A A A
  • 1979 - Björgvin Helgi Brynjarsson
21.03.2016 - 16:46 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Jenna Jensdóttir - Fædd 24. ágúst 1918 - Dáin 6. mars 2016 - Minning

Jenna Jensdóttir.
Jenna Jensdóttir.
Jenna fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði.
Hún lést á hjúkrunardeild Hrafnistu í Reykjavík 6. mars 2016.

Foreldrar Jennu voru hjónin Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir, f. 1892, d. 1936, og Jens Guðmundur Jónsson, bóndi og kennari, f. 1890, d. 1976. Systkini Jennu: Jón, f. 1916, d. 1980, Áslaug tvíburasystir, f. 1918, d. 2015, Sigríður, f. 1922, d. 2014, Hilmar, f. 1924, d. 1991, Kristján, f. 1931, d. 2002, Soffía, f. 1935. Hálfbróðir Gunnbjörn, f. 1945.

Jenna giftist 2. maí 1942 Hreiðari Stefánssyni, kennara, f. 1918, d. 1995. Foreldrar hans voru Benedikta Sigvaldadóttir, f. 1897, d. 1976, og Stefán Guðjónsson, f. 1894, d. 1978.
Eldri sonur Jennu er Ástráður Benedikt, f. 1942, læknir. Fyrri eigink. hans Ásta B. Þorsteinsdóttir, f. 1945, d. 1998, hjúkrunarfr. og alþingismaður, börn þeirra Arnar, f. 1967, læknir, eigink. Rikke Marie Jensen, f. 1973, læknir, dætur Asta Marie, f. 2008, og Agnes, f. 2012. Þorsteinn Hreiðar, f. 1975, læknir, eigink. Berglind Þ. Árnadóttir, f. 1978, læknir, börn Benedikt Árni, f. 2007, og Júlía Margrét, f. 2010. Ásdís Jenna, f. 1970, táknmálsfræðingur, eiginm. Kevin Kr. Oliversson, f. 1968, flugvirkjanemi, sonur Adam Ástráður, f. 2011. Seinni kona Ástráðs er Anna I. Gunnarsdóttir, f. 1969, lyfjafræðingur, dætur Ása María, f. 2006, og Soffía Sóllilja, f. 2008.
Yngri sonur Jennu og Hreiðars er Stefán, f. 1947, læknir, eigink. Margrét O. Magnúsdóttir, f. 1949, lífeindafræðingur. Börn Hrafnhildur, f. 1969, upplýsingafræðingur, eiginmaður Gylfi Magnússon, f. 1966, hagfræðingur, börn Margrét Ragna, f. 1998, Magnús Jóhann, f. 2001, Stefán Árni, f. 2003, og Jóna Guðrún og Dóra Elísabet, f. 2007. Magnús, f. 1971, hagfræðingur, eigink. Auður Þ. Rögnvaldsdóttir, f. 1974, verkfræðingur, dætur Kristín Ingibjörg, f. 2003, Berglind Anna, f. 2006, og Sigríður Helga, f. 2009. Jenna, f. 1980, læknir, eiginm. Stefano Zorsi, MBA, dætur Eliana Ýr, f. 2005, og Sigrún Chiara, f. 2010.

Jenna yfirgaf heimahagana um 16 ára aldur í kjölfar móðurmissis og fór suður til að afla sér menntunar. Hún stundaði nám í kvöldskóla KFUM og í Námsflokkunum, en settist síðan í Kennaraskólann. Hún lauk tveimur vetrum kennaranámsins, en fluttist til Akureyrar með Hreiðari sem þá hafði lokið kennaraprófi.

Þau stofnuðu Hreiðarsskóla og kenndu lestur í rúm 20 ár. Jenna kenndi jafnframt við Barnaskóla Akureyrar til ársins 1962, síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar í eitt ár. Hún lauk kennaraprófi utanskóla vorið 1963 við 45 ára aldur. Eftir flutning til Reykjavíkur kenndi Jenna í um tvo áratugi á unglingastigi Langholtsskóla og við Námsflokka Reykjavíkur. Þá var hún bókmenntagagnrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið í tæpa þrjá áratugi.

Jenna var í stjórn Kvenfélagsins Framtíðarinnar og í barnaverndarnefnd Akureyrar. Hún var formaður Félags íslenskra rithöfunda um skeið og sinnti trúnaðarstörfum fyrir Rithöfundasamband Íslands, heiðursfélagi 2014. Hún var stofnfélagi í Alfadeild Alþjóðasamtaka kvenna í fræðslustörfum árið 1975 og sinnti því til dauðadags. Þá var hún lengi í skólasafnanefnd Reykjavíkur, auk annarra nefndastarfa.

Jenna birti nokkrar sögur á unglingsárum og hlaut þá verðlaun í samkeppni Ríkisútvarpsins. Hún samdi 25 barna- og unglingabækur ásamt Hreiðari, þar á meðal Öddubækurnar sem hafa oft verið endurútgefnar. Hún gaf út ljóðabók og nokkur smásagnahefti, auk þess sem fjöldamargar sögur hennar og ljóð hafa birst í útvarpi, blöðum og tímaritum.

Jenna hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 1973 og viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1974. Einnig fékk hún viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Íslands 1979, 1987 og 1995. Hún var heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness sl. haust.

Síðustu 20 árin bjó Jenna ein í íbúð á Seltjarnarnesi, en naut síðan umönnunar á hjúkrunardeild Hrafnistu í tæpt ár fram að andláti sínu.

Útför Jennu fór fram frá Hallgrímskirku í dag, 21. mars 2016.

_______________________________________________________


Minningarorð Jensínu Valdimarsdóttur frá Núpi

 

Elskuleg móðursystir mín og nafna, Jenna Jensdóttir, hefur nú kvatt þennan heim á nítugasta og áttunda aldursári. Sem barn man ég eftir stolti yfir því að eiga þessa frægu frænku á Akureyri, sem skrifaði vinsælar bækur, var barnakennari og lét til sín taka í málefnum líðandi stundar. Síðar átti ég eftir að kynnast frænku minni betur þegar ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að búa á heimili þeirra Hreiðars á námsárum mínum í Reykjavík.

Jenna var mikill hugsuður, listamaður og ekki síst fræðimaður og má segja að þetta þrennt hafi sameinast í einu af hennar stóru áhugamálum, íslenskri tungu. Þekking hennar á málinu, rithöfundastörf og óþrjótandi vilji og áhugi fram á háan aldur, við að kenna íslenskum ungmennum rétta málnotkun, textasmíð og vandað málfar var mörgum gott veganesti. Jenna bjó yfir miklum fróðleik, kunni ógrynni öll af ljóðum, var stálminnug og frásagnarlist hennar var leikandi lipur. Hún lagði áherslu á góð gildi í lífinu og andleg verðmæti en framar öllu var fjölskyldan henni hugleikin, synir hennar tveir og fjölskyldur þeirra. Fylgdist hún ávallt vel með öllum og allt fram til hins síðasta sagði hún fréttir af fólkinu sínu.

Ég er þakklát frænku minni fyrir það sem hún kenndi mér, fyrir umhyggju hennar og tryggð. Fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíli Jenna frænka mín í friði og hafi þökk fyrir allt og allt.

Jensína Valdimarsdóttir (Jenna).

 

 

Morgunblaðið mánudagurinn 21. mars 2016

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31