A A A
  • 1951 - Sigríđur Ţórarinsdóttir
08.03.2016 - 19:48 | Vestfirska forlagiđ,Morgunblađiđ

Kristinn J. Albertsson - Fćddur 23. janúar 1948 - Dáinn 1. mars 2016 - Minning

Kristinn J. Albertsson.
Kristinn J. Albertsson.
Kristinn J. Albertsson jarðfræðingur fæddist á Barónsstíg í Reykjavík 23. janúar 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. mars 2016.

Foreldrar hans eru Albert J. Kristinsson rafvirkjameistari úr Hafnarfirði, f. 4. júní 1926, d. 28. febrúar 2015, og Elsa Kristinsdóttir frá Haukadal í Dýrafirði, f. 23. júní 1927.

Bræður Kristins eru Magnús Páll læknir, f. 3. maí 1953, kvæntur Höllu Björgu Baldursdóttur tölvunarfræðingi, og Sverrir Mar framkvæmdastjóri, f. 23. janúar 1958, kvæntur Grétu Garðarsdóttur hjúkrunarfræðingi.

Kristinn kvæntist 6. september 1974 Sigríði Ágústsdóttur leirlistarmanni og leiðsögumanni, f. 7. febrúar 1949. Foreldrar hennar voru Ágúst Finnsson úr Borgarfirði, f. 6. september 1915, d. 29. júní 1967, og Ágústa Björnsdóttir frá Fáskrúðsfirði, f. 10. ágúst 1915, d. 23. mars 1972. Kristinn og Sigríður eiga eina dóttur, Iðunni Elsu, fædda í Cambridge 28. október 1976, en hún er gift Sverri Örvari Sverrissyni skipulagsfræðingi, f. 27. júlí 1979. Þau eiga Brynhildi Daðínu, f. 27. september 2008, og Hákon Þorra, f. 7. febrúar 2011.

Kristinn flutti í Hafnarfjörð á fyrsta árinu. Hann fór í gegnum hefðbundna skólagöngu þar, fyrst í „Kató“, síðan í Flensborgarskóla og tók landspróf í Vonarstræti.

Kristinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og hóf síðan nám í jarðfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1972 ásamt þremur öðrum í fyrsta útskriftarhópnum.

Yfir sumartímann vann hann á Orkustofnun, mest á Norðausturlandi og tók miklu ástfóstri við þann landshluta enda skrifaði hann báðar sínar prófritgerðir um það svæði, Brúaröræfi og síðar Tjörnesið.

Hann stundaði framhaldsnám í aldursgreiningum á bergi og brautskráðist með doktorsgráðu Ph.D. frá Cambridgeháskóla í Englandi 1977. Árin í Cambridge var Kristinn á Churchill College og helsti kennari hans var Dr. Jack Miller. Við heimkomu hóf Kristinn störf við Raunvísindastofnun Háskólans og síðar við jarðfræðiskor þar sem hann kenndi í áraraðir. Um tíu ára skeið eftir heimkomu fékk Kristinn styrki frá Vísindasjóði til að stunda rannsóknir og aldursgreiningar í Cambridge en til þess þurfti flókin og dýr tæki sem ekki voru til hér á Íslandi. Seinna vann Kristinn hjá Iðntæknistofnun en síðustu 16 ár var hann forstöðumaður Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Kristinn var gjaldkeri Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 2001-2014 eða alls í 14 ár.

Kristinn gerðist félagi í Rotaryklúbbi Hafnarfjarðar 1987 og starfaði síðar í klúbbnum á Akureyri þar sem hann var forseti auk þess sem hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum. Hann var í Oddfellowstúkunni Sjöfn á Akureyri og var í starfi umsjónarmanns stúkunnar þegar hann lést.

Sumarið 2015 fluttu þau hjón suður yfir heiðar og komu sér fyrir nærri heimaslóðum Kristins í Hafnarfirði en hann lét af störfum 1. ágúst síðastliðinn.

Útför Kristins var gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 8. mars 2016.

_________________________________________________________________

 

Minningarorð Sverris M. Albertssonar

 

Kristinn fékk mig í tíu ára afmælisgjöf og þess vegna sagðist hann bera ábyrgð og hætti í raun aldrei að ala mig upp. Og þegar ég var barn fannst mér hann stóri bró vera langflottastur. Hann vissi næstum allt og las útlensku og hjálpaði mér við heimanám og svo var hann mikill útilegumaður og kunni að pakka í bakpoka og hnýta alla hnúta. Ég sagði honum ekki nógu oft hversu mikil fyrirmynd mín hann var.

Hann var ótrúlega tryggur vinur og stóð ævinlega þétt við bakið á manni og studdi, hvernig sem vindar blésu. Fyrstur til stuðnings í mótlæti og fyrstur með árnaðaróskir þegar vel gekk. Hugtakið „mitt hús – þitt hús“ átti vel við hann og hans góðu konu, Sigríði Ágústsdóttur. Húslyklarnir voru á vísum stað og húsið til notkunar hvort heldur þau voru heima eða ekki.

Lífið klappaði honum ekki alltaf með silkiklút. Hann veiktist 28 ára gamall af krabbameini sem var illlæknanlegt. Hann komst í tilraunahóp með nýtt lyf og lifði af og læknaðist. En það var ekki þrautalaust og erfitt fyrir ungan mann – nýkominn úr námi með ungabarn. En kvörtunarorð heyrðust ekki. Síðar á ævinni þegar hann lenti „milli skipa“ á vinnumarkaði kvartaði hann heldur ekki – heldur hélt ótrauður í endurmenntun Háskólans og haslaði sér svo völl á nýju sviði.

