A A A
  • 1957 - Sigríđur Ţórdís Ástvaldsdóttir
  • 1982 - Kristjana Sigríđur Skúladóttir
  • 2004 - Auđbjörg Erna Ómarsdóttir
07.05.2016 - 05:08 | Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason,Morgunblađiđ,Vestfirska forlagiđ

Jónas Ólafsson - Fćddur 20. júlí 1929 - Dáinn 27. apríl 2016 - Minning

Jónas Ólafsson
Jónas Ólafsson
« 1 af 4 »
Jónas Ólafsson fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð 20. júlí 1929. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 27. apríl 2016.

Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson húsasmíðameistari, f. 12. maí 1892, d. 30. desember 1967, og Elínborg Sveinsdóttir, símstöðvarstjóri á Þingeyri, f. 12. október 1897, d. 11. maí 1955. Systkini Jónasar eru Yngvi, f. 1922, d. 2005, Sveinn, f. 1924, Björgvin, f. 1924, Þórey Hrefna, f. 1925, Höskuldur, f. 1927, Jónas, f. 1928, d. 1928, Sylvía, f. 1931, Ingibjörg, f. 1932, Sigríður, f. 1935, Ólöf, f. 1937, María, f. 1939, Guðrún, f. 1944, d. 1960. Hálfsystkini Jónasar, börn Ólafs og fyrri eiginkonu hans, Þóreyjar Sturlaugsdóttur, eru Hrefna, f. 1915, d. 1918, Kjartan, f. 1918, d. 1991. Ennfremur Þórir, f. 1931, d. 1990.

Jónas kvæntist Kristínu Nönnu Magnúsdóttur 7. nóvember 1954, foreldrar hennar voru Magnús Amlín Ingibjartsson og Ingunn Elín Angantýsdóttir.

Börn Jónasar og Nönnu eru

1. Magnús, f. 3. september 1953, hans börn eru: Hugrún, f. 1973, Nanna Kristín, f. 1974, Magnús Þór, f. 1978, Jónas Breki, f. 1980, og Sturla Snær, f. 1987. 2. Angantýr Valur, f. 19. apríl 1955, giftur Eddu Hafdísi Ársælsdóttur, f. 15. maí 1960, börn þeirra eru: Óttar, f. 1982, Ágúst, f. 1985, Elín Edda, f. 1987, Ingunn Ýr, f. 1993 og Víkingur, f. 1997. 3. Ingunn Elín, f. 11. febrúar, 1957, gift S. Vilhelm Benediktssyni, f. 1. ágúst 1955, börn þeirra eru: Kristín Nanna, f. 1976, og Stefán Benedikt, f. 1980. 4. Kristinn, f. 30. september 1965, giftur Helgu Valdísi Guðjónsdóttur, f. 5. febrúar 1969, börn þeirra eru Thelma, f. 1996, og Kristinn Jökull, f. 2002. 5. Steinar Ríkarður, f. 6. október 1966, giftur Nönnu Björk Bárðardóttur, f. 29. júní 1966, börn þeirra eru: Patrekur Ísak, f. 1996, Birna Filippía, f. 2000, og Dagur Ernir, f. 2000. Langafabörnin eru orðin 16.

Jónas fór ungur í sveit á Skarði á Skarðsströnd en lærði síðan vélvirkjun í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri og vann þar um skeið. Starfaði síðan við verslunarrekstur í nokkur ár. Var kjörinn í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps 1966 og sat í hreppsnefnd til 1996. Tók síðan við starfi sveitarstjóra á Þingeyri 1971 og gegndi því starfi til ársins 1996 eða í 25 ár. Sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 1996-1998 og gegndi starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar síðasta árið. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga, átti sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sat í stjórn Hafnarsambands Íslands. Á yngri árum tók hann mikinn þátt í íþróttastarfi á ýmsum sviðum og keppti sjálfur. Í mörg ár hélt hann kindur sér til mikillar ánægju og var mikil áhugamaður um sauðfjárrækt allt til dauðadags.

