Hrós dagsins fá vegfarendur um Skutulsfjarðarbraut
Í dag gefum við hinum almenna ökumanni um Skutulsfjarðarbraut í Skutulsfirði í Ísafjarðarbæ hrós dagsins. Á braut þessari er í gildi 60 km hámarkshraði. Ekki ber á öðru en svo til allir sem aka þessa leið virði þessi hraðamörk. Er það mikið ánægjuefni og sýnir bara einfaldlega hvað hægt er að gera ef menn vlja.
Almenningur veit að yfirleitt er það hraðinn sem veldur hinum hræðilegu umferðarslysum. Undir brot og slit þurfa menn endilega að komast á áfangastað sem allra, allra fyrst. Og verða þó stundum síðastir. Mætti ekki setja svona hraðamörk víðar?
Svo viljum við endilega koma því á framfæri að veghefilsstjórinn sem fékk hrós dagsins um daginn hjá okkur, heitir Sófus Magnússon á Ísafirði. Okkur þykir hann minna á snillinginn Sigurð Fr. Jónsson, núverandi útvegsbónda, sem gat heflað vegina og skilið við þá eins og heflaða fjöl, þó lítið væri stundum um um ofaníburðinn eins og kallað var í gamla daga.