A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir
26.08.2016 - 16:44 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

LÆKNINGAMÁTTUR HLÁTURSINS: - Hló ekki mikið áður fyrr en kennir nú hláturjóga

Ásta Valdimarsdóttir frá Núpi í Dýrafirði.
Ásta Valdimarsdóttir frá Núpi í Dýrafirði.

Dýrfirðingurinn Ásta Valdimarsdóttir frá Núpi kynntist hláturjóga árið 2001 í Noregi. Í kjölfarið gerðist hún hláturjógakennari og hefur síðan þá kennt fólki að hlæja og gleðjast. Hún segir hláturjóga geta haft mikil og jákvæð áhrif á líkama og sál og því hefur hún kynnst af eigin raun.

Árið 2001, þegar ég var búsett í Noregi, rakst ég á auglýsingu þar sem var verið að leita eftir einstaklingum til að læra að þjálfa fólk í hláturjóga. Mér þótti þetta áhugavert og hafði strax samband,“ segir Ásta sem kveðst ekki hafa hlegið mikið sjálf frá barnsaldri.

„En svo fór ég að efast og hugsaði að þetta hlyti að vera voða vitlaust. Ég hafði aftur samband og sagðist ekki komast því ég væri svo upptekin.“ „Við bú- um í samfélagi þar sem ekki þykir fínt að hlæja, sérstaklega þegar maður vill láta taka sig alvarlega,“ útskýrir Ásta sem segir algengt að fólk sé feimið í upphafi þegar það er að byrja að stunda hláturjóga. „Já, en maður þarf að finna barnið í sér og muna hvernig það var að vera barn og geta glaðst yfir litlum hlutum. Ég segi fólki að það þurfi að sleppa sér og leyfa sér að hafa gaman og finna fyrir gleðinni,“ segir Ásta sem byrjar hvern tíma á að kynna fyrir fólki um hvað hláturjóga snýst, að það sé mikilvægt að vera með opinn huga.

„Margir eru hræddir við að gera sig að fífli, en fólk þarf að muna að við hlæjum með hvert öðru en ekki að hvert öðru. Það er enginn að hlæja að þér.“ Í hláturjógatímum eru gerðar æfingar til að kalla fram hlátur en fljótt verður hláturinn raunverulegur að sögn Ástu. „Þá þarf maður ekki lengur að reyna að hlæja, hláturinn kemur sjálfkrafa, verður eðlilegur.“ En sumir komast þó hreinlega ekki yfir þennan þröskuld og ná ekki að sleppa fram af sér beislinu.

Að sögn Ástu, þá er alltaf hægt að prófa aftur seinna. „Já, bara eins og með mig sjálfa. Mér fannst þetta frekar vitlaust í upphafi,“ segir Ásta og hlær. Aðspurð hvort maður þurfi að vera öruggur í eigin skinni til að prófa hláturjóga svarar Ásta neitandi. „Nei, það geta allir farið í hláturjóga, hvort sem maður er öruggur með sig eða ekki, en maður öðlast aukið öryggi og sjálfstraust um leið og maður byrjar. Það er mjög breiður hópur sem stundar eða prófar hláturjóga. Ég hef hitt gæsa- og steggjahópa til að kenna hláturjóga, farið í félagsmiðstöðvar og á hjúkrunarheimili til dæmis,“ útskýrir Ásta sem hefur þá haldið fyrirlestra víða og kennt hláturjóga einu sinni í viku á veturna í Hæð- argarði.

Kominn tími til að taka hláturinn alvarlega

Ásta hefur stundað nám hjá indverska lækninum og hláturjógakennaranum dr. Madan Kataria sem er upphafsmaður hláturjóga. Síðan 2006 hefur hún þjálfað upp nýja hláturjógaleið- beinendur fyrir hönd dr. Kataria og skólans hans, Laughter Yoga University. „Ég miða við að þjálfa og útskrifa svona fimm til tíu einstaklinga í senn,“ segir Ásta. „Þar sem hann er læknismenntaður hefur hann allan varann á, hann minnir fólk á að hláturjóga kemur ekki í stað hefðbundinna lækninga en segir hláturinn vera frábæra viðbót. Hann er með slagorð sem þýðist einhvern veginn svona: „Við erum að gjalda fyrir að taka lífið alvarlega.

Núna er kominn tími til að taka hláturinn alvarlega“.“ Ásta trúir því svo sannarlega að hlátur hafi lækningarmátt og góð áhrif á sálina. Hún tekur þá bandaríska lækninn og grínistann Patch Adams sem dæmi en hann stofnaði Gesundheit! Institute árið 1971. Árlega setur hann svo saman hópa af sjálfboðaliðum sem ferðast víða um heim og hitta munaðarlaus börn, sjúklinga og aðra hópa í þeim tilgangi að koma þeim til að hlæja. Sú góðgerðastarfsemi hefur fyrir löngu slegið í gegn. Ásta segir hláturinn hafa það góð áhrif að það þurfi að minna fólk á að nýta hann. „Okkur var gefið þetta tæki til að takast á við ýmsar aðstæður. Okkur líður líka vel í kringum fólk sem er glaðlynt og hláturmilt. Hláturinn er svo smitandi.“

Röddin og talandinn breyttust, þökk sé hláturjóga

En af hverju að prófa hláturjóga? Fyrir utan að það er skemmtilegt segir Ásta hláturinn hafa þessi góðu áhrif á andlega og líkamlega líðan, meðal annars þar sem hann leysir endorfín úr læðingi. Sjálf notaðist hún við hláturjóga þegar hún meiddist á hné. „Í bland við ýmislegt annað þá stundaði ég hláturjóga og mér batnaði í hnénu. Og ég get sagt þér sögu af starfsfólki á spítala sem vann á mjög erfiðri deild. Þegar mikið gekk á fór það inn í lokað herbergi og hló, til að létta lundina og takast á við erfiðar að- stæður,“ segir Ásta.

Sjálf hefur hún fundið fyrir miklum breytingum síðan hún fór að stunda hláturjóga, til dæmis hefur röddin hennar breyst og hún á auðvelt með að hlæja upphátt. „Þegar ég var barn hætti ég að hlæja upphátt af því að hin börnin hlógu að hlátrinum mínum. Ég var svona spéhrædd. Þegar ég fór að æfa söng var ég spurð að því hvernig ég ætlaðist til að geta sungið ef ég gæti ekki hlegið.

Ef við lokum á röddina lokum við á gleðina.Við notum röddina til að hlæja og við þurfum að vera óhrædd við að beita henni,“ útskýrir Ásta sem segir rödd sína, talanda og hlátur hafa breyst mikið til hins betra eftir að hún fór að hlæja meira. Og það er þess vegna sem hún mælir hiklaust með að allir prófi hláturjóga.


Morgunblaðið föstudagurinn 26. ágúst 2016.

 

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30