A A A
  • 1957 - Jón Reynir Sigurðsson
  • 1963 - Ísleifur B Aðalsteinsson
  • 2000 - Lilja Kristín Björgvinsdóttir
Jónasína Þrúður Kristjánsdóttir. (1914-2015)
Jónasína Þrúður Kristjánsdóttir. (1914-2015)
Jónasína Þrúður Kristjánsdóttir fæddist í Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði 8. janúar 1914. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 17. september 2015.

Foreldrar hennar voru Kristján Benónýsson, bóndi, f. 25.8. 1885, d. 2.10. 1969, og Kristín Þórðardóttir, húsfreyja, f. 30.3. 1881, d. 12.12. 1941.

Systkini: Þórður Ingimar, húsasmíðam., f. 3. júlí 1917, d. 5. maí 2014. Ásgerður, húsm. f. 9. júlí 1918, d. 24. maí 2010.

Benóný Björgvin, pípul.m., f. 24. maí, d. 12. des. 1992.

Jónasína giftist Gunnari Thordarsyni, f. 19. okt., d. 15. des. 1971, frá Ísafirði 23. okt. 1937 og bjuggu þau fyrstu árin í Reykjavík. Fluttu til Siglufjarðar 1940, til Reykjavíkur fluttu þau síðan 1949.

Börn Jónasínu og Gunnars: Steinar, f. 1938, kvæntur Margréti Björgvinsdóttur, börn þeirra: Gunnar, f. 1963, garðyrkjufr. í Danmörku, Þrúður, f. 1963, tannfræðingur í Danmörku, Orri, f. 1968, arkitekt í Hollandi, Hlynur, f. 1978, býr í Skálatúni, Mosfellssveit, Styrmir, f. 1941, málarameistari í Reykjavík, Börkur, f. 1951, efnafr. býr í Svíþjóð, var í sambúð með Giselu Stumm, barn þeirra Johanna, f. 1980.

Var kvæntur Hönnu Láru Gunnarsdóttur frá Ísafirði, þau skildu, barn þeirra er Gunnar Freyr, f. 1985, var kvæntur Jónu Guðmundsdóttur, þau skildu, barn þeirra er Freyja, f. 1989. Er giftur Maríu Jónsdóttur.

Eftir lát Gunnars 15. des. 1971 starfaði Jónasína m.a. við saumaskap, húsgagnabólstrun, húshjálp og ræstingar hjá Krabbameinsf. Reykjavíkur.

Á seinni árum naut hún sín vel við ýmiss konar hannyrðir, m.a. bútasaum, leirkerasmíði, teikningar og málun. Hún skilur eftir sig haganlega gerð listaverk úr leir ásamt málverkum og teikningum

Frá árinu 2009 bjó Jónasína á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.

Útför Jónasínu Þrúðar fór fram frá Neskirkju í dag, þriðjudaginn 29. september 2015.

___________________________________________________________________________________

 

Minningarorð: 

Guðbjörg, Páll Skúli

og Jón Áki Leifsbörn.

 

Sína frænka okkar hefur nú kvatt eftir langa ævi. Við höfum þekkt hana frá því í barnæsku og vorum svo lánsöm að kynnast henni enn betur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar við bjuggum hjá henni við Ásvallagötuna til lengri eða skemmri tíma.

Eins kíktum við stundum í heimsókn til Sínu eftir að hún flutti á Grandaveginn þar sem hún var í hæstu hæðum með stórkostlegt útsýni í nær allar áttir. Hún var ávallt höfðingi heim að sækja og það var gaman að vera í návist hennar því hún var alltaf í góðu skapi.

Sína var einstaklega iðin og listfeng. Allt lék í höndunum á henni.

Hún prjónaði, föndraði, batt inn bækur, málaði myndir, bjó til leirmuni og svo mætti lengi telja. Listaverk hennar bera vott um einstaka hæfileika og eiga eftir að halda minningu hennar á lofti og ylja okkur um hjartarætur í framtíðinni.

Sína hélt mikið upp á ljóð séra Sigtryggs Guðlaugssonar, prests á Núpi í Dýrafirði. Eitt var í sérstöku uppáhaldi hjá henni enda um fjörðinn fagra og kæra, Dýrafjörðinn eða „DYRAFJÖRÐINN“ eins og hún sagði ákveðin að hann héti. Augu hennar leiftruðu þegar hugurinn bar hana vestur og hún kvað með sínum sterku áherslum:

 

Fjörðurinn kær

faðmast í skauti þér

ás, grund og sær:

blá lagarbönd

bindast og vefjast

um glitofna strönd:

víkur og voga

vinda í boga

framnes og oddar

svo hér megi sjá

sigurmörk há.

 (Sigtryggur Guðlaugsson)

Töluvert var farið að draga af Sínu undir lokin en við systkinin minnumst hinnar síbrosandi, hjartahlýju frænku okkar sem aldrei féll verk úr hendi. Við erum þakklát fyrir að hafa verið svo lánsöm að fá að kynnast henni og njóta vináttu hennar. Við vottum fjölskyldu hennar samúð okkar.

Blessuð sé minning Sínu.

Guðbjörg, Páll Skúli og Jón Áki Leifsbörn.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 29. september 2015.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30