Útför Jónasar fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, laugardaginn 7. maí 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Þegar ég lít til baka og hugsa um pabba þá koma fyrst upp í huga mér kindurnar hans og öll sú vinna sem í kringum þær voru. Pabbi var um áratuga skeið með frístundabúskap sem gaf honum mikla ánægju. Sem ungur maður fór hann í sveit á Skarð á Skarðsströnd, var hann þar fram á unglingsaldur og bar hann alltaf miklar tilfinningar til þess staðar og fólksins þar. Þar hefur sjálfsagt áhuginn á fjárbúskapnum kviknað. Hann var mjög natinn við kindurnar, var góður ræktunarmaður og átti gott fé. Pabbi lagði áherslu á það við okkur bræður að hugsa vel um dýrin og kenndi okkur réttu handtökin við bústörfin. Á jólum fengu kindurnar alltaf besta heyið sem til var og voru fjárhúsin þrifin hátt og lágt. Það er ógleymanleg ferð er við bræður fórum með pabba fyrir nokkrum árum norður á Strandir að sækja hrút en afi hans, Sveinn, hafði verið prestur í Árnesi. Hann sagði okkur frá öllu sem fyrir augu bar og gaman var að hlusta á frásögn hans og að sjálfsögðu var það hann sem valdi hrútinn. Pabbi og mamma höfðu mikinn áhuga á garðrækt og ber garðurinn í kringum húsið þeirra þess glöggt vitni. Ekki var pabbi mikil tilfinningavera og var mjög fámáll um allt slíkt, þó mátti sjá tár á hvörmum þegar eitthvað hreyfði við honum. Pabbi var góður afi barna minna og fylgdist hann vel með þeim og spurði alltaf um þau er við ræddum saman. Hann var sveitarstjóri á Þingeyri um áratuga skeið og hafði mikinn metnað fyrir hönd samfélagsins. Á árunum frá 1966 til 1998 sem hann starfaði í sveitarstjórnarmálum urðu gífurlegar breytingar í sjávarþorpum um land allt, Þingeyri var þar engin undantekning þar sem mikil uppbygging átti sér stað og fegrun umhverfis.

Samstarfsmaður pabba til margra ára í sveitarstjórn var Þórður Jónsson frá Múla, þeir náðu vel saman þó ekki væru þeir samflokksmenn og höfðu báðir mikinn áhuga á bússkap. Það var mikið áfall fyrir pabba þegar Þórður féll frá langt um aldur fram því þar missti hann góðan vin og samstarfsmann. Pabbi var mjög ráðagóður, lagði mikla áherslu á að maður færi vel með það sem manni væri trúað fyrir, hefði trú á sjálfum sér og legði sig fram um að ná settum markmiðum. Það var gott að leita ráða hjá pabba og hann fylgdist vel með mínum störfum. Pabbi naut virðingar í stjórnsýslunni og fann ég það er ég hóf störf á sama vettvangi. Þó það sé ef til vill skrýtið þá var pabbi ekkert mjög pólitískur, þ.e.a.s. ef ég tek mið af mömmu í þeim málum, en hann hafði mikinn áhuga á samfélagsmálum, þá sérstaklega samgöngumálum og beitti hann sér mikið á þeim vettvangi fyrir svæðið og var m.a. formaður hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þegar ákvörðun var tekin um jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiði. Einnig sat hann í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og Hafnarsambands Íslands auk fjölda annarra trúnaðarstarfa.

Margs er er að minnast enda nutum við þeirrar gæfu að eiga marga áratugi saman og fyrir það er ég þakklátur. Nú er komið að kveðjustund, gott er að eiga minningar um góðan föður sem reyndist mér vel, blessuð sé minning hans.

mbl.is/minningar

 

Kristinn Jónasson

_____________________________________

Við sátum hljóðir uppi á Stekk að loknu góðu dagsverki, kvöldsólin lék við fjallstindana. Mófuglarnir sungu sín fegurstu ljóð. Vélahljóðin í nágrenninu þögnuðu og ómur af röddum bændanna tók við. Kyrrðin færðist smám saman yfir fjörðinn, sólin hneig til viðar og fjöllin spegluðust í logninu.

Sameiginlegt áhugamál okkar feðga, kaffitímabúskapur, var uppspretta athafna og skoðanaskipta báðum til ómældrar gleði. Við feðgar vorum ekki alltaf sammála en skildum ávallt sáttir. Faðirinn nýtti stað og stund til að undirbúa soninn undir lífið. Lagður var grunnur að vináttu og umhyggju sem aldrei bar skugga á.

Í dag leitar hugurinn aftur upp á Stekk til þeirra stunda sem við áttum þar. Þau hughrif sem samspil náttúru og lands bauð upp á og við feðgar gátum ekki fangað í orð hefur skáldið fært í búning í ljóðinu Vorvísur úr Dýrafirði. Eitt erindi úr ljóðinu verður hinsta kveðja sonar til föður.

