fjölmiðlamaður sem hefur átt einna stærstan þátt í að ýta Gísla á Uppsölum upp á svið, sýna hann alþjóð. Og hér er frá því sagt í óborganlegu atriði, þar sem flaumósa Ómar leggur eins konar hraðaspurningar fyrir einbúann Gísla, sem nær varla að átta sig á að hann hafi verið spurður einhvers fyrr en næsta spurning skellur á honum. Nútíminn meðhöndlar fortíðina stundum af ómeðvituðu tillitsleysi, sjónvarpsáhorfendur í stofunum í Vesturbæ og Breiðholti hafa engan tíma til að horfa á Gísla á Uppsölum hugsa, velta vöngum, hika, tafsa. Áfram, áfram!

Það er einhvers staðar á þessum punkti, sem persónan Gísli verður meira en í meðallagi harmræn; ástæða þess að hann snýr baki við mannlífinu og lokar sig inni í Selárdal er höfnunin sem hann upplifir þegar honum er strítt í skóla, bræður hans svíkja hann með því að láta það óátalið og loks þegar hann er kominn á fullorðinsár, er hann hryggbrotinn af stúlkunni sem hann rennir hýru auga til. Og svo leyfir nútíminn honum ekki að orða eina einustu hugsun til enda, hann er endanlega dæmdur úr leik. Þeim mun sárgrætilegra verður það, þegar maður heyrir og sér í sýningaraukanum með Ómari, hvað honum þykir í raun óskaplega vænt um allt þetta skrýtna og sérlundaða fólk sem hann hefur hitt á ferð sinni og flugi um landið þvert og endilangt í meira en hálfa öld. Það er harmrænna en tárum taki og svo óskaplega smekklega gert í sýningunni að það tekur tíma að uppgötva það. Og tími í leikhúsi er sársauki, alls staðar þar sem áhorfanda er gefinn kostur á að finna til, þar vaknar sársauki. Í því er grimmd leikhússins fólgin – áhorfandinn í myrkrinu er maðurinn einn með sjálfum sér, rétt eins og Gísli á Uppsölum. Og samt allt þetta fólk að anda í kringum mann.

Elfar Logi hvílir ákaflega vel og fallega í karakter Gísla á Uppsölum sem og hverju andartaki sýningarinnar. Lögn hans á karakter Gísla gengur fullkomlega upp í hverju smáatriði og í heild er leikur hans unaðsleg stúdía í list leikarans, öll hans vinna ber vott um vandaða vinnu, heiðarleika og einlægni. Það er líka athyglivert – og aðdáunarvert! – hversu vel Elfar Logi treystir áhorfendum; sýningin verður samspil leikara og áhorfenda, þar sem gefið er á báða bóga. Og um stund er Gísli á Uppsölum ekki lengur einsetumaður í afdal, heldur hluti af okkur. Og við af honum.

Kómedíuleikhúsið í samvinnun við Þjóðleikhúsið: Gísli á Uppsölum
Handrit: Elvar Logi Hannesson & Þröstur Leó Gunnarsson
Dramatúrg: Símon Birgisson
Leikstjóri: Þröstur Leó Gunnarsson
Tónlist: Svavar Knútur Kristinsson
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson
Leikari: Elfar Logi Hannesson


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31