A A A
  • 1964 - Hermann Drengsson
Skarphéðinn Össurarson.
Fæddur 30. júlí 1916 - Dáinn 5. apríl 2004.
Skarphéðinn Össurarson. Fæddur 30. júlí 1916 - Dáinn 5. apríl 2004.
« 1 af 2 »

Í dag (gær - 30. júlí 2016) hefði faðir minn, Skarphéðinn Össurarson, orðið hundrað ára. Hann bjó yfir frægum, smitandi hlátri, og kristaltærum tenór. Hann móðgaðist þegar hann söng í kirkjukór Óháða safnaðarins, og var spurður hvort hann væri fyrsti tenór. „Nei, ég er hetjutenór!“

Pabbi skrifaði og lék revíur suður með sjó með stórleikurum einsog Helga Skúlasyni, Gunnari Eyjólfssyni, Kristni Reyr, Ólafi biskup, að ógleymdum stórvini sínum, Helga S. Jónssyni, formanni þjóðernisjafnaðarmanna. Undir þá stjórnmálastefnu var hann meira en hallur „áður en Adolf gekk af göflunum.“ Hann kvæntist seint, lifði hátt, var lífsglaður gleðimaður án þess að verða drykkjumaður úr hófi, og sagði stórkostlegar gleðisögur af þessum frægu lífskúnstnerum Keflavíkur. Seinna lék hann eitt aðalhlutverkið í einni af fyrstu alvöru kvikmyndum Íslands, Bakkabræðrum. Í Keflavík bjó þá og alltaf síðan Bjarni Össurarson, bróðir hans, og frægur músíkant. Þegar amma mín dó frá honum, langt um aldur fram, fót hann fótgangandi einn síns liðs, sextán ára gamall, alla leið úr Keldudal í Dýrafirði suður til Keflavíkur til Bjarna bróður síns.

Fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn og skátana taldi hann Frímúrarahreyfinguna göfugustu hreyfingu vorra tíma. Áratugum saman var hann ræðumeistari hjá Frímúrurum, og fór fögrum orðum um það mannval Íslendinga sem þar kom saman. Baden Powell, stofnandi skátahreyfingarinnar var okkar maður. Um gagnsemi skátahreyfingarinnar nefndi hann gjarnan að frumburður hans hefði komið undir á skátamóti á Úlfljótsvatni.

Sú yfirlýsing var löngu síðar dregin til baka með formlegum hætti eftir að frumburðurinn fór í hundana að hans mati með því að glæpast í framboð fyrir höfuðóvininn, Alþýðubandalagið. Það hneyksli kom ofan í fyrri skömm eftir að sonurinn var handsamaður af lögreglu viðr ræðuhöld af þingpöllum varinn af 200 vöskum háskólastúdentum. Þann dag taldi pabbi þann svartasta á allri sinni ævi. Um kvöldið leitaði hann huggunar hjá vini sínum Gunnari Thoroddsen. Hann sagði honum að hafa ekki nokkrar áhyggjur af drengnum: "Skarphéðinn minn, eftir tíu ár verður hann einn af okkur.“