 

Yfir firði, túni og teigi

töfrakyrrð í nótt er vís.

Fegra logn þú finnur eigi

fyrr en þá í Paradís.

 

(Guðm. Ingi Kristjánsson)

Angantýr Valur Jónasson.

-----------------------------------------------------------------

Við Jónas vorum kvæntir systrum, Jónas Nönnu og ég Doddu. Fjölskylduböndin hafa alla tíð verið sterk þar sem tengdaforeldrar okkar, Ingunn og Magnús Amlín, voru miðpunkturinn. Jónas og Nanna bjuggu ofan við götuna en tengdaforeldrar okkar fyrir neðan götuna og samgangurinn var mikill. Þegar við komum í heimsókn til Þingeyrar var farið á milli húsa eins og allt væri þetta sama heimilið og í minningunni lifa margar ánægjulegar samverustundir frá þeim tímum. Þá minnist ég fjölmargra ferða sem við fórum saman, út með Dýrafirði, um Vestfirði og landið allt. Ég var oftast við stýrið en Jónas með kíkinn í höndunum horfandi upp um hlíðar í leit að vænu fé.

Jónas og Nanna byggðu hús á Þingeyri og sköpuðu sér og börnunum fimm fallegt heimili. Þau sýndu og sönnuðu að garðrækt á Þingeyri var vel möguleg og ræktuðu í sameiningu upp fallegan garð þar sem við nutum svo oft góðra stunda í sól og blíðu.

Þau voru af þeirri kynslóð þegar sjálfsagt þótti að konan væri heima og sinnti börnum og búi en karlinn væri fyrirvinnan og sæi um aðdrætti til heimilisins. Þegar hann kom heim í hádeginu beið hans heitur matur og eftir matinn var séð til þess að hann fengi að kasta sér út af smástund sér til hvíldar. Þrátt fyrir að Jónas hafi ekki komið að eldhúsverkum svo einhverju nemi náði hann á efri árum nokkurri færni við að elda hafragraut og sjóða kartöflur að eigin sögn.

Jónas var frístundabóndi til margra ára og stundaði sauðfjárrækt. Hann hafði mikla unun af því að vinna að kynbótum á fjárstofni sínum og hafði þar góðan árangur eftir því sem mér er sagt. Ég er langt frá því að vera fróður á þessu sviði en get þó fullyrt að lambakjöt sem barst frá búi Jónasar inn á heimili mitt þótti bera af öðru kjöti í alla staði. Þó sauðfjárræktin hafi ekki bundið okkur saman áttum við Jónas ýmis sameiginleg áhugamál og má þar nefna gleðistundir við laxveiðar og við spilaborðið þar sem við spiluðum bridge bæði sem mótherjar og makkerar.

Jónas var snyrtimenni fram í fingurgóma og eitt af því sem ég lærði af honum var að ódýrasta og arðbærasta fjárfesting sem menn gætu farið í væri að huga að umhverfinu og hafa snyrtilegt í kringum sig. Á þeim 25 árum sem Jónas var sveitarstjóri tók Þingeyri stakkaskiptum, götur voru bundnar slitlagi, gangstéttar lagðar, blóm og tré gróðursett og gömul skúrræksni rifin. Þeir sem ferðuðust um Vestfirði tóku eftir að Þingeyri bar af öðrum byggðarlögum hvað snyrtimennsku varðaði. Þar var allt svo hreint og fínt að hægt var að fara um þorpið á sokkaleistunum.

Á síðustu árum sínum sem sveitarstjóri stóð Jónas fyrir byggingu sundlaugar og íþróttahúss á Þingeyri. Þessar byggingar verða minnisvarði hans um ókomna tíð og veita íbúum Þingeyrar og gestum ómælda gleði og lífsfyllingu.

Nú þegar samvistum okkar Jónasar er lokið að sinni kveð ég svila minn með virðingu, þökk og söknuð í hjarta, góður drengur hefur lokið göngu sinni hér á jörðu.

Minni góðu mágkonu Nönnu, börnum hennar og fjölskyldum þeirra sendum við Dodda og fjölskylda okkar innilegar samúðarkveðjur.

Kristján Haraldsson

 

 

Morgunblaðið laugardagurinn 7. maí 2016.

« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31