Jón Höskuldur Gíslason - Fæddur 8. ágúst 1932 - Dáinn 23. apríl 2017 - Minning
Foreldrar hans voru Gísli Vignir Vagnsson, f. 3. ágúst 1901 í Fjarðarhorni Gufudalshr., Austur-Barð., d. 4. október 1980, bóndi á Mýrum í Dýrafirði, og kona hans Guðrún Sigríður Jónsdóttir, f. 17. maí 1895 í Sauðeyjum á Breiðafirði, d. 7. október 1975.
Systkini Jóns: Einar Andrés, f. 1924, d. 2015, Þuríður f. 1925, d. 2016, Sigurbjörg Árndís, f. 1927, d. 1965, Una, f. 1928, Álfheiður, f. 1929, Valdimar Haukur, f. 1934, Bergsveinn Jóhann, f. 1938, Davíð, f. 1941. Uppeldisbróðir og frændi: Pétur Kristinn Þórarinsson, f. 1922, d. 1999.
Jón kvæntist Gestheiði Þuríði Þorgeirsdóttur 27. september 1959, f. 27. febrúar 1931, dóttir Katrínar Markúsdóttur húsmóður, f. 29. mars 1900, d. 31. mars 1967, og Þorgeirs Sigurðssonar sjómanns, f. 24.6 júní 1902, d. 8. júní 1972.
Börn Jóns og Gestheiðar:
1) Gísli Vagn, f. 23. maí 1959, kvæntur Bryndísi Garðarsdóttur. Börn þeirra eru: a) Dagný Björk, f. 1985, gift Kristófer Sigurðssyni, dætur þeirra eru Viktoría Rut, f. 2014, og Katrín Lilja, f. 2016. b) Arnar Freyr, f. 1990, í sambúð með Heru Jóhannsdóttur.
2) Sonur, f. 16. maí 1966, d. 17. maí 1966.
Gestheiður átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi:
1) Katrín Ágústa, f. 11. september 1948, gift Hans Ankjær.
2) Gestur, f. 26. júlí 1950, kvæntur Oddnýju Guðmundsdóttur. Börn Gests eru: a) Ágúst Þór, f. 1968, kvæntur Berglindi Fríðu Viggósdóttur. Sonur þeirra er Kristófer Daði, f. 1998. Fyrir átti Ágúst soninn Aron, f. 1993. b) Hjördís Bára, f. 1970, í sambúð með Þórði Rey Arnarsyni. Börn Hjördísar eru Rebekka Þurý, f. 1998, og Hannes Már, f. 2004. c) Heiðrún Harpa, f. 1976, gift Þórði Dagssyni. Þeirra börn eru Kolbrún Andrea, f. 1994, og María Rut, f. 1998. Dóttir Kolbrúnar Andreu er Emelía Rún, f. 2013. d) Jón Ólafur, f. 1979, kvæntur Katrínu Ástu Stefánsdóttur. Þeirra börn eru Ólafur Vilhelm, f. 2012, Bjarney María, f. 2014, og Bjarni Friðrik, f. 2016. e) Eva Rán, f. 1981. Hennar börn eru Thelma Líf, f. 1998, og Joshua Elí, f. 2007.
3) Esther, f. 24. febrúar 1952, gift Sigurði Bergsteinssyni. Þeirra börn eru: a.) Kristín Berta, f. 1973, gift Hafsteini Orra Ingvasyni. Þeirra börn eru Ingvi Hrafn, f. 2004, og Esther Sara, f. 2007. b) Alda Hrund, f. 1975, gift Bjarka Birgissyni. Þeirra börn eru Jóhanna Berta, f. 1994, Kolfinna Esther, f. 1995, Bergsteinn Snær, f. 2000, og Ólafur Ernir, f. 2002. c) Bergsteinn, f. 23. apríl 1979. Í sambúð með Vigdísi Másdóttur. Þeirra dóttir er Iðunn, f. 2011. Áður eignaðist Bergsteinn soninn Sigurð Elí, f. 2000.
Jón flutti frá Gljúfurá að Mýrum 1936 ásamt fjölskyldu sinni. Hann ólst upp við öll almenn sveitastörf og var ungum falin ábyrgð eins og vöktun æðarvarps og þar með meðferð skotvopna. Fyrir fermingu var hann ásamt öðrum byrjaður í ferjuflutningum yfir Dýrafjörð.
Jón gekk í Núpsskóla, fór í Iðnskólann í Reykjavík og lærði vélvirkjun, komst á samning í Héðni og lauk þaðan sveinsprófi 1959 með viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Meistararéttindi hlaut hann í sama fagi og starfaði alla tíð við vélvirkjun og lengstum sem verkstjóri.
Jón og Gestheiður hófu búskap sinn í Kópavogi en fluttu í Garðahrepp árið 1964 og bjuggu þar lengstum. Síðustu æviárin bjuggu þau í Hafnarfirði.