Pabbi lýsti sér sjálfur sem blásvörtu íhaldi. Hann vildi lög og reglu, og kommúnisminn var í hans augum pest. Hann lýsti oft með stolti þegar hann fór eftir heimsmót skáta í París árið 1947 í ferðalag um Evrópu og var staddur í Tékkó þegar Sovétmenn tóku landið. Þeir lokuðu tékknesku landamærunum með vegatálmum. Þá óku íslenskir skátar í gegnum tálmana undir gapandi vélbyssukjöftum sovéska hersins. „Kommarnir skulu aldrei taka mig lifandi!“ sagði hann hróðugur þegar hann lýsti þessum stóratburði í lífi sínu. Sú frásögn varð vitakuld dramatískari með árunum - einsog vera ber. Það sigruðust ekki allir á sovéska hernum... 
.
Með tímanum fannst honum Sjálfstæðisflokkurinn hneigjast fullmikið til vinstri. Þegar Árni Sigfússon varð borgarstjóraefni flokksins sat hann heima af prinsipástæðum: „Ég skal aldrei kjósa vinstri mann sama hvaða fjandans flokki hann tilheyrir.“ - Gunnar Thoroddsen taldi hann bera af öllum öðrum stjórnmálamönnum, kvað hann aldrei hafa stigið feilspor í pólitík og studdi gegnum þykkt og þunnt, Geirsklíkan var hins vegar verri en Framsókn. Undir þessu öllu sat móðir mín æðrulaus og gerði ekki uppreisn fyrr en Ólafur Ragnar fór í framboð í Reykjaneskjördæmi fyrir Alþýðubandalagið. Þá var ég orðinn eftirmaður hans sem ritstjóri Þjóðviljans.

Mér er minnisstætt hvernig gamla manninn setti hljóðan þegar móðir mín lýsti yfir að hún ætlaði að kjósa Ólaf Ragnar og Alþýðubandalagið. Það varð honum áfall. Seinna trúði hún mér fyrir að í landsmálununm hefði hún alltaf kosið Alþýðuflokkinn í laumi, og síðar Alþýðubandalagið eftir að ég komst þar til áhrifa. Hins vegar hefði hún gert það fyrir pabba að styðja íhaldið í borgarstjórn. Pabbi hennar og afi minn, Kristinn Magnús af hinni frægu Fremra-Háls ætt sem stundum var kölluð Flösku-Háls ættin, sonur Gíslínu sem átti heima í Engey, dáði Héðinn Valdemarsson, sem hlaut tragísk pólitísk örlög. Afi var verkamaður en kaus jafnan á milli íhaldsins og kratanna. Hann fyrirleit kommana eftir að þeir studdu Sovétríkin í vetrarstríðinu gegn Finnum. Ég vissi því ekki fyrr en á fullorðinsárum að í æðum mínum rann líka sósíaldemókratískt blóð og sennilega móðurætt minnar að stórum hluta. Pabbi hafði stundum uppi lágvært muldur einsog við sjálfan sig um að tengdafólk sitt væri háskalega grunnhyggið í stjórnmálaskoðunum. Sjálfur hef ég alltaf litið á mig sem mann Héðins, Hannibals, syrgi Alþýðuflokkinn alla daga og skilgreini mig sem eðalkrata af toga Birgis Dýrfjörð.

Í tölu pólitískra goða föður míns gekk Albert Guðmundsson næstur Gunnari Thoroddsen. Þegar Albert stofnaði Borgaraflokkinn gekk pabbi óðara til liðs við hann, og sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Hann skipaði heiðursæti flokksins á Vesturlandi, fór með Inga Birni á hvern einasta kosningafund og hélt ræður á öllum. Sr. Geir Waage sagði að hann hefði snúið heilum kosningafundi í Reykholti með lokaræðu sinni. Ingi Björn vildi fá hann í annað sætið, en þá taldi pabbi að hann væri orðinn gamall, og vékst undan. Án efa hefði hann einhverju sinni komið inn á þing sem varaþingmaður fyrir Inga Björn. Þannig munaði sögulegri hársbreidd að við feðgar sætum saman á Alþingi fyrir sinn hvorn flokkinn - og hann í stjórnarandstöðu við son sinn.

Pabbi var trúaður, grjótharður spíritisti af toga sr. Jóns Auðuns, og taldi sig í stöðugu prófi af hálfu skapara síns. Það birtist fyrst og fremst í því að öll börnin hans finm römbuðu að hans mati á barmi alvarlegrar vinstri villu. Þetta taldi hann samsvara örlögum Jobs sem Drottinn sló kaunum til að reyna í honum trúarleg þolrif. Hann ræddi þessi örlög stundum, gjarnan öls við pel, og kvað vera harmleik allrar sinnar ævi. Á honum átti ég þó enga sök, og var á bak og burt þegar systkini mín, sum miklu yngri, komust til vits og ára.

