A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
18.12.2016 - 09:31 | Dagskráin - Fréttablað á Suðurlandi,Jón Özur Snorrason,Komedia,Vestfirska forlagið

Kómedíuleikhúsið í Fischersetri á Selfossi

Elfar Logi Hannesson.
Elfar Logi Hannesson.
« 1 af 3 »

Hið vestfirska Kómedíuleikhús sýndi fyrir fullu húsi leikverkið um Gísla á Uppsölum á háalofti Fichersseturs síðastliðið föstudagskvöld 9. desember 2016. Um er að ræða einleik sem tekur klukkutíma í sýningu. Leikari sýningarinnar er Elvar Logi Hannesson sem einnig leikstýrir henni ásamt Þresti Leó Gunnarssyni. Þetta er einföld sýning að allri umgjörð og rúmast þokkalega á baðstofulofti setursins þar sem Aldís Sigfúsdóttir heldur utan um starfsemina af mikilli gestrisni.

Saga Gísla á Uppsölum er flestum miðaldra Íslendingum kunn eftir heimsókn og Stikluþætti Ómars Ragnarssonar í byrjun níunda áratugarins. Fólk gapti í undrun í hlýjum híbýlum sínum á þennan smávaxna einbúa sem dró fram lífið í afskekktum dal, klæddur lörfum með sjóvelktan hatt á höfði og talaði lágt með drafandi röddu sem erfitt var að skilja. Engin vélvæðing, ekkert rafmagn, ekkert ljós. Hiti af völdum kamínu sem kveikt var upp í og kaffi, kjöt og kartöflur soðið til matar. Gísli fæddist árið 1907 og þegar Ómar opnar landsmönnum þessa ótrúlegu sýn inn í þankagang og búskaparhætti afdalabóndans á fyrri tíð er Gísli rúmlega sjötugur.

Sýning Kómedíuleikhússins er falleg í alla staði og ber í sér mikla virðingu fyrir viðfangsefninu. Hún er lágstemmd og hljóðlát þar sem hægar og markvissar hreyfingar leikarans gegna jafnmiklu hlutverki og hið talaða orð. Hún hefst á því að Gísli kemur gangandi inn á sviðið með grænmáða ferðatösku. Hann opnar hana rólega og jafnvel með erfiðismunum því hann er orðinn gamall og þá hefst einræðan hægt og bítandi. Það er hreinlega eins og orðin séu að fæðast. Þau hefjast í hiki og stunu en verða síðan að orði og orðum og síðan að samfelldu máli sem segir okkur raunasögu þessa manns sem um leið er orðin samnefnari fyrir alla þá sem ekki fá notið hæfileika sinna og verða undir í lífinu. Að því leyti er þetta grimm saga af einelti og skilyrðislausri tryggð við skyldur sínar. Gísli er í raun heimsmaður og hæfileikamaður sem vegna aðstæðna sinna og aldarfars er hlekkjaður heimahögunum og mótun persónuleikans bíður hnekki í aðkasti sem hann verður fyrir í bernsku. Í lok sýningarinnar er það ljós af ólíulampa og guðlegir tónar hins fótstigna orgels sem deyja út, hvort tveggja tákn um manneskjuna Gísla á Uppsölum.

Í þessari sýningu er leikarinn í algjöru fyrirrúmi. Allar hreyfingar hans hafa merkingu, sérstaklega handa og fingra, hvernig hann beitir líkamanum á göngu, ofurhægum hreyfingum þar sem tíminn eins og standi kyrr um stund og hinkri eftir að Gísli inni af hendi það sem hann sýslar við hverju sinni. Elvar Logi er vandaður listamaður og flinkur leikari og nær að skapa þá tilfinningu í huga áhorfandans að einstök saga af manni getur varpað ljósi á miklu stærra og víðara svið.

Jón Özur Snorrason

 

Dagskráin - fréttablað á Suðurlandi

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31