Mér finnst erfitt að skrifa minningarorð um bróður minn. Bæði af því að hann er dáinn og ég mun ekki aftur spjalla við hann, þrasa eða sækja ráð. Það er erfitt að sætta sig við. En ekki síst af því að hann stendur mér svo nærri að ég veit ekki hvar ég á að festa hönd.

Hann bróðir minn var mikill náttúruvísindamaður – víðlesinn og fróður. Hann var skarpgreindur og hefði getað haslað sér völl í flestum greinum. Hann valdi sér jarðfræði og síðar skrifaði hann doktorsritgerð sína við Cambridge-háskóla í svokallaðri Kalíum Argon-aldursgreiningu á bergi. Þegar ég var að skrifa þetta – leitaði ég á netinu að tilvitnunum í hann og fann þá tugi tilvísana í vísindarannsóknir hans – ýmist eigin greinar í vísindatímaritum eða greinar annarra sem byggðust m.a. á hans rannsóknum. Og það var ekki aðeins að rannsóknir hans þættu markverðar heldur man ég og hversu lofsamlega umsögn doktorsritgerðin hans fékk fyrir það hversu vel hún var skrifuð.

Kristinn átti góðan förunaut í Sigríði Ágústsdóttur, leirlistakonu, sem stóð þétt með honum í lygnu sem stormi. Hann lauk starfsferlinum sem forstöðumaður Akureyrarstofu Náttúrufræðistofnunar og sinnti því af alúð og áhuga. Skömmu eftir starfslok þegar þau voru nýflutt í Hafnarfjörðinn aftur og í næsta hús við móður okkar – en henni ætluðu þau að vera stoð og stytta, jafnframt því að byggja, bæta og breyta sumarbústaðnum sínum við Heklurætur – greindist hann á ný með krabbamein og aftur heyrðust ekki æðruorð. Hann gekk mót örlögum sínum af æðruleysi og hann gat litið um öxl stoltur af góðu ævistarfi. Siddý og Iðunn og hennar fjölskylda sjá á bak góðum og traustum manni, föður og afa. Við Magnús á bak góðum bróður og tryggum vin og mamma á eftir frumburðinum. Þetta eru þung spor en minningarnar ylja.

 

 

Sverrir Mar Albertsson.

 

________________________________________

 

 

Minningarorð Magnúsar Páls Albertssonar

 

Elsku bró

Nú ert þú genginn, þú ert allur.

Ekki óraði okkur fyrir því þegar við kvöddum pabba í fyrra að við þyrftum að kveðja einhvern annan úr hópnum svo fljótt. En við ráðum því ekki, verðum bara að lúta höfði og taka því sem að okkur er rétt. Ég vil með fáeinum orðum kveðja þig hér og þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum lífið. Fyrir mér hefur þú alltaf verið ekta stóribróðir. Ég leit mikið upp til þín og hélt á tímabili að allt sem þú gerðir værir hið eina rétta. Ég gat alltaf leitað til þín með spurningar sem ég fann ekki svör við, sérstaklega ef þær snerust um náttúruna eða tónlist en líka þótt þær snerust um eitthvað allt annað. Ég kom sjaldnast að tómum kofunum hjá þér. Auðvitað kom að því að við vorum ekki alltaf sammála en það eyðilagði aldrei neitt hjá okkur því við gátum nefnilega alltaf virt skoðanir hvor annars og einfaldlega verið sammála um að vera ósammála ef því var að skipta. Þú varst óþreytandi við að leiðbeina mér og svo stóðst þú alltaf við bakið á mér ef á þurfti að halda. Ég man mörg tilvik úr uppvextinum þar sem ég átti þannig tryggan bandamann í þér sama við hverja var átt og það sama hefur gilt síðar í lífinu.

Þannig á ég margar góðar minningar síðan í gamla daga, en björtustu minningarnar eru þó nýlegri eða frá því að við fórum að fara í veiðitúra saman fyrir um það bil tuttugu árum. Síðan þá höfum verið saman á mörgum stöðum og veitt í öllum veðrum. Við vorum vissulega ekki mestu aflaklærnar en þetta voru góðir túrar. Mátulega stíft sótt veiðin, náttúran skoðuð um leið, þú varst enn, fram á síðustu ár, að innprenta mér þá virðingu sem þú barst fyrir náttúrunni, og hennar notið á alla lund því ég veit að við kunnum báðir vel að meta það að horfa, að skoða eða bara að leggja sig á milli þúfna í sólskininu og sofna á árbakkanum.

Veiðitúrarnir verða líklega einkennilegir hér eftir og hópurinn þynnri. Við ætlum samt að halda áfram, sami hópur, og það er alveg víst að þú verður með okkur í anda.

Ég vil líka þakka þér ánægjulegar stundir á Munkanum, þar var notalegt að setjast niður að kvöldi dags eftir góðan mat og sötra viskí fyrir framan arininn, oft í löngum samræðum og djúpum eftir atvikum.

Þín verður sárt saknað hér af okkur Höllu Björgu og okkar börnum en bjartar minningar lifa og við þær verður hægt að orna sér. Við vonum að Siddý finni þann styrk sem hún þarf til að fara í gegnum sorgina sem og fjölskyldan öll.

 

Magnús Páll.

 
Morgunblaðið þriðjudagurinn 8. mars 2016.

« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31