Árið 1961-1962 hóf Jón störf í Bátalóni en þá var þar engin vélsmiðja. Honum var falið að byggja hana upp, sem hann og gerði með rennibekk og logsuðutæki að vopni. Öll verkfæri smíðaði hann. Í Bátalóni starfaði hann meðan fyrirtækið var starfandi. Frá Bátalóni fór Jón, Nonni í Bátalóni, til starfa hjá Dröfn en lauk starfsævi sinni hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar.
Jón var virkur í Kiwanisklúbbnum Setberg í Garðabæ. Hann sat í stjórn verkstjórafélagsins Þórs og var mörg ár kosinn endurskoðandi félagsins. Hann sat í stjórn Dýrfirðingafélagsins. Jón og Gestheiður byggðu sér sumarhús á Heimri Stekk í landi Mýra og dvöldu þar langdvölum.
Útför Jóns fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 4. maí 2017, og hefst klukkan 13.
___________________________________________________________________________________
Minningarorð Valdimars H. Gíslasonar
Í dag kveðjum við Jón Höskuld Gíslason, bróður og vin. Hann fæddist á Gljúfurá í Arnarfirði en flutti, þegar hann var á fjórða ári, með foreldrum, systkinum og föðurforeldrum þaðan að Mýrum í Dýrafirði. Flutningarnir urðu okkur systkinunum minnisstæðir. Við vorum flutt á vélbát út Arnarfjörðinn, fyrir Sléttanes, inn Dýrafjörð að Mýramel. Frá sjónum var svo gengið heim að Mýrum. Urðu það mikil umskipti að koma úr bæjarkrílinu á Gljúfurá í reisulegt íbúðarhúsið á Mýrum, sem eru fornfrægt höfuðból. Þar var í mörg horn að líta, túnið stórt og þýft, engjalönd mikil, æðarvarp með 1.200 hreiðrum og útihús mörg og dreifð víða. Viðhaldi á flestum húsum var ábótavant. Við systkinin vorum því ekki gömul þegar við fórum að taka til hendi. Það kom snemma í hlut Jóns að aðstoða við gæslu æðarvarpsins og þá einkum að verja það fyrir ágangi refs, hrafns og svartbaks. Hann var því ekki gamall þegar hann fór að fara með byssu, og segja má að hún hafi verið honum tiltæk eftir það.
Þó að Jón menntaði sig og starfaði sem iðnaðarmaður syðra reyndi hann að komast vestur um varptímann flest vor, vakti þá um nætur, skaut refi og flugvarg. Jón reisti sér sumarbústað í Mýralandi á Innri-Stekk. Þaðan sér vel yfir meginhluta varplandsins. Eftir að hann hætti störfum vegna aldurs dvaldi hann í bústaðnum ásamt Gestheiði konu sinni sumarlangt frá vori og fram undir haust. Þaðan vaktaði hann varpið og var það mikill léttir heimafólki á Mýrum.
Sá háttur hefur verið hafður á, nú í meira en 20 ár, að vaktmenn í vörpunum á Mýrum og Læk komi saman að Mýrum við svokallað herráðsborð kl. sex að morgni. Þar neyta menn kaffis og meðlætis. Smjörkaka er á borðum ef refur hefur fallið um nóttina. Þá er mönnum skylt að koma með vel stuðlaða vísu um atburði næturinnar. Hefur margur ungur stigið þar sín fyrstu spor í vísnagerð. Jón var góður hagyrðingur og lagði mikið af mörkum við herráðsborðið. Ég veit að hann myndi vilja færa þakkir öllum vinum sínum og samstarfsmönnum sem hann hitti þar, vor eftir vor.
Jóni þótti sérlega vænt um æskustöðvarnar í Dýrafirði og lýsti þeim svo:
Víða hér á foldu finnast
fagrir staðir og vert að kynnast.
Enginn þó af Guði gjörður
glæsilegri en Dýrafjörður.
Hann fór aldrei til suðlægra sólarlanda, hans sólarland var bústaðurinn á Stekknum og Dýrafjörður. Hann orti kominn á níræðisaldur:
Þó að refur rölti um mel
og riðlist fuglahjörð,
karlinn gamli kætist vel,
kominn í Dýrafjörð.
Seinustu árin barðist Jón við illvígan sjúkdóm. Dvaldi undir það síðasta á Sólvangi í Hafnarfirði og naut þar góðs atlætis. Síðasta dvöl hans vestra var vorið 2015. Hann var orðinn lasburða en vildi standa sína plikt og skila sinni vísu. Ein af þeim síðustu var þannig:
Nú er liðið lágnættið
og lokið minni vöku.
Best er því að bregðast við
og berja saman stöku.
Að leiðarlokum þökkum við Jóni samfylgdina sem og alla þá hjálp og gleði sem hann veitti með komum sínum að Mýrum. Gestheiði, Gísla og fjölskyldum vottum við innilega samúð.
fjölskylda, Mýrum.
Morgunblaðið fimmtudagurinn 4. maí 2017.