Hreppsnefnd Auðkúluhrepps ályktar: - Tímabært að endurræsa hreppinn og hefja uppbyggingu í kjölfar Dýrafjarðarganga!
Gamla hreppsnefndin í Auðkúluhreppi kom undan feldinum í morgun. Þar hefur hún legið um nokkurt skeið og íhugað ýmis framfaramál hreppsins að fornu og nýju. Ævintýrið um Dýrafjarðargöngin hefur blásið nýju lífi í hina gömlu hreppsnefnd. Aldrei að vita til hvers það getur leitt. Því nú er lag.
Á fundinum samþykkti nefndin að hefja nú þegar baráttu fyrir því að endurræsa hreppinn og starta uppbyggingu. Móttóið á að vera: Færum völdin aftur nær fólkinu! Sem sagt að völdin verði aftur færð heim í hérað. Var kosin nefnd í málið og hefur hún þegar hafið störf eða þannig. Í henni eru ýmsir nafnkunnir menn hér vestra, bæði lífs og liðnir. Sumir jafnvel á mörkunum.
Þessi samþykkt veldur nokkrum tímamótum. Um hana má auðvitað segja líkt og sumir spekingar hafa stundum orð á: Margt er sér til gamans gert. En ekki má gleyma því að öllu gamni fylgir nokkur alvara!