A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
17.01.2017 - 07:14 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Leiklist - Þjóðleikhúsið - Síðasti gæinn í dalnum - Gísli á Uppsölum ****-

« 1 af 2 »
Eftir Elfar Loga Hannesson og Þröst Leó Gunnarsson. Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Tónlist: Svavar Knútur Kristinsson. Útlit: Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Búningur: Þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Kómedíuleikhúsið frumsýndi í Selárdal 25. september 2016 og hefur sýnt víða um land á haustmánuðum. Rýnt í sýningu í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu 15. janúar 2017.

 

Það er ekki á hverjum degi sem okkur menningarrýnum í einangruninni hér í „fjölsinninu“ gefst færi að á sjá til listamanna landsbyggðarinnar. Þess vegna er ómögulegt annað en að byrja á að tala aðeins um Elfar Loga Hannesson.

Eins og kemur fram í fallegri og efnisríkri leikskrá er Gísli á Uppsölum fertugasta sýning Kómedíuleikhússins sem Elfar Logi stofnaði 1997, þá nýútskrifaður úr The Commedia School í Kaupmannahöfn. Einleikurinn er grunnform Kómedíuleikhússins og Vestfirðir varnarþing þess. Það sama má segja um annað hugarfóstur Elfars Loga, einleikjahátíðina Act Alone, langlífustu atvinnumannaleiklistarhátíð Íslandssögunnar. Þá er Elfar Logi auðvitað nærtækur fyrir áhugaleikfélög Vestfjarðakjálkans þegar finna þarf leikstjóra eða námskeiðshaldara. Hann er höfundur kennslubókar í leiklist, sögu hins gamla og merka leikfélags á Bíldudal, auk fjölmargra leikhandrita. Framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar er næsta einstakt og verðskuldar alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er.

Nafntogaðir Vestfirðingar eru áberandi rauður þráður í verkefnavali Kómedíuleikhússins og Gísli Oktavíus Gíslason er verðug viðbót við þann fríða flokk. Einbúinn sérlundaði sem varð heimilisvinur þjóðarinnar jólin 1981 fyrir milligöngu Ómars Ragnarssonar hreyfir við svo mörgum stöðvum í tilfinningalífinu. Þrautseigja og nægjusemi. Innsýn í lifnaðarhætti forfeðranna. Yfirvegun andspænis grimmu hlutskipti. Stríðnin og eineltið, sem seinna varð opinbert að væri ein af rótum örlaga Gísla, hefur sennilega dregið úr ástundun þeirrar íþróttar að herma eftir talanda sjálfsþurftarbóndans í Selárdal. En um tíma var hann sennilega einungis eftirbátur Nóbelsskáldsins sem viðfang þess alþýðusports.

Við getum byrjað á talandanum. Það er nú aldeilis listræn áskorun. Þetta höfuðeinkenni Gísla (ásamt hattinum reyndar, sem er hér í öllu sínu veldi) verður að fá sitt pláss í sviðsljósinu. Það er líka ljóst að við nútímamenn höfum ekki þolrif til að brjótast inn í talandann, svo ekki þýðir að segja söguna með hreinræktaðri stælingu. Leið Elfars Loga og Þrastar Leós Gunnarssonar, leikstjóra og meðhöfundar, er að láta sérkennin birtast og hverfa í takt við umræðuefnið og innri tíma verksins. Í upphafi og enda sýningar heyrum við hreinræktaða og vel útfærða eftirlíkingu, sem annars heyrist hvað skýrast í snjöllum (og launfyndnum) samleiksatriðum við upptökur af rödd Ómars Ragnarssonar úr Stiklum. Annars eru einkennin víkjandi og hverfa nánast alveg í atriðum þar sem Gísli er nálægt því að láta drauma sína rætast. Þetta heppnast fullkomlega; við fáum aðgang að sögunni og erum þess jafnframt fullviss að það er einmitt sá Gísli sem við þekkjum sem sagan fjallar um.

Annað sem rétt er að staldra við er yfirvegaður og úthugsaður samleikur Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni. Textinn sjálfur dregur aftur á móti fram biturð og vonbrigði skýrar en flest annað aðgengilegt efni um Gísla á Uppsölum. Undanskildir eru kaflar þar sem móðir hans kemur við sögu, og aftur er það ekki síst samleikur hans við myndina af henni sem gefur tilfinningalegu dýptina. Það má spyrja sig hvers vegna myndin ratar ekki ofan í ferðatöskuna sem Gísli er að pakka í fyrir sína hinstu ferð á sjúkrahúsið á Patreksfirði, en slíkt er öryggið í leikmunavinnunni að áhorfandinn gefur sér að þar liggi meining að baki frekar en yfirsjón.

Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Texti sýningarinnar er sagður vera að langmestu leyti orðréttur eða því sem næst upp úr skrifum Gísla sjálfs. Bernskur, afvopnandi, blátt áfram og bætir upp með einlægni það sem skortir á í skáldlegum tilþrifum eða greinandi dýpt. Reyndar vakti þessi einfaldi texti, einsemdin, endurtekningin, kyrrstaðan, örvæntingin undir, bjástrið, og svo hin næstum súrrealísku samtöl við segulbandið, upp hugrenningatengsl við Samuel Beckett. Leiðirnar að dýptinni eru margvíslegar.

Leikmynd er einföld en þénug og leikmunir sannfærandi og vel valdir. Búningur Gísla sérlega fallegur og réttur. Tónlistin er viðeigandi og áhrifarík hjá Svavari Knúti, sérstaklega for- og eftirspilið á harmóníum, hljóðfæri söguhetjunnar.

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera.

Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.

 

Þorgeir Tryggvason

 

Morgunblaðið 17. janúar 2017.

 

 

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30