A A A
16.08.2017 - 18:36 | bb.is,Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

LISTAMANNASPJALL Í HÖMRUM

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði bjóða til listamannaspjalls í Hömrum í kvöld, 16. ágúst 2017.

Í sumar hafa fjölmargir listamenn dvalið í vinnustofunum sem starfræktar eru á tveimur stöðum í bænum, við Aðalstrætið og á Engi og er óhætt að segja að þeir hafi sett svip sinn á bæinn og mannlífið. Áður en gestir vinnustofanna halda aftur til síns heima eða til móts við frekari ævintýri annarsstaðar bjóða þeir gestum að njóta afraksturs vinnu sinnar á Ísafirði með uppákomu sem þessari.

Það er fjölbreyttur og hæfileikum hlaðinn hópurinn sem kemur fram að þessu sinni. Tónlistarhjónin Ásdís Valdimarsdóttir og Michael Stirling laða fram tóna á strengi sína. Rithöfundurinn, sagnfræðingurinn og skáldið Þórunn Jarla Erlu- og Valdimarsdóttir les upp úr óútkomnum verkum og hollenski tónlistarmaðurinn Lucas Kloosterboer flytur nokkur verka sinna.

Spjallið fer fram á íslensku og ensku. Í lokin verður hægt að spyrja listamennina út í verk þeirra.

Ókeypis er á viðburðinn sem hefst klukkan 20 og er hann öllum opinn.

Um listamennina:

Ásdís Valdimarsdóttir 
er ættuð af Vestfjörðum, Mosvöllum í Önundarfirði og Snæfellsnesi en ólst upp í stórri fjölskyldu í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu frá Juilliard skólanum í New York og síðar einleikaraprófi í Þýskalandi árið 1987. Ásdís hefur ferðast mikið um heiminn og komið fram í 6 heimsálfum. Hér á landi er Ásdís sennilega þekktust fyrir að hafa verið meðlimur hins heimsfræga Chilingirian strengjakvartetts í um 8 ár; hún lék hér heima ásamt kvartettinum á Listahátíð 1998. Hún hefur komið fram í ýmsum frægum tónlistarsölum heims: Carnegie Hall í New York, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í London. Hún hefur verið leiðari víóluhópsins í Deutsche Kammerphilharmonie og unnið þar með ýmsum vel þekktum tónlistarmönnum, m.a. Claudio Abbado, Gidon Kremer, Andras Schiff og Isabellu Van Keulen. Ásdís hefur komið fram á fjölmörgum alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Berliner Festspiele, Marlboro Music Festival í Bandaríkjunum og Kuhmo hátíðinni í Finnlandi.

Ásdís er nú búsett í Amsterdam ásamt manni sínum Michael Strirling og tveimur börnum. Auk þess að leika kammertónlist víða um heim, kennir hún við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag og á ‘International Masterclasses’ í Apeldoorn, Hollandi.

Michael Stirling
 fæddist í London og er tengdasonur Önundarfjarðar. Hann nam sellóleik við Guildhall School of Music hjá Leonard Stehn og Raphael Wallfisch. Hann hélt svo áfram námi við Banff Centre í Kanada og hjá Lawrence Lesser í New England Conservatory í Boston. Frá árinu 1989 til 1997 var Michael sellóleikari hjá Ensemble Modern í Frankfurt, ásamt því að vera í átta ár, hluti af strengjasextettinum Raphael Ensemble í London sem gerðu marga hljómdiska fyrir Hyperion. Árið 1997 gekk hann til liðs við Brindisi kvartettinn í London, þar sem hann bjó og starfaði í níu ár. Á þeim tíma spilaði hann með fjölmörgum kammersveitum, jafnframt því sem hann var gesta-leiðari ýmissa sinfónía, líkt og London Symphony Orchestra og Royal Philharmonic Orchestra, svo dæmi séu tekin.
Michael fluttist til Amsterdam árið 2004 og gerðist fyrsti sellóleikari hinnar hollensku Radio Philharminic Orchestra. Síðustu ár hefur hann verið reglulegur gestur hjá hinum ýmsu fílharmóníusveitum og sinfóníum víða um heim. Michael er einnig hluti af Nieuw Amsterdams Peil og strengjatríóinu The Quimias, ásamt því sem hann spilar mikið af kammertónlist yfirleitt. Hann hefur spilað inn á upptöku hjá RCA, ásamt Marcus Stenz og Ensemble Modern, sellókonserta Hindemith Kammermusic no.3 sem fékk þýsku gagnrýnendaverðlaunin.

Lucas Kloosterboer 
kemur frá Utrecht í Hollandi þar sem hann nam tónlist við HKU listaháskólann. Hann staðsetur sig nú við ytri mörk jazztónlistar, þar sem hann stöðugt kannar og leitar töfranna sem hið nýja og óþekkta færir. Innan þess heims finnur hann sterka tengingu rafheimsins, hinnar hollensku tungu og tónlistarspuna.

Meðal þess sem hann hefur verið að fást við er að taka þátt í líflegri, frjálsri, spunasenunni í Amsterdam sem básúnuleikari. Hann skapaði nýverið risa-frjálsan-spunajazz blandaðan mæltu máli-og óperu-gjörningi sem útskriftartónleika sína. Nú kannar hann ofan í dýpri lög spuna með hinu talaða orði og raftónlist og hefur hann unnið að því í dvöl sinni á Ísafirði.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir 
er Vestfirðingur frá Mosvöllum í Önundarfirði. Hún lærði sagnfræði í Lundi í Svíþjóð 1973–1974 og sögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó árið 1977–1978. Þórunn lauk cand. mag-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983 og hefur síðan fengist við ritstörf. Eftir hana liggja á þriðja tug bóka – skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit, auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Barnævisöguna Sól í Norðurmýri og nóvelluna Dag kvennanna skrifaði Þórunn í félagi við Megas.

Þórunn var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir Stúlku með fingur sem einnig hlaut Menningarverðlaun DV. Þá hafa bækur hennar, Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld, Kalt er annars blóð, Mörg eru ljónsins eyru og Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar allar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sú síðasttalda var auk þess tilnefnd til verðlauna Hagþenkis og fékk viðurkenningu Félags bókasafns- og upplýsingafræða fyrir bestu frumsömdu fræðibók ársins. Þá hlaut Þórunn Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2013 fyrir Stúlku með maga.


« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30