A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
20.02.2015 - 20:38 | Vestfirska forlagið

Kafarabúningurinn

Sverrir Hermannsson.
Sverrir Hermannsson.

-Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu-

Gunnlaugur Sigurjónsson, fiskeldisbóndi á Bakka í Dýrafirði, var einn af þessum orðheppnu og kjaftforu Vestfirðingum sem láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Gunnlaugur kom sér upp fiskeldi af mikilli þrautseigju í tjörnum með ísköldu vatninu úr Brekkudalsánni, sem rennur um Bakkaland. Var sagt að hann hefði notað ellistyrkinn sinn í því skyni.

Sumarið 2005 kom Sverrir Hermannsson þangað með Margréti dóttur sinni og fylktu liði fjölskyldunnar. Var rennt fyrir fisk í Hólmavatni og voru aflabrögð góð. Þegar leið á aflahrotuna, tók Gunnlaugur bóndi eftir því að Sverrir, sem kominn er af léttasta skeiði sem kunnugt er, var eitthvað að líta í kringum sig og fór síðan að príla og skrönglast þar sem bakkinn er hvað brattastur við Hólmavatnið. Skipti það engum togum að gamla bankastjóranum skrikaði fótur og rann hann endilangur ofan í vatnið á strigaskónum. Hljóp Gunnlaugur til bjargar og hugðist draga Ögurvíkinginn upp úr vatninu, en hann hafði þá klórað sig einhvern veginn upp á bakkann aftur. Skiptust þeir eitthvað á orðum, Vestfirðingarnir, í tilefni af þessum svaðilförum, en báðir orðhvatir nokkuð. Endaði það með því að Gunnlaugur mælti svo:

 “Þetta er allt í lagi Sverrir minn. Þú kemur bara í kafarabúningi næst þegar þú kemur til að veiða í Hólmavatni.”

Það fylgir ekki sögunni hverjar undirtektir þessi tillaga fékk hjá Sverri veiðimanni.

 

Úr bókinni -Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu- sem Vestfirska forlagið gaf út.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30