05.03.2009 - 01:16 | Tilkynning
Kaffidagur Dýrfirðingafélagsins verður 8.mars
Hinn árlegi kaffidagur Dýrfirðingafélagsins verður haldinn í *Fella- og Hólakirkju* (Hólabergi 88 í Breiðholtinu, í næsta nágrenni Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs) *sunnudaginn 8. mars.* Sú hefð hefur skapast að Dýrfirðingar hafa fjölmennt í messu sem hefst kl. 14:00 og síðan verður sala á kaffi og meðlæti strax á eftir eða um kl. 15:00. Allur ágóði af kaffisölunni fer í sjóð sem styrkir góð málefni í Dýrafirði. Kaffinefnd félagsins, skemmtinefnd og stjórn mæta með kökur, brauð og fleira góðgæti til að hafa með kaffinu. Við minnum á að við erum ekki posavædd svo munið eftir reiðufénu!
Það er okkur mikið ánægjuefni að segja frá því að sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir sóknarprestur á Þingeyri mun predika og þjóna fyrir altari. Kórsöngur verður í höndum brottfluttra Dýrfirðinga sem hafa hist og æft sérstaklega í tilefni dagsins og verður enginn svikinn af þeim tónum.
Það er von okkar að sem allra flestir mæti og Dýrfirðingar, ættingjar, venslafólk þeirra og vinir eigi góða stund saman við veisluborðið. Boðið verður upp á skapandi afþreyingu fyrir börnin.
Með góðri kveðju,
f.h. Dýrfirðingafélagsins
Bergþóra Valsdóttir