Hrafnseyrarheiði: - Gunnar búinn að moka fram í beygjur á Brekkudal
Í gærmorgun brá Gunnar Gísli Sigurðsson undir sig betri fætinum, hoppaði upp í Payloader sinn og blés snjó af veginum fram í beygjur á Brekkudal. Það var auðvitað Vegagerðin sem gaf honum grænt ljós á þetta. Er gott til þess að vita, því það lifnar yfir öllum sem hér ganga um grund, þegar slíkt á sér stað.
Ekki verður sagt að mikill snjór sé á sjálfum veginum þangað uppeftir. En í giljum og lautum er töluverður snjór. Sé litið til Hrafnseyrarheiðar má eiginlega segja það sama. Að vísu leyna snjóalög á veginum á þessu svæði oft á sér.
Snjóruðningurinn á vegkantinum frá því í vetur sést þó nokkuð vel upp í Kinninni. En efst í svokölluðu Horni nær snjórinn fram af kantinum á nokkuð löngum kafla. Svo er það náttúrlega spurningin hvernig snjóalög eru hinum megin í heiðinni í Skipadal. Ef að líkum lætur er meiri snjór þar.
Búast má við að Vegagerðin skoði snjóalög á Hrafnseyrarheiði upp úr 20. marz. Hvenær heiðin verður svo mokuð verður bara að koma í ljós. Er þetta sama verklag og gildir í Árneshreppi á Ströndum.
Í gær komu fimm menn á snjósleðum yfir Hrafnseyrarheiði. Voru það smiðir sem eru að vinna í Mjólkárvirkjun við endurnýjun Mjólkár 1.