A A A
29.07.2011 - 11:03 | bb.is

Lengsta ferð Vésteins

Víkingaskipið Vésteinn
Víkingaskipið Vésteinn
Hjónin Valdimar Elíasson og Sonja Elín Thompson sigldu víkingaskipinu Vésteini frá Þingeyri til Húsavíkur á dögunum. Með í för var einnig Jakob Hermannsson. Að sögn Valdimars var ekki um hefðbundna víkingaferð að ræða og vel var tekið á móti áhöfninni á þeim stöðum þar sem skipið lagði að bryggju. Frá Þingeyri var stefnan tekin á Siglufjörð. Veðrið lék við áhöfnina til að byrja með en austur á Húnaflóa gerði leiðinlegt veður.

„Báturinn stóð vel af sér veðrið en við vorum orðin nokkuð hrakin og þreytt þegar við komum til Siglufjarðar," en siglingin tók um 34 tíma. Hópurinn gisti eina nótt á Siglufirði en hélt svo áleiðis að Gásum í Eyjafirði þar sem þau tóku þátt í miðaldarhátíð. Þaðan hélt hópurinn til Húsavíkur á Sail Húsavík strandmenningarhátíðina. „Þarna var margt um manninn og bátinn, bæði stórir og smáir. Við féllum vel inn í hópinn og tókum meðal annars þátt í kappsiglingu með seglskipaflotanum á Húsavík." Engar sögur fara af stórum sigrum í keppninni en Valdimar segir að þótt báturinn hafi ekki sigrað þá hafi hann nú ekki verið sá síðasti heldur. „Við fórum líka í nokkrar siglingar með áhugasama siglingamenn."

 

Of gott veður hrjáði bátsmenn á heimleiðinni. Það eru ekki margir sem kvarta undan logninu en það hentar ekki vel í seglskipasiglingum. „Við sigldum frá Húsavík og beina leið heim og tók siglingin um 33 tíma. Undir lokin fengum við á okkur grenjandi rigningu og svo kom svartaþoka. Leiðarsteininn kom þá að góðum notum," segir Valdimar og hlær við. Valdimar segir þó bátinn einnig búinn nútímanlegri tækni sem notast er við eftir þörfum. „Við erum líka alltaf í góðu samband við vaktstöð siglinga og látum vita af okkur með reglulegu millibili."

 

Engar reglulegar siglingar eru með Vésteini en Valdimar segir að þau sigli eftir pöntunum. „Við tökum allt frá einum farþega upp í átján, en báturinn tekur ekki við stærri hópum. Okkur langar að prufa að fara ferðir upp að Fjallaskaga hér í Dýrafirði. Þangað er mjög gaman að koma, þar eru til dæmis grafir spænskra sjómanna. Skemmtilegt væri að fara í land og grilla en svona ferð gæti tekið sex til átta tíma. Við erum að skoða áhuga fyrir þátttöku áður en við tökum einhverjar frekari ákvarðanir um ferðina.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30