Við vorum báðir örgeðja, fastir á skoðunum, einkum þá, og rifumst oft heiftarlega um stjórnmál. Eina nóttina þegar ég var nýbyrjaður í MR og orðinn Hannibalisti henti hann mér út um miðnætti í hellirigningu eftir rosalegar deilur um Moggann og Víetnamstríðið. Ég kom ekki aftur. Ég fór á sjóinn um vorið og endaði með því að taka stúdentspróf utan skóla. Guðni rektor reyndi að tala okkur saman en mistókst. Foreldra mína sá ég ekki í nokkur ár. Ég kom ekki heim fyrr en fulltíða maður eftir að dr. Árný var komin til sögu.

Seinna sættumst við svo fullum sáttum og urðum góðir vinir þegar hann tók að eldast. Ég var þá orðinn þingmaður.

Alþýðuflokksins og tvísýnt um afdrif beggja í einhverjum kosningum. Þá kom pabbi til mín, kvað blóð þykkara en vatn og hér eftir myndi hann kjósa son sinn í landsmálunum: „En vita skaltu, sonur sæll, að ég fyrirlít jafnaðarstefnuna.“

Undir lok ævi hans fórum við árlega saman, oft tveir einir, heim í Dýrafjörð á afmælisdaginn hans, og jafnan í Keldudal. Hann vildi einungis gista í gamla líkhúsinu á Þingeyri, og kvað það best hæfa. Kvikur á fæti fram á síðasta dag, og skoppaði jafnan yfir dalinn að Skálará, þar sem hann ólst upp. Það var hans pláss í tilverunni og þangað kvaðst hann snúa á efsta degi. Skálaráin var þá grjótrústir einar. Hann sýndi mér gamla rúmstæðið sitt, hlaðið upp úr stóru skófum settu flögugrjóti úr Hundshorninu, snarbröttu fjalli beint ofan bæjarins. Úr rúmhleðslunni dró hann grjót undan höfðagaflinum og skaut í bakpoka minn. Síðan hef ég sofið með sama grjót og hann undir mínu eigin rúmi.

Í síðasta skiptið héldum við upp á 85 ára afmæli hans með tveggja manna afmælisveislu í glaðasólskini og lognstillu og sátum á gamla rúmstæðinu. Þá var svo komið, að hann mátti ekki lengur drekka eðaldrykk sinnar löngu ævi, skoskt viskí, en dró þó í tilefni dagsins upp pelaræfil og tætlu af hangikjöti. Það var þá líka forboðin vara að bestu lækna ráðum. Daginn eftir lá hann hundveikur í líkhúsinu en taldi það tæra fagurfræði yrði hann kallaður á fund síns herra úr líkhúsinu í Dýrafirði.

Í þessum síðasta túr okkar vestur drápum við fæti í Bolungarvík, fæðingarstað hans, þar sem vinur hans og stúkubróðir Ólafur bæjarstjóri rauk út af fundi hafnarstjórnar og bauð honum í mat. Á Flateyri faðmaði Einar Oddur hann að sér og bauð í kaffi. Einar var þá eini maðurinn í Sjálfstæðisflokknum sem faðir minn taldi sannan íhaldsmann. Ég hafði orð á því að kempur flokksins sýndu gömlum Sjálfstæðismanni drjúgan sóma. Það fannst honum óþarflega lágreist hugsun og taldi sjálfsagt að bestu menn Vestfjarða leituðu hann uppi nær hann kæmi á heimaslóðir vestra:

„Þetta er munurinn á okkur og ykkur. Í Sjálfstæðisflokknum hafa menn alltaf kunnað að koma fram við höfðingja.“

 

 

Össur Skarphéðinsson skrifar Facebook-síðu sinni 30. júlí 2016

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30