A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
30.07.2017 - 07:42 | Björn Ingi Bjarnason,Fréttablaðið,Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Kristján Davíðsson skrifar: 8. boðorðið

Dýrfirðingurinn Kristján Þ. Davíðsson er framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.
Dýrfirðingurinn Kristján Þ. Davíðsson er framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.

Séra Gunnlaugur í Heydölum fer með himinskautum í predikun sinni í Fréttablaði þriðjudagsins 25. júlí 2017. Heit trú hans á málstað sinn og þeirra af safnaðarbörnum hans, sem eru handhafar laxveiðiréttinda í ám, hitar honum svo í hamsi að hann gleymir meira að segja einu boðorðanna.

Í predikun hans eru norskir laxabændur ljótu karlarnir, langt komnir með að leggja náttúru Noregsstranda í rúst og hérlend handbendi þeirra fara nú sem landafjendur um strandlengju Íslands, blindaðir af skærum loga Mammons, tilbúnir að selja náttúru landsins svo rækilega undir sömu örlög og Noreg að nærtækasta samlíkingin sem honum kemur í hug er ekkert minna en kjarnorkuváin.

Eins og góðum kennimanni sæmir boðar hann reyndar lausnina, eldi ófrjós lax í lokuðum kerfum, sem hann freistast til að skrökva að sé víða krafist, en það er hvergi gert. Hann lætur þess ógetið að eldi á ófrjóum laxi er hvergi í heiminum stundað á hagrænum forsendum. Eina eldið á ófrjóum laxi er í tilraunaskyni og hefur verið mótmælt af dýraverndarfólki og stöðvað af yfirvöldum vegna siðfræðilegra og dýraverndunarsjónarmiða. En kannski helgar tilgangurinn meðalið hjá sóknarprestinum. Er honum minna annt um velferð laxa en aurana sem má fá fyrir veiðiréttindin?

Ekkert minnist hann á nýkomið áhættumat sjókvíaeldis sem segir hættu á erfðablöndun í kvíalaxeldi, við þann litla hluta strandlengju Íslands sem er opinn fyrir eldi, sáralitla og staðbundna við eldissvæði, sem eru fjarri öllum helstu laxveiðiám landsins. Lax í hafbeitarám, ræktaður í áratugi með seiðum víða af landinu, teljast seint meðal verndar- þurfi villtra stofna og erfðablöndun löngu orðin.

Ekkert hefur heldur heyrst um að Gunnlaugur sé á móti laxeldi, sé það stundað í engum kvíum, í hafbeit, eins og gert hefur verið í Breiðdalsá um áratugaskeið. Það er honum kannski efni í aðra predikun? Kannski hann líti samt í bók bókanna áður, svona rétt til að rifja upp 8. boðorðið.

 

Fréttablaðið 28. júlí 2017.

 

Kristján Davíðsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31