Í tilefni Dýrafjarðarganga: - Að fortíð skal hyggja á Rauðsstöðum í Borgarfirði - 2. grein
Frá liðnum árum
Gísli Vagnsson á Mýrum skrifar svo í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1977, í grein sem hann kallar Frá liðnum árum:
„Það var vorið 1922 að ég gerðist heimilismaður að Rauðsstöðum í Auðkúluhreppi. Þá bjuggu þar hjónin Þórarinn Ólafsson frá Múla í Gufudalssveit og Sigurrós Guðmundsdóttir frá Sauðeyjum á Breiðafirði, mestu dugnaðar-og sæmdarhjón.
Þetta vor bar svo við að ung stúlka kom í heimsókn að Rauðsstöðum. Stúlkan var Guðrún dóttir Jóns bónda Ormssonar í Sauðeyjum. Afleiðing þessarar heimsóknar varð sú, að við ákváðum að fylgjast að í lífinu, þótt ekki yrði af sambúð fyrr en árið eftir, en þá réðumst við í húsmennsku að Rauðsstöðum og dvöldum þar tvö næstu árin, en fluttumst þá að Gljúfurá í sömu sveit og bjuggum þar í ellefu ár.“
Þórarinn á Rauðsstöðum, síðasti bóndinn þar, var mikill dugnaðarmaður sem áður segir. Gísli segir að hann hafi fyrstur Innfjarðarbænda girt tún sitt fjárheldri girðingu, leiddi fyrstur þeirra vatn í bæ sinn, byggði fyrstur stórt fjárhús og hlöður undir járnþaki og byrjaði fyrstur með votheysverkun.
Svo segir Gísli:
„Rauðsstaðir voru mikil heyjajörð, en erfið og hættusöm fyrir sauðfé. Þrátt fyrir ítrustu umhirðu var féð ekki fátt, sem Þórarinn var búinn að missa öll þau ár, sem hann bjó á Rauðsstöðum, ýmist í norðanáhlaupum haust og vor, þegar allt í einu var skollinn á öskrandi kafaldsbylur með svo mikilli veðurhæð, að fé sló niður og annaðhvort rotaðist eða lá niðurfrosið á engjunum, þegar að var komið, ellegar það lenti undir móð og kramdist til dauðs, færist ofan í eða flæddi og færi í sjóinn.
Á öllu þessu var Þórarinn orðinn þreyttur. Svo var það haustið 1933, þá missti hann 40 fjár í sjóinn, flest ær. Þá var mælirinn fullur. Vorið eftir fluttist Þórarinn að Naustabrekku á Rauðasandi.“