A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
14.04.2017 - 06:49 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Léku Hallgrím og Guðríði fyrir 34 árum

« 1 af 2 »

• Steinunn og Sigurður lesa Passíusálmana í Hallgrímskirkju í Saurbæ

„Ég hef verið heilluð af Passíusálmunum frá því að ég hlustaði á þá sem barn í upplestri Sigurbjörns Einarssonar biskups í útvarpinu,“ segir Steinunn Jóhannesdóttir, leikkona og rithöfundur, sem á morgun, föstudaginn langa, mun í félagi við Sigurð Karlsson leikara lesa sálmana í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Samfylgd Steinunnar og Sigurðar með Passíusálmunum og sögu séra Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur er orðin löng. Þau léku hlutverk þeirra í Tyrkja-Guddu séra Jakobs Jónssonar í Þjóðleikhúsinu leikárið 1983-1984, bæði hafa þau margoft tekið þátt í upplestri sálmanna og Steinunn hefur samið bækur og leikrit um ævi hjónanna eins og alkunna er.

„Ég hlakka til, enda togar Saurbær sterkt í mig, fegurðin þar og andrúmsloftið. Ég sýndi Heim Guðríðar þrisvar sinnum þar og stóð fyrir upplestri okkar fjögurra leikkvenna á Passíusálmunum í kirkjunni á 400 ára afmæli Hallgríms árið 2014,“ segir hún. Steinunn hefur trú á því að kveðskapur Hallgríms muni lifa með þjóðinni í framtíðinni. „Í þrjár aldir var hann með Passíusálmunum sálusorgari þjóðarinnar, og enn held ég að fólk finni í þessum mikla skáldskap huggun og kraft.“

Lífshlaup Hallgríms og Guðríðar hefur höfðað sterkt til Steinunnar. „Það er mjög merkilegt og sérstakt,“ segir hún. „Þau áttu við mikla erfiðleika að stríða eftir að þau tóku saman í Kaupmannahöfn, komu heim 1637 sem sekar manneskjur að dómi síns tíma og þurftu að berjast fyrir því að fá að giftast, urðu að standa fyrir dómi og vera dæmd. Eftir sjö ára erfiðleikatímabil á Suðurnesjum fékk Hallgrímur brauð á Hvalsnesi 1644 og árið 1651, eftir önnur sjö ár, allt mjög biblíulegt, er hann vígður til Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd fyrir forgöngu Brynjólfs biskups Sveinssonar og er þá kominn í nábýli við höfðingja. Í þessari menningarmiðju vex honum ásmegin og yrkir þennan stórbrotna kvæðaflokk sem Passíusálmarnir eru.“


Lestur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju í Saurbæ


Orgeltónar á milli sálma

Sigurður Karlsson og Steinunn Jóhannesdóttir hefja lestur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju í Saurbæ kl. 13.30 í dag, föstudaginn langa. Þau munu skipta með sér lestrinum allt til kvölds, eða um kl. 18.30.
„Fólk getur komið og farið að vild meðan á lestri stendur og þegar stutt hlé verða gerð á lestrinum mun organisti kirkjunnar, Erla Rut Káradóttir, leika á orgel,“ segir sr. Kristinn Jens Sigurþórsson, prestur í Saurbæ og f.v. prestur á Þingeyri.



 

Morgunblaðið.



« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31