Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður – 60 ára - Ólst upp í fiskiþorpi og við almenn sveitastörf
„Ég var auk þess alltaf mikið hjá afa ög ömmu á Stað í Súgandafirði, nánast öll sumur, en þau voru með hefðbundinn, blandaðan búskap. Ég held að kynni mín af þeim og það sveitalíf sem þau buðu upp á hafi mótað persónu mína mikið.
Á veturna tók svo skólinn við, heima á Suðureyri og leikir og störf með öðrum krökkum. Við fórum í ísjakahlaup í Litlu höfninni í löngu frímínútum og drolluðum oft niðri á bryggju, vorum að þvælast um borð í bátana, fengum að fara með þeim á milli bryggjuplássa og mauluðum kex með mjólk í lúkarnum. Þetta voru ekki hættulausir leikir en þótti mikið sport.“
Lilja lauk grunnskólaprófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði 1973 og hefur síðan sótt ýmis námskeið.
Lilja starfaði hjá Íslenskri miðlun við tölvuskráningu og símasölu og hefur auk þess starfað við verslun og fiskvinnslu. Lilja var oddviti Suðureyrarhrepps 1990-94, starfsmaður sundlaugar og íþróttahúss Suðureyrar.
Hún var formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda 1988-2004, var varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða 1990-92 og frá 1998, sat í orkuráði 1995-99, í stjórn Byggðastofnunar 1999-2003, í stjórn Íslandspósts hf. 2000-2013 og var varaformaður í stjórn 2009-2013, hefur setið í fulltrúaráði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frá 2000, í stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga 2004-2013, í hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar 2006-2009, í samráðsnefnd um veiðigjöld frá 2014.
Lilja var varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið í Norðvesturkjördæmi 1993-98 og fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð 2007, hefur verið alþingismaður Norðvesturkjördæmis fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð frá 2009.
Lilja sat í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis 2009-2010 og 2010-2011, sat í heilbrigðisnefnd 2009-2010, iðnaðarnefnd 2009-2011, samgöngunefnd 2009-2011, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010, efnahags- og skattanefnd 2010-2011, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2011 og var formaður hennar, sat í menntamálanefnd 2011, atvinnuveganefnd 2011-2013, 2013-2016 og frá 2017, í efnahags- og viðskiptanefnd 2011-2013, velferðarnefnd 2013-2014, í kjörbréfanefnd 2016-2017, Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2009-2013, 2014-2016 og frá 2017.
Lilja hefur ekki verið upptekin af hefðbundnu tómstundastarfi í gegnum tíðina og á ekki von á að það breytist í bráð: „Ég er nú bara svona hefðbundin baráttukona, alin upp í íslensku fiskiþorpi og við almenn sveitastörf og er að reyna að láta gott af mér leiða, án þess að fjarlægjast þær aðstæður sem ég ólst upp við og eru mér kærar.“
Fjölskylda
Eiginmaður Lilju er Hilmar Oddur Gunnarsson, f. 20.4. 1954, atvinnubílstjóri og sjómaður. Foreldrar Hilmars Odds eru Gunnar Helgi Benónýsson sjómaður og Bergljót Björg Óskarsdóttir verkakona.
Börn Lilju og Hilmars Odds eru:
1) Jófríður Ósk Hilmarsdóttir, f. 20.4. 1978, viðskiptafræðingur í Kópavogi, en börn hennar eru Hilmar Daði Magnússon, f. 2008, og Auður Lilja Magnúsdóttir, f. 2011;
2) Gunnar Freyr Hilmarsson, f. 22.7. 1980, vélvirki í Kópavogi;
3) Einar Kári Hilmarsson, f. 26.2. 1982, vélstjóri í Hafnarfirði, og
4 ) Harpa Rún Hilmarsdóttir, f. 6.1. 1992, nemi í Reykjavík, en maður hennar er Ágúst Hrafn Ágústsson flugvirki og er dóttir þeirra Sóldís Líf, f. 2016.
Systkini Lilju, sammæðra, eru Jóna Margrét Valgeirsdóttir, f. 16.1. 1964, leikskólakennari á Suðureyri; Fríður Bára Valgeirsdóttir, f. 8.2. 1965, leikskólakennari í Reykjavík; Valur Sæþór Valgeirsson, f. 12.6. 1969, rafvirki á Suðureyri; Svava Rán Valgeirsdóttir, f. 27.2. 1971, leikskólastjóri á Suðureyri; Björn Ægir Valgeirsson, f. 15.11. 1973, bókbindari í Reykjavík; Helgi Unnar Valgeirsson, f. 3.3. 1976, byggingaverkfræðingur í Winnipeg í Kanada, og Kristjana Dröfn Valgeirsdóttir, f. 9.9. 1983, leikskólakennari á Ísafirði.
Systkini Lilju, samfeðra: Sigurbjörn Sævar Magnússon, f. 26.6. 1960, sjómaður í Ólafsvík; Guðni Þór Magnússon, f. 25.6. 1962, búsettur í Danmörku; Sína Sigríður Magnúsdóttir, f. 23.8. 1962, húsfreyja í Sandgerði, og Bjarki Magnússon, f. 28.3. 1971, múrari í Reykjavík.
Foreldrar: Magnús Einars Ingimarsson, f. 26.12. 1938, d. 9.7. 1997, sjómaður, og Þóra Þórðardóttir, f. 6.7. 1939, kennari. Fósturfaðir Lilju er Guðmundur Valgeir Hallbjörnsson, f. 24.6. 1942, sjómaður.
Morgunblaðið 24. júní 2017.