Hrós vikunnar
Hrós vikunnar fá þau hjónin í Hólum, Ásta Kristinsdóttir og Friðbert Jón Kristjánsson. Ásta er ein af þessum konum sem aldrei getur óvinnandi verið. Hún vinnur langan vinnudag á Hótel Tjörn og leggur gjörva hönd á plóg við föndrið og frístundirnar hjá gamla fólkinu. Þegar hún er heima er það allt sem til fellur innan stokks. Og svo er það náttúrlega endalaus gestamóttaka og bakstur. Kleinurnar hennar eru frábærar eins og hjá fleirum hér í firði.
Friðbert Jón er aftur á móti í útideildinni. Þar er fjárbúskapurinn í öndvegi og gefur af sér góðan arð sem og reyndar æðarræktin gerir einnig. Þar býr hann að undirstöðunni frá Guðbrandi heitnum, fóstra sínum í Hólum. Svo er hann Berti heldur betur með tæki og tól í vinnu hjá ýmsum, bændum og búaliði. Alltaf tilbúinn þegar á þarf að halda.
Þegar hann Hemmi Gunn heitinn vinur okkar var í heimsókn hjá fóstru sinni á Húsatúni á veturna, kom hann oft á ýmiskonar leigubílum sem hann var ekki alltof klár á. Þá kom það fyrir í misjafnri færð að okkar maður lenti jafnvel utan vegar ef svo bar undir. Þá hljóp Miðbæjarkarlinn stundum undir bagga. Og oft var hringt í Hólabóndann að koma á henni Stóru-Bertu og redda málum. Þá gaf Hemmi honum nafnið Berti bjargvættur og má hann vel við það una.