A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
26.11.2015 - 08:09 | BIB,Morgunblaðið

Íslandssaga sem þyrfti að rannsaka betur

Flateyri við Önundarfjörð. Ljósm.: BIB
Flateyri við Önundarfjörð. Ljósm.: BIB
« 1 af 2 »
Heimildamyndin Veðrabrigði frumsýnd í Bíó Paradís í dag 26. nóv. 2015.

„Eitt leiddi af öðru,“ segir Ásdís Thoroddsen leikstjóri um tilurð nýjustu heimildamyndar sinnar sem nefnist Veðrabrigði og frumsýnd verður í Bíó Paradís í kvöld kl. 20.

„Ég fékk upp í hendurnar efni sem tveir útlendingar höfðu tekið upp á árunum 2009-2011 á Flateyri,“ segir Ásdís, en annar þeirra, Uwe Teske klippti myndina. „Á upptökunum mátti sjá fólk við vinnu sína á Flateyri og stöku viðtöl. Þetta var töluvert magn af efni. Þeim hafði ekki tekist að fjármagna mynd sína og höfðu látið allar upptökurnar í hendurnar á Hjálmtý Heiðdal sem á og rekur fyrirtækið Seyluna. Honum tókst að fjármagna myndina með því skilyrði að leikstjórinn væri íslenskur,“ segir Ásdís. Meðframleið- andi myndarinnar með Hjálmtý er Heather Millard, en samframleiðslufyrirtæki með Seylunni ehf. eru Yeti Film frá Þýskalandi og Metro Films frá Póllandi. Myndin er framleidd með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kvikmyndaáætlun ESB Creative Europe MEDIA og þýsku sjóðunum Medienborg Berlin -Brandenburg og Film und Medien Stiftung NRW, en þess má geta að RÚV og TVP í Póllandi hafa þegar keypt sýningarréttinn.

Fékk frjálsar hendur

„En fékk algjörlega frjálsar hendur í nálgun minni á myndefninu. Það sem upphafsmenn myndarinnar höfðu haft í hyggju voru samskipti Íslendinga við innflytjendur, en fjölmargir Pólverjar og Filippseyingar búa og starfa á Flateyri. Samskiptin eru ágæt og því lítið um þau að segja, en þegar ég fór að skoða efnið blasti við mér að fólkið var niðurdregið, þó það reyndi að gleðjast, þar sem það bjó við mjög óöruggt atvinnuástand. Á þessum tíma voru uppsagnir í gangi og nýtt fyrirtæki tekið við sem gekk ekki. Þarna birtist því ólgusjór í atvinnulífi staðarins sem rekja mátti til kvótakerfisins, því með tilkomu kvótakerfisins færðust örlög íbúanna í hendur þeirra sem réðu kvótanum,“ segir Ásdís og tekur fram að myndin dragi upp mynd af baráttu íbúa á Flateyri fyrir tilveru sinni og framtíð þorpsins.

Í kynningu á myndinni kemur fram að fylgst sé með nokkrum þorpsbúum við störf sín og rætt við þá um lífskilyrði þeirra og þorpsins. „Ber fyrst að telja hina öldnu Jóhönnu sem segir nýliðna sögu þorpsins. Önundur vörubílstjóri heitir eftir firðinum þar sem hjarta hans slær, en hann fær ekki þrifist. Samhent fjölskylda Guðrúnar, eiginmanns hennar og barna, gerir út og herðir gæðaharðfisk. Einyrkinn Sigurður fiskar með syni sínum á unglingsaldri upp í leigukvóta. Janina var nýflutt til landsins, vann í frystihúsinu og var nýbúin að kaupa hús, þegar henni var sagt upp í þrengingum þorpsins. Stanislaw flæktist til Íslands úr atvinnuleysi Póllands og endaði á Flateyri sem sjómaður. Á endanum hittum við Bryndísi, nýkomna til þorpsins fulla eldmóðs sem framkvæmdastjóri nýs fyrirtækis,“ segir í kynningu.

Óöruggt atvinnuástand

Að sögn Ásdísar fór hún í fimm heimsóknir vestur til að taka upp myndina. „Við höfðum síðan þann munað að geta stokkið til baka í tíma og notað fyrri upptökur og líka með því að skeyta inn myndum úr safni Ríkisútvarpsins. Þannig að inn í persónulegar dramatískar frásagnir er klippt fréttaefni allt frá því er kvótahafi selur burt kvóta þorpsins dag einn í maí 2007 og síðan þá hvernig reynt hefur verið að koma fótum á nýjan leik undir atvinnustarfsemi í þorpinu; með stofnun nýs fyrirtækis sem gerði út á leigukvóta en fór í gjaldþrot upp úr íslenska efnahagshruninu. Þá kemur enn nýtt fyrirtæki til leiks sem virðist muni ganga vel,“ segir Ásdís og bendir á að kvótakerfið snerti marga. „Og það ríkir ekki sátt í samfélaginu um kerfið. Myndin er ekki rannsóknarblaðamennska nema að litlu leyti, því vissulega klippi ég inn staðreyndir. En aðallega er þetta um stemninguna og hvernig óöruggt atvinnuástand hefur áhrif á hvern og einn. Þetta er Íslandssaga, sem er svo stór og mikil að það hefur enginn almennilega treyst sér til að koma við þetta efni. Þetta er bara byrjunin. Það verður að halda áfram að skoða þetta og rannsaka ofan í kjölinn.“

Þess má að lokum geta að myndin Veðrabrigði verður sýnd í Bíó Paradís fram til 2. desember.

Morgunblaðið fimmtudaginn 26. nóvember 2015.



« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31