A A A
Winston Spencer Churchill.
Winston Spencer Churchill.
« 1 af 2 »

Hinn frjálsi heimur stendur í ævarandi þakkarskuld við Breta fyrir það hversu staðfastir þeir stóðu gegn nazistum og fylgifiskum þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Á ögurstund reis upp nýkjörinn forsætisráðherra þeirra, Winston S. Churchill og sagðist ekkert hafa að bjóða þeim annað en blóð, svita og tár ef sigur ætti að vinnast á mestu myrkraöflum sögunnar. Þessa sögu þekkja flestir og hvernig Bandaríkjamenn lögðust svo á árarnar með Bretum, Rússum og bandamönnum þeirra í þeim ógnvænlega heildarleik svo sigur vannst að lokum.

   
Á 70 ára afmæli stríðsloka má rifja upp að íslenskir sjómenn komu mikið við sögu í þeirri baráttu. Þeir áttu stóran þátt í að halda lífinu í bresku þjóðinni með því að færa henni fisk á borðið svo hundruðum þúsunda tonna skipti á styrjaldarárunum. Að vísu gegn greiðslu. Það er spurning hvernig farið hefði ef þeir hefðu ekki fengið sitt Fish and chips! Íslensku fiskimennirnir sigldu með björgina yfir hættulegasta hafsvæði heims sem þá var, Atlantshafið. Þýsku kafbátarnir skutu þá hvert íslenska skipið á fætur öðru á mararbotn og gerðu árásir á önnur af algjöru miskunnarleysi. Mannfallið var ógnvænlegt hjá hinni örsmáu þjóð. Blóð, sviti og tár urðu þá hlutskipti Íslendinga, ekki síst Dýrfirðinga.

   Íslenskir fjölmiðlar og fulltrúar okkar erlendis ættu nú að fletta sögubókunum og rifja myndarlega upp hvernig íslenskir sjómenn lögðu sitt af mörkum til að halda lífinu í Bretum. Breskur almenningur þarf að fá upprifjun á þessu.

    Breska stjórnin þakkaði fyrir sig í hruninu. Hún valdi ekki þá leið að hjálpa Íslendingum og þá sjálfum sér um leið. Svo fer jafnan er menn þekkja ekki sinn vitjunartíma. Færeyingar vissu aftur á mót hvað klukkan sló. Eins og við rifjuðum upp um daginn, skröpuðu þeir saman allt sem þeir áttu út um allar eyjar og lánuðu frændum sínum og vinum. Því mega Íslendingar aldrei gleyma. Hér sannast alltaf það sama. Við eigum að rétta hvort öðru hjálparhönd þegar á bjátar. 

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31