A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
26.07.2016 - 07:14 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Ingunn Jónsdóttir - Fædd 9. maí 1916 - Dáin 12. júlí 2016 - Minning

Ingunn Jónsdóttir (1916 - 2016)
Ingunn Jónsdóttir (1916 - 2016)
« 1 af 2 »
Ingunn Jónsdóttir fæddist 9. maí 1916 í Botni í Dýrafirði.

Hún lést 12. júlí 2016 á Hrafnistu í Reykjavík.

Foreldarar hennar voru hjónin Anna Kristjana Sigurlínadóttir húsmóðir, f. 1882, d. 1971, og Jón Justsson bóndi í Botni, f. 1854, d. 1945. Hún var sjöunda í röð níu systkina sem öll eru nú látin, þau voru Sigurlína Margrét, Sigríður Jóna, Þórður Kristinn Júlíus, Ragnheiður, Magnús, Sigurlaug Jóhanna, Ingunn, Guðmundur Garðar og Inga Snæbjörg.

Ingunn giftist 19. nóvember 1939 Kristjáni Ágúst Lárussyni, f. 3. janúar 1910, d. 1. júní 2009, frá Hvammi í Dýrafirði.

Foreldrar hans voru Guðrún Helga Kristjánsdóttir, f. 1869, d. 1968, og Lárus Ágúst Einarson, f. 1871, d. 1957.

Þau Ingunn og Ágúst eignuðust sjö börn:
1. Kristján Jón, f. 5. janúar 1940, kvæntur Ástrúnu Jónsdóttur.
2. Jóhannes Jakob, f. 17. desember 1942, kvæntur Kristjönu Ingvarsdóttur.
3. Ágúst, f. 10. júlí 1946, kvæntur Björgu Hemmert Eysteinsdóttur.
4. Guðrún Lára, f. 10. júlí 1946, gift Nirði Marel Jónssyni.
5. Arnbjörg, f. 28. júní 1947, gift Ólafi Ólafssyni.
6. Jónas, f. 14. október 1949, kvæntur Rannveigu Hjaltadóttur.
7. Kristjana, f. 20. júlí 1955, gift Guðmundi Hákoni Jóhannssyni.

Alls munu afkomendurnir vera 69 talsins.

Tveggja ára var Ingunn tekin í fóstur til móðursystur sinnar, Ingibjargar Sigurlínadóttur, f. 1879, d. 1973 og Arnfinns Jónssonar, f. 1860, d. 1946 sem bjuggu í Ytri-Lambadal og síðar að Dröngum í Dýrafirði.

Hún lauk námi við húsmæðraskólann á Ísafirði árið 1938. Ingunn var áhugasöm handverkskona og hafði mikið yndi af útsaum og handprjóni. Hún var að mestu heimavinnandi og annaðist uppeldi barnanna en eftir að hún flutti suður starfaði hún sem saumakona fram á efri ár.

Ingunn og Ágúst byrjuðu sinn búskap í Efri Mið-Hvammi í Dýrafirði. Árið 1945 fluttu þau út á Þingeyri og þar ólust öll börn þeirra upp í góðu atlæti. Það var síðan árið 1970 að þau taka sig upp og flytja til Reykjavíkur á eftir börnunum sem flest voru þá farin suður. Þau bjuggu í Vesturbænum, lengst á Seljavegi en síðustu árin dvöldu þau á Hrafnistu í Reykjavík og áttu þar marga góða daga og ljúfar stundir.

Ingunn verður jarðsungin frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 26. júlí 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

___________________________________________________________________________________________

 

Minningarorð Bjargar Eysteinsdóttur

 

Ég man sérstaklega vel eftir því þegar ég hitti tengdaforeldra mína í fyrsta skipti. Ég var frekar óróleg hvernig þau myndu taka mér. Þegar okkur hjónaleysin bar að garði var frændi að vestan nýfarinn frá þeim. Hann var ekki vanur að taka strætisvagn og fór víst inn í vagninn að aftan. Aðaláhyggjuefni tengdaforeldra minna var hvort hann hefði ekki örugglega borgað. Ingunni fannst þetta samt mjög spaugilegt og við hlógum öll dátt. Þetta lofaði sannarlega góðu um framhaldið.

Við tengdamæðgurnar höfum oft hlegið saman gegnum árin og jafnvel komið okkur í vandræði með því. Samskipti okkar hafa alltaf verið ákaflega góð og aldrei hefur neinn skugga borið þar á.

Það var notalegt að koma á Seljaveginn og voru Ingunn og Ágúst höfðingjar heim að sækja.

Börn voru sérstaklega hænd að Ingunni enda kom hún fram af virðingu við þau og sinnti þeim mjög vel.

Ingunni féll aldrei verk úr hendi, ef hún var ekki í eldhúsinu þá var hún með einhverja handavinnu.

Síðustu árin voru henni frekar erfið. Hún hafði séð á eftir eiginmanninum og mörgu góðu samferðafólki. Sjónin var orðin léleg svo hún átti erfitt með lestur og handavinnu.

Það er ekki langt síðan Ingunn, þá orðin 100 ára, stóð upp, rétti úr sér og tók nokkrar leikfimisæfingar fyrir okkur. Hún var líka góður leikari og átti létt með að herma eftir fólki.

Ég vil þakka kærri tengdamóður minni samfylgdina í nærri 50 ár. Við munum sakna sunnudagaheimsókna okkar á Hrafnistu.

Blessuð sé minning þeirra hjóna, Ingunnar og Ágústs.

 

 

Björg.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 26. júlí 2016.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31