Hreppsnefnd Auðkúluhrepps ályktar: Norður og niður með bankaleyndina!
Héraðsfréttir í léttum dúr
Hreppsnefnd Auðkúluhrepps hélt baráttufund daginn fyrir fyrradaginn kl. 14:00. Var fundurinn haldinn í Lokinhömrum og má það heita rart. Guðmundur Ingvarsson, leikmaður nr. 1 í Fellasókn og stelpan hjá honum Wouter, höfðu boðist til að lána hreppsnefndarmönnum hesta til ferðarinnar. Urðu þeir þó að afþakka færleikana vegna ófærðar, þannig að þeir fóru í þess stað á hestum postulanna. Voru þeir vel skæddir með mannbrodda undir sólum. Tók ferðin þá félaga 4 klst. frá Sveinseyri í Lokinhamra og þótti gott hjá mönnum á þessum aldri. Í Svalvogum fékk hver maður einn góðan snafs. Meira var það ekki, enda má það ekki í slíkum ferðalögum.
Ýmis mál voru á dagskrá fundarins, bæði í gamni og alvöru, einkum alvöru. Eftirfarandi ályktun um bankaleyndina var samþykkt einróma:
„Hreppsnefnd Auðkúluhrepps samþykkir að afnema alla bankaleynd í Framkvæmdabanka Auðkúluhrepps á fjármagnshreyfingum yfir 15 milljónir króna. Bankaleyndin er leyndarmál segja sumir sérfræðingar. Aðrir mætir menn, svo sem Kári Stefánsson segja: Burt með bankaleyndina!
Afleiðingar hinnar skuggalegu bankaleyndar sjá allir sem vilja sjá. Þær eru skelfilegar. Mestu ræningjar, dópsalar og peningaþvættismenn veraldarsögunnar hafa notfært sér hana út í yztu æsar. Þetta skilur öll alþýða manna. En ráðamenn skilja þetta alls ekki. Stórfyrirtæki og þeir sem „eiga“ alla peningana halda því auðvitað fram að slík ríkisleyndarmál megi alls ekki nefna við nokkurn mann. Síst af öllu við almenning sem alltaf borgar alla brúsa. Norður og niður með bankaleyndina!“
Jón Sigurðsson gat ekki mætt til fundar að þessu sinni. En hann sendi skilaboð að handan sem ritarinn meðtók með ósjálfráðri skrift eins og stundum áður, sbr. Guðmund Kamban á sinni tíð. Í skilaboðunum sagði að hann tæki heils hugar undir með hreppsnefndinni að afnema bankaleynd í Framkvæmdabanka hreppsins. Væri það til mikillar fyrirmyndar og sýndi að hreppsnefndin í sínum gamla hreppi væri vel á undan sinni samtíð.
Algjört bann við utanlandsferðum!
Þá samþykkti nefndin algjört bann við utanlandsferðum starfsmanna hreppsins. Og það þó þeir fari að væla um að þeir verði að fara þetta og þetta á einhverja fundi. Starfsmenn hreppsins eigi að nota fjarfundabúnað eins og Greta, Skype og slíkt, sem er í öllum tölvum, smáum sem stórum og hefur verið í mörg ár.
Fleira merkilegt skeði á þessum fundi og verður skýrt frá því síðar.
Grelöð Bjarmarsdóttir jarls á Írlandi
fundarritari