Kári Eiríksson - Fæddur 13. febrúar 1935 - Dáinn 1. maí 2016 - Minning
Foreldrar hans voru Eiríkur Þorsteinsson kaupfélagsstjóri og alþingismaður, frá Surtsstöðum í Jökulsárhlíð, f. 16. febrúar 1905, d. 8. maí 1976, og Anna Guðmundsdóttir húsfreyja, frá Syðra Lóni við Þórshöfn, f. 23. apríl 1914, d. 24. desember 1999. Systkini voru Jónína Herborg, f. 1931, Hulda, f. 1938, d. 1993, Eiríkur, f. 1941, Guðmundur, f. 1944, d. 2004, Katrín, f. 1946, Þórey, f. 1949, og Jón, f. 1954. Kári kvæntist árið 1966 Sigurbjörgu Stefánsdóttur, f. 1935, en þau slitum samvistum árið 1985. Eignuðust þau soninn Kára Kárason, f. 17. nóvember 1965. Eiginkona hans er Inga Kjartansdóttir, f. 1965, og börn þeirra eru Harpa Káradóttir, f. 1987, og Dagur Kári Kárason, f. 1997.
Kári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1953-1954, Listaháskólanum í Kaupmannahöfn 1957, Listaakademíunni í Flórens 1957-1959 og í Róm 1960-1961. Kári hélt fyrstu einkasýningu sína í Casa di Dante í Flórens 1958 og fyrsta einkasýning hér heima var í Listamannaskálanum 1959. Frá þeim tíma hefur hann haldið fjöldamargar stórar einkasýningar hérlendis og erlendis, en þær umfangsmestu voru 1973, 1979 og 1986 á Kjarvalsstöðum. Kári vann að ýmsum sérverkefnum erlendis, m.a. stórri veggmynd í Mexíkóborg en þangað fluttist hann með fjölskylduna 1967-1968. Margar sýningar Kára hlutu mikla athygli almennings og oftar en ekki seldust sýningar hans upp.
Útför Kára fer fram frá Laugarneskirkju í dag, miðvikudaginn 11. maí 2016, klukkan 11:00
------------------------------------------------------------------------------------
Kæri bróðir og vinur.
Þú fórst frá okkur snögglega en hljóðlega eins og þú lifðir, hljóðlátur en samt gustaði af þér hvar sem þú fórst. Lífinu lifðir þú eftir eigin ákvörðunum og skoðunum.
Sem barn man ég þig ætíð kátan og hressan en strax mjög sérstakan. Uppeldisárin á Þingeyri við mikið frelsi og alltaf höfðum við nóg að leika okkur við. Skíða- og skautaferðir að vetri og elta pabba við heyskap, veiðar og annað sem til féll. Ég þremur árum eldri fékk aldrei hærra en 4,5 fyrir teikningu í skólanum, en þegar þú byrjaðir fékkst þú 10 í einkunn fyrir myndirnar þínar og út allan barnaskólann. Við systkinin urðum svo átta og stefnt að því að allir færu í eitthvert nám. Þú varst sendur í nokkra héraðsskóla en varst alltaf fljótt kominn heim aftur. Síðast á Laugarvatn, nægjanlega langt í burtu til að þú myndir tolla í vistinni. En þú straukst og foreldrar okkar gáfust upp. Þú vissir hvað þú vildir, listmálari ætlaðir þú að verða og hófst því nám við Myndlistarskólann. Kennslan var samkvæmt tíðarandanum, allir skyldu mála abstrakt-myndir. Það líkaði þér ekki og málaðir því eftir eigin höfði sem var ekki vænlegt til mikilla vinsælda. Eftir árin við framhaldsnám í Flórens og Róm tók alvaran við, málverkasýningar sem margar gerðu stóra lukku, þú giftist Sibbu og Kári sonur ykkar fæddist.
Síðustu árin bjóst þú á gömlum heimaslóðum á Felli í Dýrafirði hjá Eiríki bróður okkar sem reyndist þér eins og okkur öllum ætíð vel. Um jólin komstu svo suður og þá var spilað bridge út í eitt, það þótti þér ekki leitt. Um síðustu jól komstu ekki vegna lasleika og snarruglaðir því jóladagskrá okkar hjóna í Karfavoginum.
Við Siggi kveðjum þig með söknuði og vottum þeim Kára, Ingu, Hörpu, Degi Kára og Sibbu okkar innilegustu samúð, hann sá ekki sólina fyrir ykkur.
Að lokum þessar línur úr ljóði frá Dýrafirði
Bærist í húsi
hljóður tregi.
...
Haustvindar berið
hjartans þakkir
að hvílubeði.
...
(Á.J.)
Jónína.
___________________________________________________________________________________
Í dag kveð ég vin og listamann sem fór sínar eigin leiðir með listagyðjunni. Kári var óvenjulega sjálfstæður listamaður sem hafði metnað til að fara sínar eigin leiðir í leit að gyðju fagurra forma og lita. Samleið okkar lá fyrst í Myndlista- og handíðaskóla. Síðar á lífsleiðinni hittumst við reglulega yfir kaffibolla með nokkrum vinum. Andagiftin var ávallt með honum þegar rætt var um listir og pólitík. Stjórnmálin voru honum hugleikin enda kominn frá heimili þar sem samvinna og pólitísk átök voru veruleiki.
Við félagarnir hentum gaman að því að Kári hefði verið sendur með skipi Sambandsins til Ítalíu til að leita að listagyðjunni. Hafi með honum farið í land bretti af saltfiski sem átti að duga honum til framfærslu fyrsta misserið á tímum gjaldeyrishafta. Flórens var þá rómatísk borg þar sem borgaraskáldin sungu og drukku á krá.
Glæsilegur var vegur Kára er hann fór með list sína inn á Kjarvalsstaði. Undirbúningur var mikill og margir veggir að prýða með málverkum, þar sem yrkisefnið var sótt í íslenska náttúru. Tær vestfirsk áhrif er að finna í málverkum hans. Mér fannst alla tíð að Kári væri málari hálendisins. Landi norðursins með öllum sínum víddum og margbreytileik. Á sýningum uppskar hann gleði erfiðisins og tók á móti fjölda sýningargesta sem áttu það til að kaupa upp öll málverkin.
Ekki var Kári allra í list sinni frekar en margir einfarar. Hann sýndi í Listamannaskálanum árið 1959 við Austurvöll ungur að árum. Kjarval var þá í margra augum furðufugl sem hafði ekki öðlast þá hylli sem síðar varð. Erró var lengi einn á listabraut, en frægðin kom að utan. Kári fékk sinn skammt af öfund og vanstillingu frá styrkjaelítu sem vildi ráða för í íslenskum listaheimi. Aðrir báru hans stílbrögð saman við erlenda samtíma listamenn, en Kári átti sinn eigin stíl alla tíð.
Aldrei man ég eftir að Kári hafi þegið styrki til að getað stundað list sína. Í minningunni er Kári, glaði, raunsæi drengurinn sem sá skoplegu hliðarnar á tilverunni. Á efri árum bjó Kári á Felli við Dýrafjörð hjá Eiríki bróður sínum. Síðasta utanlandsferð Kára var til Grænlands, lands víðáttu og öræva, táknræn ferð fyrir listsköpun hans. Blessuð sé minning hans.
Sigurður Antonsson.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 11. maí 2016