A A A
07.03.2016 - 13:34 | Vestfirska forlagiđ,Blađiđ Vesturland

Hvalkaupaferđ frá Búđardal til Flateyrar fyrir réttri öld síđan

Kápumynd bókarinnar er tekin á hvalstöđinni á Höfđarodda í Dýrafirđi - Framnesi.
Kápumynd bókarinnar er tekin á hvalstöđinni á Höfđarodda í Dýrafirđi - Framnesi.
« 1 af 5 »

Bókin „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ eftir Smára Geirsson er afar merk heimild um norska hvalveiðitímabilið 1883 – 1915

Smári Geirsson fyrrum bæjarfulltrúi á Neskaupstað og skólameistari Verkmennaskóla Austurlands hefur skrifað bókina „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ sem kom út í árslok 2015 en árið 1915, réttum 100 árum áður voru stórhvalaveiðar við Ísland bannaðar með lögum. Enn má sjá á nokkrum stöðum leifar hvalstöðva hérlendis, þó aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum, en engar fyrir norðan land og engar á Suðurlandi eða Vesturlandi.

Flestar voru stöðvarnar reistar á síðari hluta 19. aldar eða í byrjun 20. aldar en á Vestfjörðum má finna leifar stöðva frá 17. öld en allt bendir til þess að Arnfirðingar hafi lagt stund á hvalveiðar frá byrjun 17. aldar og fram undir lok 19. aldar, eða allt þar til hvalir hættu að koma í fjörðinn.

Smári leitaði m.a. fanga í Noregi við efnisöflun og skrif bókarinnar, ekki síst við Hvalasafnið í Sandefjord, og í samtölum við fólk í norsku sveitarfélögunum Stokke, Mads Ramstad, Haugasundi og Túnsbergi auk þess að ræða við eldra fólk hérlendis sem mundi hvalstöðvatímann hér á landi.

 

Fyrsta ítarlega rannsóknin á hvalveiðum

 

Í þessu mikla verki  Smára Geirssonar birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist. Á síðari hluta 19. Aldar urðu Norðmenn forystuþjóð á sviði hvalveiða og þá urðu veiðarnar umfangsmestar við landið. Einnig er fjallað um daglegt líf fólks á hvalstöðvunum sem og afstöðu Íslendinga til þeirra.

Í hafinu umhverfis Ísland hefur löngum verið gnótt hvala en frá því greina ýmsar fornar heimildir. Víða í þessum heimildum er getið um hvalreka en þeir voru álitnir vera meðal helstu hlunninda. Sannast sagna virðast hvalrekar oft hafa verið ein helsta lífsbjörg Íslendinga þegar hart var í ári og sultur svarf að. Sjórekinn hvalur getur mettað marga munna og kveikt vonir brjósti þeirra landsmanna sem nutu hans. Því er ekki að undra að orðið hvalreki hafi í íslensku máli einnig fengið merkinguna óvænt happ.

Engar hvalveiðistöðvar voru á Vesturlandi á norska hvalveiðitímabilinu 1883 til 1915 en fjölmargar á Vestfjörðum, þeirra einna þekktust hvalstöðin á Sólbakka í Önundarfirði, rétt innan Flateyrar. Aðrar voru á Langeyri í Álftafirði, á Höfðarodda í Dýrafirði, á Suðureyri í Tálknafirði, á Stekkeyri í Hesteyrarfirði, á Dvergasteinseyri í Álftafirði, á Meleyri í Veiðileysufirði og á Uppsalaeyri í Seyðisfirði. Á Austfjörðum voru 6 hvalveiðistöðvar.

Hvalstöðin á Sólbakka í Önundarfirði hóf starfsemi árið 1889 undir stjórn Hans Ellefsens. Hann gaf allt þvestið af fyrstu hvölunum sem komu til vinnslu og um tíma einnig undanfláttu. Í fyrstu gátu
heimamenn komið í hvalstöðina og sótt hval fyrir sitt heimafólk og skepnur, en þurftu að skera hvalinn sjálfir. Þetta var álitið mikið happ fyrir næstu nágranna hvalstöðvana. Fljótlega lögðu margir leið sína til Önundarfjarðar til að verða sér út um hval, jafnvel um langan veg. Það kann að vefjast fyrir mörgum hvað undanflátta, rengi og þvesta er. Undanflátta er fitumikið kjöt og rengislag á hval, rengi fituríkur sinavefur á kvið hvala og þvesti magurt hvalkjöt.

 

Hvalkaupaferð Dalamanna

 

Athyglisverð frásögn er í bókinni „Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915“ af hvalkaupaferð úr Dalasýslu til Önundarfjarðar.

Árið 1898 réðst Guðjón Ásgeirsson frá Kýrunnarstöðum í Dalasýslu til starfa á hvalstöð Elefsen á Sólbakka en að loknum tveimur vertíðum snéri hann heim. Þegar heim var komið spurðu sveitungar hans hvernig tiltækilegast væri að ná í hval til Vestfjarða, og þá helst fyrir alla sýsluna. Benti Guðjón á tvær leiðir. Önnur var sú að taka skip á leigu og þá þyrfti engin ílát undir hvalinn en þá leið töldu Dalamenn of áhættusama. Hin leiðin fólst í því að senda menn ásamt ílátum með strandferðaskipinu vestur og þegar ílátin væru orðin full kæmu þeir með þau til baka með skipinu.

Á fundi á Hvammi í Dölum var ákveðið að nota síðari aðferðina en fólk átti að leggja inn pöntun um það hversu mikinn hval það vildi. Alls reyndist þurfa 80 tunnur og olíuföt til ferðarinnar auk poka undir sporði en allar tunnurnar áttu að vera laggaheilar með botni í báðum endum en nokkur misbrestur var á því.

Um mánaðarmótin maí-júní 1901 lagði Guðjón af stað með strandferðaskipinu Skálholti frá Búðardal og með honum Ólafur Magnússon bóndi á Hafursstöðum sem var vanur beykir. Rengið kostaði 12 aura kílóið, sporður 8 aura og undanfáttan 2 aura. Gistingu fengu þeir á bænum Hvilft í næsta nágrenni hjá Sigríði Sveinbjarnardóttur og Sveini Rósinkranssyni.

Útskipun á Flateyri og uppskipun í Búðardal gekk ekki átakalaust þar sem Godfredsen skipstjóri reyndist stirður og erfiðir viðureignar. En hvalnum var skilað til kaupenda í allgóðu ásigkomulagi og hlutu þeir Guðjón og Ólafur lof Dalamanna fyrir. Lagt var að þeim félögum næsta vetur að fara aðra ferð en það aftóku þeir með öllu, töldu sig hafa fengið nóg af þessari einu ferð. Einnig var reynt að fá einhverja fyrir vestan til að koma með hval á báti eða skútu. En það tókst ekki og þar með dóu þessi bjargráð alveg út.

 

Blaðið Vesturland 18. febrúar 2016.

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31