A A A
  • 1950 - Einar Helgason
  • 1978 - Gestur Magnús Magnússon

Merkilegt er hvað sundlaugargestir í Sundlauginni á Þingeyri hafa gaman af að gera að gamni sínu, til dæmis snemma á morgnana. Svo tíðkast þar alls konar menningarupplestrar og ályktanir í lands-og heimsmálum sem gárunganir segja að minni bara á Snorra gamla í Reykholti sællar minningar. Kallinn var víst alltaf í laugu, sem menn kölluðu náttúrlega Snorralaug og stjórnaði þaðan öllu með harðri hendi. Í Þingeyrarlaug er Þingeyrarakademían sístarfandi og er hún víst orðin heimsfræg, eða þannig. Og fleira mætti nefna ef út í það væri farið sem nú segir.


Við bræðurnir og Gaui

   Í lauginni er starfandi sönghópur sem kallar sig Við bræðurnir og Gaui. Þetta er víst trio að gömlu máli en sumir kalla þetta sextett og miða þá við vaxtarlag þeirra félaga. Eitthvað hafa þeir æft í vetur og er þar efst á skrá Öxar við ána, texti eftir Steingrím J. Thorsteinsson, þjóðskáld en lag eftir Helga E. Helgason, lúðurþeytara.


Munurinn á dúr og moll

  Nú nú. Þeir Bræður og Gaui hafa ekki getað æft sig mikið, enda tíðarfarið verið þannig. Síðan hafa verið ýmsir persónulegir erfiðleikar í söngbandinu, ekki þó neinn kjaftavaðall eða svoleiðis. Enda stranglega bannað. Hugsið ykkur til dæmis, lesendur góðir, að einn þeirra á mjög erfitt með að læra texta. Ruglar til dæmis endalaust saman orðunum þjóð og fljóð. Þó þau rími saman, getur þetta verið bagalegt í flutningi. Og sá sami veit jafnvel ekki hver er munurinn á dúr og moll! Svo er annar sem á það jafnvel til að hætta að syngja í miðjum konsertum. Stoppar bara. En svo getur hann rekið upp rokur þegar hann kemur inn í sturtu! Sá þriðji er aftur á móti allt öðruvísi. Alltaf til í að syngja hvað sem er. Og alltaf fyrsti maður á dekk ef eitthvað stendur til að gera, syngja og svona.


Erfitt að halda uppi aga!

  Yfirmaður þeirra Bræðranna og Gaua á oft í miklum vandræðum með að halda uppi aga. Verður hann þá stundum að taka af skarið og segir þá gjarnan: Nú syngið þið þetta bara þegjandi og hljóðalaust og þora þeir þá ekki annað en hlýða.

  Nú er til dæmis verið að æfa nýtt lag og er það  Íslandslagið Heyrið vella á heiðum hveri eftir Grím Thomsen við lag Björgvins Guðmundssonar tónskálds. Þetta kvæði Gríms og ljóð Björgvins er erfitt í flutningi nema um kóra sé að ræða. Söngstjóri þeirra Bræðranna hefur tekið það ráð að byrja bara nógu hátt uppi með drengina og þá geta þeir sungið sig niður sem kallað er. Þetta er erfitt, en hljómburðurinn í Sundhöllinni, á erlendu máli Acoustic, er mjög góður og reddar stundum málinu, þó ekki alltaf.

  
Nýlega kom fyrirspurn til þeirra bræðranna hver þeirra væri eiginlega Gaui. Því miður eru þeir ekkert of klárir á því sjálfir, frekar en bræðurnir frá Bakka sem mundu ekki alltaf hvað hver hét. En Bræðurnir og Gaui redduðu sér út úr vandamálinu með þessu snilldar svari: Það kemur í ljós!

 
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31